135. löggjafarþing — 13. fundur,  18. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[17:52]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þingmaður sé á réttum slóðum í mati sínu á því hvað mundi gerast. Ég held að ÁTVR yrði lokað mjög fljótlega. Ríkið mundi hætta allri vínsölu, það yrði ákveðið að fara með sterku vínin í búðirnar líka vegna þess að það væri enginn annar valkostur. Ef ríkið ætlar ekki að halda uppi sérverslunum með þessa vöru um allt land þá er enginn annar valkostur en að sterka vínið fylgi hinu víninu í Bónus, Hagkaup, Samkaup og allar þessar búðir. Ég held að það geti ekkert annað gert.

Ég held líka að flutningsmönnum sé þetta ljóst. Ég held að þeir séu að stefna að þessu. Þetta er þeirra áhugamál, þetta er pólitísk sannfæring en ég held að þeir viti hverjar afleiðingarnar af því verða vegna þess að þeir hafa umsagnirnar. Þeir hafa engin gögn sem geta vefengt niðurstöður vísindamanna í fjölmörgum löndum sem hafa dregið fram sambandið á milli aðgengis og neyslu, verðs og neyslu, auglýsinga og neyslu.

En þá kemur upp mjög sérkennileg staða, virðulegi forseti, ef svo illa fer að allt vín fer í verslanir. Hvernig á að selja vínið? Hér hefur verið samþykkt að selja megi tóbak í verslunum en það er gert með sérstökum hætti. Það má ekki vera sýnilegt, það má hvergi sjást. Viðskiptavinurinn segist ætla að fá tiltekna tegund af tóbaki og þá fer afgreiðslumaðurinn í skúffu og sækir það. Hvernig dettur mönnum í hug að það gæti gengið í sambandi við áfengissölu?