135. löggjafarþing — 13. fundur,  18. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[17:28]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Þá heldur áfram umræða um þetta athyglisverða mál

(Forseti (MS): Forseti biður um kyrrð í þingsal.)

og ég vil fara yfir nokkur atriði sem tengjast því og gera þeim skil eftir því sem unnt er á þeim tíma sem til umráða er.

Fyrst vil ég vekja athygli á þeirri stöðu sem kemur upp ef frumvarpið verður samþykkt, að þá verður ríkið með verslanir í samkeppni við verslanir á einkamarkaði um sölu á áfengi og það er staða sem er vert að gefa nokkurn gaum.

Ég vil fyrst vekja athygli á ákvæði samkeppnislaga, 14. gr., en þar segir um þá stöðu sem kæmi upp ef frumvarpið yrði samþykkt, með leyfi forseta:

„Þegar um er að ræða opinbert fyrirtæki eða fyrirtæki sem starfar að einhverju leyti í skjóli opinbers einkaleyfis eða verndar er Samkeppniseftirlitinu heimilt að mæla fyrir um fjárhagslegan aðskilnað, annars vegar á milli þess hluta rekstrar fyrirtækisins sem nýtur einkaleyfis eða verndar og hins vegar þess hluta rekstrar sem er í frjálsri samkeppni við aðra aðila. Skal þess gætt að samkeppnisrekstur sé ekki niðurgreiddur af starfsemi sem nýtur einkaleyfis eða verndar.“

Þetta þýðir að fyrsta skrefið yrði það að Samkeppniseftirlitið mundi gera ÁTVR það skylt að aðskilja fjárhagslega sölu sína á sterkum vínum og hins vegar sölu sína á léttum vínum eða þeim vínum sem falla undir þetta frumvarp.

Þá fer maður að velta því fyrir sér hvaða áhrif slíkt hafi á stöðu ÁTVR. Sú athyglisverða staða er uppi í þessu máli að það hefur ekki verið sent til umsagnar í tvö síðustu skipti sem það hefur verið flutt hér á Alþingi, m.a. ekki síðastliðið vor þegar alvarleg tilraun var gerð af hálfu flutningsmanna til að lögleiða málið, þá fór það í gegnum þingið án þess að vera sent út til umsagnar. Síðast var beðið um umsagnir um málið fyrir tveimur og hálfu ári, á 131. þingi.

Í upplýsingum sem ÁTVR sendi allsherjarnefnd Alþingis fyrir tveimur og hálfu ári, þ.e. síðast þegar Alþingi þóknaðist að óska eftir umsögnum um þetta frumvarp, þá gerði ÁTVR grein fyrir sinni hlið málsins. Í þeirri umsögn kemur fram að árið 2004, sem var síðasta heila ár fyrir umsagnarbeiðnina, seldi fyrirtækið 16 milljónir lítra af áfengi og þar af aðeins 700 þúsund lítra af sterku víni, þ.e. sem er yfir 22%. Það þýðir að aðeins 4,4% af vörunni sem fyrirtækið seldi mundi falla undir einkaleyfið eða verndina en 95,6% mundi falla undir samkeppnisrekstur og ÁTVR yrði gert skylt að aðskilja þessa tvo þætti í starfsemi sinni.

Það er líka alveg ljóst, virðulegi forseti, hvert næsta skref mundi verða. Einkaaðilarnir og trúlega flutningsmennirnir líka mundu reisa upp kröfuna um að ríkið drægi sig út úr samkeppnisrekstri, og má ég minna á afstöðu sjálfstæðismanna til Orkuveitu Reykjavíkur og samblands opinbers fyrirtækis þess og Orkuveitu Reykjavíkur við einkaaðila í atvinnustarfsemi. Ég tel því alveg ljóst að sú krafa muni koma fram, m.a. frá nokkrum flutningsmönnum hér — ég skal ekki segja um þá alla, ég þekki það ekki en a.m.k. nokkrum flutningsmönnum eins og t.d. 1. flutningsmanni, Sigurði Kára Kristjánssyni, og hv. flutningsmönnum Birgi Ármannssyni og Bjarna Benediktssyni, ég tel það næsta víst að þeir mundu sama dag og forseti Íslands skrifaði undir lögin koma og segja: Við gerum kröfu til þess að ríkið dragi sig út úr samkeppnisrekstri. Ég held að mönnum eigi að vera ljóst að svona er til málsins stofnað, til þess eru refarnir skornir að leggja niður þessa ríkisstarfsemi enda tala menn leynt og ljóst fyrir því að markmiðið sé að ríkið dragi sig út úr þessu. Þessi tillöguflutningur á frumvarpinu er því yfirvarp, þetta er til þess að dylja hin eiginlegu markmið sem eru að koma ríkinu út úr þessari starfsemi, sennilega vegna þess að flutningsmenn telja meiri von til þess að fá málið samþykkt með þessum hætti. (Gripið fram í.) Þeim gefst kostur á því, ég tala mjög skýrt, þeir geta ekki misskilið hvað ég er að segja.

