135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

raforkulög.

129. mál
[16:33]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég spyr hvort hæstv. iðnaðarráðherra er einhvers staðar nærri þegar svo skyndilega kemur að þessum dagskrárlið að hvorki þingmenn, sem næstir voru á mælendaskrá, né hæstv. ráðherra hafa áttað sig á því að málið er komið á dagskrá.

Í morgun urðu nokkrar umræður um þær breytingar sem hér er lagt til að gera á raforkulögunum umdeildu sem sett voru á árinu 2003. Hér er í raun verið er að breyta nokkrum atriðum í þessum lögum og vil ég fara um það nokkrum orðum.

Ég vil fyrst fjalla um breytingartillögu sem varðar skilgreiningu á stórnotanda, að í stað 14 megavatta notkunar í 15. tölulið í skýringum komi 8 megavatta notandi. Þetta er skýrt með því í greinargerð og kom fram í morgun að nú séu á tröppunum stóriðjufyrirtæki eins og netþjónabú sem eru orkufrek en þurfa ekki svo mikla orku að þau falli undir skilgreininguna á stórnotanda, þurfi 14 megavött. Þessi breytingartillaga var nokkurt tilefni umræðna í morgun um stórnotendur í gróðurhúsaræktun, ylrækt á landinu. Þar er oft um að ræða marga notendur sem sameiginlega nota mikið rafmagn en eiga þess ekki kost, vegna þessarar skilgreiningar, að vera sameiginlega túlkaðir sem stórnotandi. Í greinargerð með upphaflega ákvæðinu um skilgreiningu á stórnotanda er tekið fram að nauðsynlegt sé að taka af öll tvímæli um að ekki sé heimilt að leggja saman notkun margra smárra notenda eða notenda sem nota mikið magn orku en taka við henni á mörgum stöðum.

Það sem ég vek athygli á, virðulegi forseti, er að til að koma til móts við þær ábendingar og hugmyndir sem hér voru ræddar í morgun, að ylrækt gæti fallið undir stórnotandahugtakið eins og það er hér skilgreint, yfir 8 megavött eða einhver önnur tala, þá þarf að breyta orðinu „notandi“ í notendur. Ég vil lýsa því yfir að við munum freista þess að ræða um þetta í hv. iðnaðarnefnd þegar þessi breyting kemur þar til umfjöllunar. Við setjum okkur í sjálfu sér ekki á móti því að viðmiðið sé lækkað en viljum áskilja okkur rétt til þess að leita leiða til að fella ylræktina, sem er auðvitað stóriðja í þeim landshlutum þar sem hún er hvað mest, undir þetta ákvæði.

Ef hæstv. iðnaðarráðherra væri hver einhvers staðar í húsinu væri freistandi að fá að ræða við hann um breytingartillöguna sem hér er gerð, um að lækka gjaldskrá fyrir umsýslu Orkustofnunar. Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu er eftirlitsgjald þetta nú mun hærra heldur en áætlað var að það yrði og þess vegna er lækkunartillagan fram komin.

Ég vil vekja athygli á því við þessa umræðu hvers vegna hækkunin er svo mikil sem raun ber vitni. Það er vegna þess að það er miklu meiri flutningur um kerfið en fyrirhugað var. Ástæðan er tvíþætt að mínu mati. Annars vegar eru miklu meiri flutningar um lengri veg en ætlað var vegna Kárahnjúkavirkjunar sem ekki er komin í gagnið enn þá. Þar er flutt að orka lengra að. Hitt er aftur staðreynd, sem menn hafa ekki fjallað mikið um hér, að það er mikið umframmagn af raforku til í landinu. Vegna hagstæðs tíðarfars og mikillar hlýnunar eru öll lón full og má segja að í kerfinu sé sem nemur einni lítilli virkjun ónotaðri. Umræður um þetta hafa ekki farið hátt. En ég hefði haft gaman af því að ræða þetta við hæstv. iðnaðarráðherra af þessu tilefni en honum er væntanlega ekki kunnugt um að þessi umræða er þegar hafin.

Ég ætla að leyfa mér að spyrja ráðherrann þótt hann sé ekki viðstaddur, hann hlýtur bráðum að koma. Mig langar að spyrja hvort ekki sé möguleiki til þess núna þegar þessi raforkulög eru opnuð, líklega í þriðja sinn frá 2003, að gera ráðstafanir til þess að banna leynd á raforkuverði í sölusamningum til stórnotenda. Ég sé fyrir mér að mögulegt sé að gera það með því að menn geti ekki sem stórnotendur fallið undir það hugtak og notið sérstakrar gjaldskrár sem lögin gera ráð fyrir að hægt sé að gera við stórnotendur nema orkusölusamningurinn og það verð sem raforkan er upphaflega seld á sé opinn og öllum ljós. Það er mjög mikilvægt að fullt gagnsæi sé í sölu raforku til stóriðju og stórnotenda. Ástæðan er í rauninni tvíþætt. Við þekkjum öll deilurnar um arðsemi Kárahnjúkavirkjunar. Það er alveg ljóst að það var ekki nokkur leið, og er ekki nokkur leið meðan raforkuverðið er leyndarmál og ekki má segja frá því og það er ekki á allra vitorði og það fæst ekki staðfest hvað það er, að fjalla á skynsamlegan hátt um arðsemina þegar þessa stóru breytu vantar.

Það er ekki nóg að setja upp myndasýningar til að selja hugmyndina um góða arðsemi. Það verður að vera hægt að leggja staðreyndirnar á borðið. Og það er mikilvægt að bæði almenningur hafi aðgang að upplýsingum sem þessum, þeirri stóru og mikilvægu breytu, til að geta mótað afstöðu sína til einstaka framkvæmda eins og Kárahnjúkavirkjunar eða fyrirhugaðra virkjana í Þjórsá. Það eru þrjú stykki. Það er jafnframt nauðsynlegt til að menn geti mótað sér skoðun á afstöðu stjórnmálamanna sem um þetta taka ákvarðanir í stjórnum og nefndum.

Stjórnmálamenn sem hafa þetta hlutverk að taka ákvarðanir hafa heldur ekki möguleika, meðan leynd hvílir yfir raforkuverðinu, til að rökstyðja eða skýra afstöðu sína til hlutanna. Það er m.a. ástæðan fyrir því að sú sem hér stendur hefur neitað að taka við upplýsingum sem leyndarmáli í umboði eigenda, í því tilfelli umboði Reykvíkinga. Það er ekki hægt að taka við upplýsingum sem þessum undir trúnaði og geta ekki rökstutt mál sitt nema með því að brjóta trúnað að viðlagðri hegningu. Ég tel að með opnun á þessum raforkulögum í þriðja sinn þá sé möguleiki til að setja inn í þau, eða í sérlögum, ákvæði um að óheimilt verði að gera samning um orkusölu til stórnotenda eins og þeir eru skilgreindir nema samningur um raforkuverð sé gerður opinber.