135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[15:54]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Herra forseti. Málið sem hér er til umræðu er keyrt í gegnum þingið eftir afskaplega léttvægan undirbúning. Sem fjárlaganefndarmaður hef ég undanfarna daga greint af talsmönnum ráðuneyta, þar sem þeir hafa setið með okkur og farið yfir fjárveitingar ráðuneyta sinna fyrir 2. umr. um fjárlög, að í ráðuneytunum er engin vinna hafin varðandi þennan tilflutning. Í raun er fjárlagafrumvarpið sem er til umfjöllunar í dag fyrir vikið næsta marklítið plagg. Það lýsir svolítið því hvernig að málinu er staðið. Ég hef, undir þessum umræðum í dag, skoðað svolítið þennan bandorm sem liggur fyrir. Ég sé að stjórnarþingmenn sjá kannski ekki mikla ástæðu til að lesa bandorminn. Nú ætla ég ekki að halda því fram að bandormar séu skemmtilesning en þó má sjá, ef þetta er lesið og borið saman við þau lög sem eru í lagasafninu, hver verða raunveruleg áhrif af þessu.

Hér hefur margt verið sagt en ég er ekki viss um að það hreyfi við hæstv. ráðherrum ríkisstjórnarinnar að benda þeim á það virðingarleysi sem þeir sýna landbúnaðinum. Eða það virðingarleysi sem þeir sýna landsbyggðinni með því að færa sveitarstjórnarmál undir samgönguráðuneytið án þess að þar sé einu sinni hægt að breyta nafni á ráðuneytinu eins og komið var inn á í dag. Sama gildir um virðingarleysið gagnvart Hólum sem hv. þm. Jón Bjarnason minntist á.

Það væri lokatilraun að reyna út frá þeim menningar- og sögulegu rökum að minna á að síðast þegar vegið var harkalega að sjálfstæði Hóla, síðan eru komnar um fimm aldir síðan þá kostaði það mannfórnir. Það er vonandi að það geti gengið friðsamlegar fyrir sig nú en það er ekki auðvelt að vega að sjálfstæði slíkra höfuðbóla.

Mig langar að fjalla um hinn lagalega grunn. Þegar þessi bandormur er skoðaður þá kemur í ljós að hann er gerður án þess að í rauninni sé reynt að samhæfa það sem gert er. Við sjáum beinlínis dæmi um það hér, t.d. í 70. gr. þeirra laga sem við erum að fjalla um, að þeir sem þetta gera hafa lært af nútímafyrirbrigðum eins og tölvuforritinu Word sem allir hafa í tölvunum hjá sér. Þar eru til orðskiptiaðgerðir og hægt að segja: Taktu þetta orð og skiptu því út fyrir þetta, alls staðar þar sem það kemur fyrir. Í lagafrumvarpinu sem hér er til umfjöllunar lítur þetta svo út, með leyfi forseta:

„Í stað orðsins „landbúnaðarráðherra“ í 2. mgr. 2. gr. laganna og sama orðs hvarvetna annars staðar í lögunum kemur: sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.“

Af hverju er tilgreindur einn staðurinn þar sem orðið kemur fyrir og ekki leitað að hinum heldur sagt: Ef það er víðar þá skal því líka skipt út?

Í eitt skiptið er meira að segja haft fyrir því að taka þetta fram:

„Í stað orðsins „Landbúnaðarstofnunar“ í 1. mgr. 4. gr. laganna og sama orðs hvarvetna annars staðar í lögunum kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Matvælaeftirlitið.“

Af hverju er ekki gerð ein lítil lagaklásúla um að öllum lögum skuli breytt með þessu móti og hvað verður um þau lög sem ekki hafa verið tekin fyrir með þessu móti? Má þar t.d. nefna til sögunnar tiltölulega nýleg lög um Nýsköpunarmiðstöð, nr. 75/2007. Þar er valdið enn hjá landbúnaðarráðherra, sem er hver? Af þessum lögum er það að marka að alls staðar annars staðar skuli skipt út orðinu „landbúnaðarráðherra“ fyrir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Hins vegar eru örfáir staðir inni í lagasafni þjóðarinnar þar sem landbúnaðarráðherra hefur enn þá eitthvað að segja. Það hlýtur þá að vera hv. þm. Guðni Ágústsson sem hefur þau völd því að það er greinilegt af þessum lögum að núverandi handhafi þess valds, hæstv. ráðherra Einar Guðfinnsson, ætlar sér ekki að bera titilinn landbúnaðarráðherra heldur er það mikið í mun að heita sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Fleira í þessum nafngiftum nær í rauninni ekki máli. Þannig er ákveðið að breyta nafngift á stofnun sem var komið fyrir á Selfossi fyrir réttu ári síðan sem heitir Landbúnaðarstofnun. Hún býr enn við mjög ómótað lagaumhverfi, sem eðlilegt er með svo nýja stofnun. Lögin bak við þá stofnun má segja að séu nokkurs konar bandormur þannig að það bíður betri tíma að gera heildstæð lög fyrir þá stofnun. Það er algengt með nýjar stofnanir. En nú ber svo við að í þeim lögum skal nafninu alls staðar vera breytt í Matvælastofnun.