Í öðru lagi segja flutningsmenn og taka það skýrt fram í greinargerð að þeir stefni að því að lækka áfengisgjaldið. Þá spyr maður: Mun það lækka verðið á áfenginu? Menn geta metið það, ég reyni að meta það eins og aðrir og skoða þau gögn sem til eru um sambærileg mál, þó ekki endilega á sömu vörutegundum, og fræðast um hvað hagfræðin segir um þetta. Við getum bent á reynsluna af lækkun virðisaukaskattsins fyrr á þessu ári og sagt að í stuttu máli sé það svona nokkuð góð þumalfingursregla að helmingurinn af lækkun skatta ríkissjóðs skilar sér til þeirra sem á að fá hana, þ.e. almennings, en helmingurinn rennur til milliliðanna. Ég mundi spá því að það yrði reyndin í þessu, að lækkunin á áfengisgjaldinu mundi skila sér að helmingi til í það að lækka verðið en helmingurinn mundi renna sem auknar tekjur til þeirra sem selja þannig að þeir taki meira til sín fyrir að selja en ÁTVR gerir núna.

Þá erum við í þeirri stöðu að við erum búin að auka aðgengið að vörunni, fjölga sölustöðum, við erum búin að lækka verðið og við erum búin að auka hagnaðinn af því að selja þetta. Við vitum hvað fylgir því að lækka verð og við vitum hvað fylgir því að fjölga sölustöðum. Það fer ekki á milli mála og það geta menn fræðst um í umsögnum sem komið hafa um þetta mál á fyrri stigum þess og í nýlegum fréttum, ég fer aðeins yfir það á eftir.

Ég vil líka benda á eitt enn en það er þróun síðustu ára í þessum málum. Menn spyrja hvort þetta sé ekki í ágætu horfi eins og er og að við getum bara breytt þessu og treyst fólki fyrir því að umgangast þetta efni — sem við skulum kalla svo en væri kannski nær að kalla eiturefni — og minni ég nú á að Alþingi hefur talið nauðsynlegt að takmarka aðgang fullorðins fólks að ýmsum eiturefnum og takmarka hegðun fólks með ýmsum hætti þannig að það á nú ekki við það sem stundum er borið fram í þessari umræðu að frelsi einstaklingsins eigi að vera í hávegum haft og það eigi alltaf að treysta einstaklingnum til þess að haga sér skynsamlega, því miður er það bara ekki þannig.

Á síðustu árum, t.d. frá 1988, hefur verð á léttum vínum lækkað, þ.e. á vínum sem eru minni en 22% að styrkleika. Áfengisgjaldið hefur lækkað um 33%. Ríkið hefur verið með óopinbera áfengisstefnu á síðustu árum, síðan 1988, sem er fólgin í því að lækka verð á áfenginu. Á sama tíma hefur útsölustöðum hjá ÁTVR fjölgað og veitingastöðum, það hefur orðið algjör sprenging í þeim geira, sérstaklega hér í Reykjavík, bæði miklu fleiri veitingastaðir með vínveitingaleyfi og þeir hafa miklu lengur leyfi til að selja, hafa jafnvel leyfi til að selja allan sólarhringinn. Ég tel að borgarstjórn Reykjavíkur beri mikla ábyrgð á þeirri óöld sem orðin er í miðbæ Reykjavíkur um helgar, þeirri óöld og ómenningu sem hér hefur þróast á örfáum árum þar sem borgarstjórnin hefur lagt sitt af mörkum til að stuðla að ábyrgðarlausri hegðun og umgengni um áfengi.

