135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

raforkulög.

129. mál
[16:55]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það gætir töluverðs misskilnings í máli hv. þm. Jóns Bjarnasonar. Það er auðvitað af og frá að verið sé að beita einstök fyrirtæki einhvers konar ranglæti og það er fráleitt að þetta stangist á við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Ástæðan er sú að frumvarpið gerir ráð fyrir því að allir sem nota rafmagn með þessum tilteknu aflmörkum, 8 þúsund stundir á ári, eiga kost á þessu. Í hverju felst það sem verið er að leggja hér til? Í því felst að ef þeir ná þessu lágmarki sem er verið að leggja til að verði ekki 14 megavött heldur 8 megavött, þá geta þeir tengst flutningskerfinu beint af því að þeir eru stórnotendur, ella þurfa þeir eins og ferðaþjónustan, einstakir smáir ferðaþjónustuaðilar, að tengjast dreifiveitunum. Það þýðir náttúrlega aukinn kostnað fyrir þá. Þeir sem eru í ferðaþjónustu eða reka lítil fyrirtæki nota það lítið rafmagn að þeir geta ekki af tæknilegum ástæðum m.a. tengst flutningskerfinu beint. Það er þetta sem um er að ræða í þessum efnum þannig að það er fjarri því að hægt sé að tala um að jafnræðisregla stjórnarskrárinnar sé brotin, það er algerlega fráleitt. Allir sem uppfylla þessi skilyrði, í hvaða atvinnugrein sem er, hvar á landinu sem þeir eru, eiga kost á þessu.

Hitt vekur svo furðu mína, ef ég skil hv. þingmann rétt, að mér virðist eins og hann sé ekki hlynntur þessu tiltekna ákvæði. Af hverju er ég að leggja þetta til? Ég gerði grein fyrir því í morgun áður en hv. þingmaður var mættur til umræðunnar. Ég er að því til að geta rutt brautina fyrir litlar og meðalstórar gagnamiðstöðvar úti á landsbyggðinni. Þetta tengist verkefni sem við höfum tekið upp í samstarfi við 10 sveitarfélög um að reyna að finna litlum og meðalstórum gagnamiðstöðvum stað á landsbyggðinni. Ekki trúi ég því að hv. þingmaður sé á móti því. Ég hef þá greint afstöðu hans til landsbyggðarinnar heldur ranglega á umliðnum missirum og árum.