Það má velta því fyrir sér: Hvers vegna má stofnunin ekki heita Landbúnaðarstofnun? Röksemdin væri væntanlega sú að hún eigi að fjalla um fleira en það sem viðkemur landbúnaði. Ég tel þá röksemd næsta léttvæga vegna þess að ekki verður betur séð en að þessi stofnun eigi jafnframt að fjalla um innflutning gæludýra og útflutning stóðhesta og gæðinga. Mér þykir virðingin sem gefin er hvort sem er eigendum dýrra síamskatta eða hrossaræktendum í landinu ekki mjög mikil þar sem stóðhestarnir verða þá flokkaðir undir hrossabjúgu en ekki undir lifandi gripi sem mikil vinna er lögð í að rækta, sem eru að verða eitt helsta stolt þjóðarinnar á erlendri grund. Rökin fyrir nafnbreytingunni virðast ekki önnur en þau að við Íslendingar skulum losna við orðið „landbúnaður“. Vissulega væri gaman að fá svör forsætisráðherra við því hver rökin eru fyrir breytingunni. En ég þykist þó alveg sjá þau af öllu málinu. Orðið landbúnaður má ekki standa í lögum og má ekki vera á stofnunum og má helst ekki nefna landbúnað nema þá skeyta þar sjávarútvegi við.

Þetta er dapurleg sjálfsmynd þjóðar sem hefur lifað á landbúnaði í þúsund ár og á landbúnaði líf sitt að þakka. Þetta er dapurleg sjálfsmynd og dapurleg menningarmynd sem birtist okkur. Þar fyrir utan sé ég ekki hvernig þessi lagagrunnur Matvælastofnunar stenst í því að það er í rauninni ekkert gert til þess, í núverandi lögum um Landbúnaðarstofnun, nr. 80/2005, að skerpa á raunverulegu hlutverki hennar eða fella inn í þau lög öll þau verkefni sem flytjast undir stofnunina heldur er getið um breytinguna í allt öðrum lögum, lögum um matvæli nr. 93/1995. Þar eru talin upp nokkur verkefni hinnar nýju stofnunar en sú upptalning er líka tilviljunarkennd og mjög ófullnægjandi. Þar er aldrei talinn upp hrossaútflutningur eða gæludýraútflutningur. Það sjáum við aftur á móti með því að skoða sérlög um þau málefni sem breytt er þar sem breytt er nafngiftunum.

Ég hef ekki gert fullnægjandi leit að því hvort orðið Landbúnaðarstofnun hefur alls staðar verið fellt út úr lagatextum en ég vek athygli á því að orðið landbúnaðarráðherra og völd hans hafa ekki alls staðar verið felld út og ég tel þetta í rauninni vera til marks um það hvernig öll vinnan við þetta er. Tilgangurinn með þessum breytingum er harla óljós. Vissulega er verið að berja í þá bresti sem voru á ráðherraskipan í vor þegar Samfylkingin samdi um að taka við einu embætti færra en stólum. Það er í rauninni vafamál að hægt sé að tala um helmingaskiptastjórn þegar svona er farið að. Þess vegna er verið að púsla þessu svona saman. Ég tel afskaplega slæmt þegar klæðskerasauma á lögin með þessum hætti utan um þarfir einstakra ráðherra og valdahlutföllin í þessari einu ríkisstjórn sem enginn veit í dag hve lengi mun sitja.