Hver hefur líka þróunin í neyslunni verið? Hún hefur verið sú að neyslan á mann hefur vaxið um 30% á þessu tímabili, frá 1998, úr 5,56 alkóhóllítrum á mann upp í 7,20 á síðasta ári, 30% aukning. Þetta tengist auknu aðgengi, lægra verði og fleiri sölustöðum. (Gripið fram í.) Já, það getur tengst því líka.

Það má segja að þróunin hafi verið mjög hröð síðan 1985, ekki bara frá 1988, heldur frá 1985. Þá var neyslan 4,0 lítrar og síðan er búið að innleiða bjórinn og allt það hefur gerst sem ég hef rakið, þannig að við erum búin að auka neysluna um 80% síðan 1985. Hefur það ekki eitthvað í för með sér, virðulegi forseti, sem alþingismenn ættu að staldra við? Jú og ég vil nefna nýjustu upplýsingar í þeim efnum sem bárust bara fyrr í þessari viku.

Sænska lýðheilsustofnunin hefur í samvinnu við Prevention Research Center í Kaliforníu gert rannsóknir og velt því fyrir sér og rannsakað hvað gerist ef leyft verður í Svíþjóð að selja áfengi í sérstökum verslunum og matvöruverslunum og einkaverslun verði hætt. Niðurstöður þeirra rannsókna eru að ef áfengi verður selt í sérstökum verslunum muni áfengisneysla aukast um 14%, en ef gengið verður alla leið og áfengið fer yfir í matvörubúðir þá muni áfengisneyslan aukast um 29%.

Þeir sem gerðu þessa rannsókn halda áfram og reyna að gera sér grein fyrir afleiðingunum af aukinni neyslu. Þeir segja að þessi aukna neysla muni valda því að áfengistengdum dauðsföllum í Svíþjóð muni fjölga um 1.500 á ári. Ef við yfirfærum þetta yfir á Ísland yrðu það um 50 fleiri dauðsföll á hverju ári vegna aukinnar neyslu, ef hún yrði 29% eins og þessi rannsókn spáir að mundi verða í Svíþjóð. Það eru afleiðingar í því sem menn gera í þessum efnum, virðulegi forseti. Í Svíþjóð mundu verða 14.200 fleiri líkamsárásir og misþyrmingar og mest meðal þeirra sem eru ungir og þeirra sem drekka of mikið. Þetta er álit manna sem þekkja vel til og rannsaka þessa hluti, sem vinna vísindalega og kalla má vísindamenn.

Fyrr í vikunni birtust líka fréttir um stöðuna í Englandi en þar er þessi fræga áfengismenning sem við eigum kannski að taka okkur til fyrirmyndar, eða hvað? Þar kemur fram að staðan hafi aldrei verið eins alvarleg í Englandi og nú, áfengisvandinn eykst sífellt. Forstjóri heilsugæslunnar í Bretlandi segir að þetta séu hroðalegar afleiðingar af fyllerísmenningu þjóðarinnar.

Í umsögnum sem bárust um málið fyrir rúmum tveimur árum er einmitt rakið hvað leiðir af breytingum á áfengisstefnu og vísa ég til umsagna SÁÁ, áfengis- og vímuvarnaráðs og Lýðheilsustöðvar og ég vil nefna það sem kemur fram í umsögn Lýðheilsustöðvar. Þar er vitnað í ýmsar skýrslur og rannsóknir víða um heim og það er kannski of mikið að draga það allt fram eða benda á það hér úr ræðustól heldur vísa ég mönnum á þessi göng, þau liggja fyrir, og flutningsmenn sumir vita og þekkja, en láta eins og þau séu ekki til. Ég veit satt að segja ekki óábyrgari framkomu af hálfu flutningsmanna en þessa, hafandi þessar upplýsingar fyrir framan sig, hafandi enga ástæðu til að vefengja þær, að tala samt eins og þetta sé tóm vitleysa sem ekki sé nokkurt mark takandi á. Það finnst mér mikið ábyrgðarleysi sem flutningsmenn verða að horfast í augu við, virðulegi forseti, og þeir ættu eiginlega að biðja Alþingi afsökunar á því að halda áfram að flytja málið vitandi um afleiðingar af því sem þeir eru að leggja til, hafandi öll þessi gögn fyrir framan sig en láta eins og þau séu ekki til.

