135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

raforkulög.

129. mál
[17:02]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er svo skrýtið með álverin að stjórnarskráin snertir þau ekkert, þau hafa bara sérlög og sérstjórnarskrá þannig að jafnræðisreglan snertir þau ekkert. Hins vegar ef komið er inn á ferðaþjónustuna eða fiskvinnsluna þá er jafnræðisregla stjórnarskrárinnar allt í einu orðin virk. Ég hélt að jafnræðisregla stjórnarskrárinnar ætti að virka á alla, að allir ættu að vera jafnir fyrir lögum og allir ættu að vera jafnir fyrir stjórnarskránni. Nú heyrum við nýja skýringu hjá hæstv. iðnaðarráðherra að álverin eru undanþegin því að fara að stjórnarskrá lýðveldisins.

Að sjálfsögðu er það fagnaðarefni að styrkja dreifikerfið og veita raforku til notenda á sem lægstum verðum. Ég veit að einmitt á Sauðárkróki, af því hæstv. ráðherra nefndi þann stað, hefur það verið mikið vandamál að rafveiturnar hafa ekki styrkt innviði dreifikerfisins innan Skagafjarðar til þess að hægt sé að standa að öruggri raforkusölu t.d. á Sauðárkróki eða til steinullarinnar. Ég tek undir það að mjög mikilvægt er að styrkja þetta og skapa möguleika á að þarna geti komið notendur eins og hæstv. ráðherra minntist á. Ég er alveg óbreyttur þar eins og ég hef alltaf verið, virðulegi ráðherra, og við stöndum saman í því.

Fiskvinnslan á í miklum vandræðum núna. Það er vel hægt að lækka raforkuverð til fiskvinnslu. Hvers vegna á fiskvinnslan að borga fimm- eða sexfalt verð fyrir rafmagnið miðað við það sem álverin borga? Til þess að heilbrigð samkeppni geti ríkt á að gefa upp forsendur eins og rafmagnið. Ég mótmæli því að álverin séu undanþegin ákvæðum stjórnarskrárinnar hvað jafnræðisregluna varðar.