135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

raforkulög.

129. mál
[16:57]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef alltaf litið svo á að við værum ein þjóð í þessu landi og að hér ætti líka að ríkja jafnræði á milli atvinnugreina, m.a. hvað varðar grunnrekstrarþætti eins og rafmagn því að ég hef litið á það sem samfélagsþjónustu, grunnþjónustu. (Gripið fram í.) Það er alveg hárrétt að það má vel vera að það sé einhver dýrari þáttur í dreifikerfi til minni notenda en það er eitthvað sem við höfum talið að við ættum að vilja leysa sem ein þjóð.

Ég spyr hæstv. ráðherra aftur hvort hann vilji ekki íhuga það að styrkja einmitt samkeppnisstöðu ferðaþjónustunnar með því að láta a.m.k. ekki nýjustu arðsemiskröfur og kröfur raforkufyrirtækjanna og dreifiveitnanna bitna á ferðaþjónustunni með þeim hætti að það hefur stórhækkað hjá þeim rafmagnið, um 20, 30, 40% hafa menn verið að tala um, á undanförnum missirum eftir að nýju raforkulögin tóku gildi, sem þáverandi iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins keyrði í gegn, og áttu að lækka rafmagn til landsmanna en gerðu þveröfugt mjög víða.

Varðandi hitt hjá hæstv. ráðherra, hvort það sé ekki gott hjá honum að fara niður með þessi mörk. Það má vafalaust vera og ég tel ekki ástæðu til að leggjast gegn því í sjálfu sér en ég ítreka spurningu mína varðandi samkeppnina: Hvers vegna er verðið ekki gefið upp, hvers vegna er ekki kveðið á um það í þessum lögum að verð sé gefið upp til að tryggja heilbrigða samkeppni á þeim forsendum sem lagðar eru til grundvallar m.a. hvað varðar raforkuverð? Ég held að það sé grundvallaratriði.