Varðandi menntastofnanirnar sem nokkuð hefur verið rætt um í dag þá langar mig enn til að bæta þar við því að ég þykist vita að þau rök munu ekki hrífa á hæstv. ráðherra þessarar ríkisstjórnar — ég sakna þess að hæstv. menntamálaráðherra er ekki í salnum, ég hefði viljað beina orðum mínum til hennar — að sýna beri landbúnaðinum ákveðna virðingu, að sýna beri þessari elstu atvinnugrein og þessum gömlu höfuðbólum, Reykjum, Hvanneyri og Hólum ákveðna virðingu. En það eru önnur rök og mun nærtækari og kannski þykja þau nútímalegri, ég tel í rauninni bæði nokkurs gild, sem mæla með því að þessum breytingum á menntastofnunum landbúnaðarins verði slegið á frest og málið skoðað betur.

Það hefur verið viðvarandi vandi, herra forseti, í menntakerfi þjóðarinnar um nokkuð langt skeið hve áhersla á bóknám er mikil og áhugi nemenda og rækt skólanna við verknám er allt of lítil. Þetta kemur orðið bagalega niður á atvinnulífi okkar og hægt er að vitna til ótal ályktana frá samtökum atvinnulífs og stéttarfélögum í þessum efnum og þarf ekki nema að opna dagblöðin til að sjá umræðu um þetta. Menntastofnanir undir forræði menntamálaráðuneytis hafa, þrátt fyrir að þær séu margs góðs maklegar, haft afskaplega sterka tilhneigingu til að vera stofnanir bóknámsins og tengsl þessara menntastofnana við atvinnulífið eru afskaplega lítil. Með þessari breytingu erum við enn að auka á það sambandsleysi sem er milli menntastofnana þjóðarinnar og atvinnulífsins og það er mjög miður.

Svo ég endi þetta á smávörn sem ég vil halda uppi fyrir landbúnaðarráðuneytið og þeirri skoðun minni sem ég hef lengi haft að Íslendingar eigi sem landbúnaðarþjóð að fornu og nýju að hafa landbúnaðarráðuneyti. Sú skoðun hefur vissulega verið uppi innan allra stjórnmálaflokka að það megi skoða að stofna hér eitt atvinnuvegaráðuneyti. Ég er ekki þeirrar skoðunar. Ég tel að þó svo að landbúnaðarráðuneytið hafi verið lítið ráðuneyti miðað við sum önnur og umfang landbúnaðarins í hagkerfinu sé ekkert mjög mikið þá þurfi þessi elsti atvinnuvegur þjóðarinnar á sérstöku ráðuneyti að halda. Það er fleira sem telur en krónur og aurar í þessum efnum. Það telur mjög mikið að landbúnaðurinn hefur með að gera stærstu auðlindina sem við eigum inn í framtíðina sem er landið sjálft. Landbúnaðarráðuneytið fjallar um nytjar þess og það er afskaplega óheppilegt að fella það inn í eina skúffu í sjávarútvegsráðuneyti.

Ég vil að lokum kalla eftir svari sem ég hef ekki heyrt í dag þó svo að á það hafi verið minnst — ég vil í rauninni beina þeirri fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra — í fyrsta lagi hvort honum þyki eðlilegt að flokka útflutning hrossa og innflutning síamskatta undir matvælaeftirlit og í öðru lagi hvort það sé í alvöru sagt í umsögn um frumvarpið frá fjármálaráðuneytinu, hvort mönnum sé alvara með þeirri umsögn sinni, að hægt verði að gera þessar breytingar án nokkurs kostnaðar eða svo ég vitni, með leyfi forseta, orðrétt í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins:

„Fjármálaráðuneytið gerir ráð fyrir að áhrif frumvarpsins á kostnað ríkissjóðs verði einkum í formi tilflutnings á kostnaði milli ráðuneyta og stofnana og auki þannig ekki heildarkostnað ríkissjóðs.“

Allir sem einhverja reynslu hafa af opinberri stjórnsýslu vita að það er mjög kostnaðarsamt að flytja verkefni milli stofnana. Það er reynsla sem við höfum mjög greinilega úr sveitarstjórnargeiranum þar sem kostnaður við að flytja verkefni saman, þó svo að verið sé að hagræða með ákveðnum hætti, er oft gríðarlega mikill fyrstu árin og ég trúi því að það verði líka í þessu tilviki en mér finnst eins og frumvarp þetta sé lagt fram í ákveðnu alvöruleysi og þetta ber vott um það.