135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

raforkulög.

129. mál
[17:08]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það þarf ekki þetta tilefni til að skoða það mál sem hv. þingmaður gerði að umræðuefni í síðasta parti ræðu sinnar. Hún talar um gegnsæi á verði sem stórnotendur þurfa að greiða fyrir sína raforku. Ég heyrði ekki betur en það hafi komið fram í máli eins af hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins í morgun að hann virtist vera ákaflega nálægt sjónarmiðum hv. þingmanns. Það hefur ekkert sérstakt tilefni gefist til þess að opna raforkulögin til að skoða það sérstaklega. Hv. þingmaður telur að þetta sé tilefni til þess. Ég er henni algerlega ósammála í því. Það eru fleiri breytingar í gangi á raforkulögunum eins og hv. þingmaður veit, vegna þess að ég hef upplýst um það bæði á fundum iðnaðarnefndar og hér.

Að því er varðar fyrri part spurningarinnar sem laut að því hvort ég og ríkisstjórnin teldu að þarna væri ósamræmi á milli, annars vegar þess verðs sem smáir notendur greiða fyrir flutninginn og hins vegar stórnotendur, þá er það að segja að ég teldi að það væri hið besta mál, eins og hv. þingmaður gerði að skóna, ef smáir notendur gætu sameinast um það að kaupa mikið magn af raforku. Á því er hins vegar tæknilegur annmarki að þeir gætu síðan notið þess ávinnings sem er að finna í þessari grein raforkulaga vegna þess að þeir munu væntanlega ekki, vegna þess að þeir eru dreifðir yfir ákveðið svæði, geta tekið út þetta magn af orku á einum stað. Það er lykillinn að þessu. Stórnotandinn getur tekið magnið út á einum stað, hann þarf ekki að tengjast dreifiveitu. Við það að fara af flutningskerfinu yfir í dreifiveiturnar þarf að spenna rafmagnið niður. Það er þar sem kostnaðurinn liggur og síðan auðvitað áfram í dreifiveitunum. Þetta gerir það því miður að verkum að hinir smáu notendur greiða töluvert hærra gjald fyrir flutninginn og eins og ég sagði er það fimmfalt. Eftir rosknu og slæmu minni þá minnir mig, herra forseti, að smáu notendurnir greiði 220 aura á kílóvattsstund en hinir (Forseti hringir.) 40 aura. Það er u.þ.b. 5,5 sinnum meira.