135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

raforkulög.

129. mál
[17:04]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að ítreka þær spurningar sem ég lagði fyrir þá fjarstaddan hæstv. iðnaðarráðherra í fyrri ræðu minni áðan. Það er rétt að við erum að tala um flutning á rafmagni fyrst og fremst en þær breytingar sem hér eru lagðar til að varða frekar stórnotendur, þær eru um flutning á rafmagni, verðskrá fyrir flutning á rafmagni. Með breytingunum sem gerðar voru á upphaflegu raforkulögunum, með lögum nr. 89/2004, var komið inn í lögin tillögum sérstakrar nefndar sem fjallaði um flutningskerfi og starfaði eftir að fyrstu lögin voru samþykkt. Í þeirri vinnu og í þeim lögum var þessi skilgreining á stórnotendum tekin inn. Þar eru nokkur ákvæði sem varða slíka stórnotendur, m.a. sérstök flutningsgjaldskrá fyrir stórnotendur raforku sem þá áttu að vera þeir sem notuðu 14 megavött en samkvæmt tillögum í því frumvarpi sem hér liggur fyrir er nú miðað við þá sem nota 8 megavött.

Það er nú upplýst að þessi flutningsgjaldskrá er fimm sinnum ódýrari en fyrir aðra notendur, þá sem kaupa í gegnum dreifiveitur. Ég spyr ráðherrann: Er þetta eðlilegur verðmunur að hans mati? Ég tel það alls ekki vera. Flutningurinn á raforkunni er því miður og hefur verið vaxandi hluti af raforkuverðinu og ég tel mjög brýnt að þarna ríki meira jafnræði eins og ég sagði áðan.

Í greinargerð með frumvarpinu sem tók þessa stórnotendur inn í og heimilaði sérstaka verðskrá fyrir þá segir m.a. að það verði með þessu ákvæði um stórnotendurna að taka af öll tvímæli um að ekki sé heimilt að leggja saman notkun margra smárra notenda eða notanda sem notar mikið magn orku en tekur við henni á mörgum stöðum. Þetta voru forsendurnar.

Það sem ég var að spyrja um áðan er hvort ekki sé möguleiki, þegar verið er að opna þetta ákvæði í lögunum, að breyta þessari skilgreiningu þannig að það sé jafnvel hægt að leggja saman notkun margra smárra notenda og kaupa flutning um kerfið, við getum kallað það í heildsölu, frekar en láta þetta eingöngu gilda fyrir hina stóru. Eins og ég sagði mun ég freista þess að fá það rætt í hv. iðnaðarnefnd þegar þar að kemur. En ég ítreka þessa spurningu til ráðherrans: Er þetta eðlilegur munur að hans mati eða mun hann beita sér fyrir því að munurinn verði minni?

Hin spurning mín, sem skiptir nokkru máli að fá skýr svör við og ráðherrann virtist ekki alveg átta sig á samhenginu í áðan, lýtur að því að nú þegar verið er að opna raforkulögin í þriðja sinn gefst auðvitað tækifæri til að tryggja nauðsynlegt gagnsæi sem þarf að vera í viðskiptum, bæði í raforkusölunni og í flutningi á raforkunni. Og ég verð að segja að ég undrast kjarkleysi ráðherrans að opna þetta ákvæði núna án þess að koma böndum á þá leynd sem hefur hvílt yfir raforkuverðinu í samningum um sölu á raforku til stóriðju. Ég tel að með opnun þessara laga núna sé hægt að gera það, jafnvel með tengingu við sérstaka gjaldskrá fyrir stórnotendur í flutningskerfinu, að svokallaðir stórnotendur geti ekki notið þessa nema það sé alveg ljóst á hvaða verði þeir kaupa raforkuna.