135. löggjafarþing — 13. fundur,  18. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[18:03]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður hefur staðið að því að flytja öll þessi þrjú þingmál á sama þinginu. Það kemur ekkert fram í þeim að hann ætlist til að þau séu afgreidd á mismunandi tíma eða taki gildi með mismunandi hætti. En ég fagna því ef hann er farinn að hörfa í málinu og viðurkenna að kannski sé of mikið að ætla sér að gera allt þetta samtímis.

Það kemur líka fram í svörum hv. þingmanns að hann gerir enga tilraun til að draga fram upplýsingar af sinni hálfu til mótvægis við þær niðurstöður rannsókna sem liggja fyrir um áhrif af breytingum á öllum þessum þáttum í áfengisstefnunni, hvort sem það er áfengiskaupaaldurinn, auglýsingar eða aðgengið. Hann gerir enga tilraun til að draga fram upplýsingar sem gætu sýnt annað en þær rannsóknir sýna sem fyrir liggja þannig að ég lít svo á að í raun og veru séu ekki dregnar í efa þær upplýsingar sem liggja fyrir þinginu og hafa verið lagðar fram á fyrri stigum í umræðum um þetta mál um afleiðingarnar af þessu.

Hv. þingmaður talar um frelsi manna og víst er að allir viljum við vera frjálsir menn. En eitt er víst að þeir sem búa við það böl sem af þessu vímuefni hlýst eru ekki frjálsir menn, ekki þeir sem eru ánetjaðir þessu, ekki þeir sem eru í fjölskyldusamböndum við þá einstaklinga, ekki vinir þeirra og ekki ættingjar og ekki vinnufélagar. Tugir þúsunda manna á Íslandi eru ekki frjálsir að fullu og öllu vegna áfengis og hv. þingmaður má gjarnan hafa í huga frelsi þessara Íslendinga til að lifa lífi eins og allir aðrir sem eru lausir við áhrifin af þessu vímuefni.