Ég vil aðeins geta stuttlega upplýsinga frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni þar sem fram kemur hversu alvarlegt vandamál áfengisneysla er og hversu margir eru taldir deyja árlega vegna þess og hversu hátt hlutfall það er af dauðsföllum. Það er rakin reynsla manna í Finnlandi og Kanada um breytingar á aðgengi að áfengi og ég fer ekkert frekar út í það á þessu stigi. En þar er sérstaklega dregið fram hvaða atriði það eru sem hafa áhrif á áfengisneyslu. Það er í fyrsta lagi aldurinn, lágmarksaldurinn við kaup á áfengi. Það er í öðru lagi sölufyrirkomulagið, þ.e. hvort það er einkasala ríkisins eða eitthvað annað, í þriðja lagi sölutíminn, hversu rúmur hann er, í fjórða lagi hversu margir útsölustaðirnir eru og í fimmta lagi skatturinn eða verðið, gjaldtakan af þessu.

Virðulegi forseti. Hvað hefur verið lagt til á Alþingi á síðustu árum? Við erum hér með frumvarp þar sem lagt er til að fjölga útsölustöðum og þar sem lagt er til að lækka verðið, tvö af fimm atriðum eru í þessu frumvarpi. Við erum með frumvarp á 131. þingi um breytingu á áfengislögum um að lækka áfengiskaupaaldurinn, það er þriðja atriðið og við erum með frumvarp á 133. þingi um að breyta löggjöf um auglýsingar á áfengi. Það er mjög stórt atriði og hefur áhrif á neyslu. Það er því tekið á öllum þáttum, vegið að öllum fimm þáttunum í þessu sem hafa áhrif á neysluna með frumvarpsflutningi hér á Alþingi og öllum á þann veg að auka neysluna. Einn þingmaður er meira að segja flutningsmaður að þeim öllum þremur málunum, það er hv. þm. Bjarni Benediktsson. Hann vill vega að öllum þáttunum fimm og veit að út úr því fær hann sprengingu í neyslunni og hann veit að út úr því fær hann sprengingu í kostnaði þjóðfélagsins af áfengisvandamálinu. Það eru engar tillögur um mótvægisaðgerðir eins og er vinsælt að segja um þessar mundir að eigi að grípa til þegar menn leggja eitthvað til sem er slæmt, engar tillögur um það. Hvers vegna?

Hvers vegna eru þessir ágætu hv. þingmenn svona ábyrgðarlausir? En þeir vinna markvisst, tillöguflutningurinn vegur að öllum þáttum málsins, öllum. Hvert er markmið þessara hv. þingmanna? Þeir verða að gera grein fyrir því. Eru þeir að þjónusta viðskiptalífið? Ég ætla ekki að halda því fram en ég vil a.m.k. segja að mér finnst það geta verið skýring að þeir hagsmunir sem menn bera fyrir brjósti séu hagsmunir þeirra sem vilja hagnast á því að selja áfengi. Mér finnst það geta verið skýring, og mér finnst sú skýring fá byr undir báða vængi þegar ég skoða heilsíðuauglýsingu í tveimur dagblöðum dagsins, í Morgunblaðinu og 24 stundum, heilsíðuauglýsingu af 1. flutningsmanni málsins, hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni með glas í hönd með textanum: Hvað ætlar þessi að gera í dag? Undir kemur texti og upphaf á þeim texta er, með leyfi forseta:

„Þingmaður Sjálfstæðisflokksins reynir nú að afnema ríkiseinkasölu á léttvíni og bjór.“

Þetta er nú gildishlaðið, ríkis- og einka-. Það er alveg ljóst hvar hugurinn liggur í þessu. Og ef það er ekki ljóst þá getum við flett upp í leiðara blaðsins frá því í gær þar sem blaðið lýsir yfir stuðningi við þetta þingmál. Þetta er fríblað, það treystir ekki á tekjur af áskrifendum, það lifir á tekjum frá auglýsingum. Hverjir auglýsa í svona blaði?

Ef lögunum verður breytt og frumvarpið frá hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni og Bjarna Benediktssyni o.fl. samþykkt þá mættu auglýsendur fara að (Forseti hringir.) láta gamminn geisa á síðum fríblaðsins, virðulegi forseti.