135. löggjafarþing — 13. fundur,  18. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[18:05]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Þetta frumvarp til laga um breytingu ýmissa lagaákvæða sem varða sölu áfengis og tóbaks er um tvennt merkilegt. Í fyrsta lagi er það merkilegt fyrir inntak þess þar sem lagt er til að rýmka verulega sölu og dreifingu á áfengi eins og frumvarpið tekur til og ég mun víkja að því á eftir. En mér finnst það kannski enn þá líka ekki síður mikilvægt og merkilegt að þetta frumvarp sem er sjötta mál þingsins virðist vera eitt fyrsta málið sem fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna, Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks, flytja hér saman. Hliðstætt frumvarp var flutt á síðasta þingi. Fyrsti flutningsmaður þess var hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, núverandi hæstv. heilbrigðisráðherra, sem er einn af leiðtogum Sjálfstæðisflokksins. Hann ætlar sér ábyggilega stærri hlut í þeim efnum heldur en nú eru komnir fram hjá honum. Þetta hefur verið hans eitt stærsta og mesta áhugamál á þinginu, þ.e. að rýmka fyrir heimildum um verslun með áfengi. Nú eru flutningsmenn eins og hér hefur verið rakið hv. þingmenn Sigurður Kári Kristjánsson, ein af vonarstjörnum Sjálfstæðisflokksins — hann er flutningsmaður að þessu brennivínsmáli — og varaformaður Samfylkingarinnar, einn af leiðtogum hins stjórnarflokksins, Ágúst Ólafur Ágústsson. Þetta er eitt brýnasta málið sem þessir flokkar telja að þeir þurfi að leggja saman fram og ríkisstjórn þeirra þegar Alþingi kemur saman nú í þingbyrjun. Þetta er stefnumarkandi fyrir þá flokka, sýnist mér. Aðrir flutningsmenn eru þungavigtarmenn innan þessara flokka og ætla ég þó ekki að vera að draga menn í dilka, þ.e. hverjir séu mikilvægir og meiri öðrum. En hv. þingmenn á þessu brennivínsmáli eru hv. þm. Birgir Ármannsson, Bjarni Benediktsson, einn af þeim leiðtogum sem menn horfa til að taki við Sjálfstæðisflokknum og þetta er eitt fyrsta mál sem þessir fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna leggja fram. Svo eru það hv. þm. Illugi Gunnarsson, hv. þm. Árni Páll Árnason, hv. þm. Pétur H. Blöndal, einn af leiðtogum Sjálfstæðisflokksins, í velferðarmálum sérstaklega, og hefur birt oft á þingi stefnu Sjálfstæðisflokksins. Það kemur mér á óvart að þetta skuli vera eitt fyrsta mál sem Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin, forustumenn þeirra, leggja fram á þingi, þ.e. brennivínsmálið. Það er mál til þess að auðvelda aðgang og auka aðgengi að áfengi. Það telja þessir flokkar brýnast.

Ég hefði heldur viljað sjá, ef þessir hv. þingmenn hefðu verið ábyrgir gagnvart landsmálunum, okkur ræða stöðu fiskvinnslufólks í landinu, þ.e. að hefði verið þeirra fyrsta mál að ræða stöðu fiskvinnslufólks á Skagaströnd sem var að fá uppsagnarbréf í þessari viku. Nei, brýnasta málið hjá fulltrúum ríkisstjórnarflokkanna, forustumanna þeirra á Alþingi er brennivínsmál. Herra forseti. Ég lýsi mikilli vanþóknun á þeirri forgangsröðun sem ríkisstjórnarflokkarnir, fulltrúar og leiðtogar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, sýna, þ.e. að velja brennivínsmál sem forgangsmál, eitt fyrsta mál sem tekið er til umræðu á Alþingi, mál nr. 6.

Varðandi efni málsins sjálfs þá hafa hér verið rakin mjög ítarlega viðhorf þeirra sem eru í eðli sínu andvígir þessu máli, telja að af öðrum ástæðum og mörgum séum við ekki þar á réttri leið. Þingheimur hlýddi á ágæta ræðu Kristins H. Gunnarssonar þar sem rakin var með tölulegum hætti skaðsemi áfengis og hættur sem því fylgja að rýmka dreifingu og sölu á því. Það er nefnilega svo að þessir flutningsmenn, þessi nýja kynslóð Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, tala um frelsi og frelsi og frelsi án ábyrgðar. Það má segja að það séu einkunnarorð þessara nýfrjálshyggjumanna í þessum tveim flokkum og birtist það í því að þetta er eitt brýnasta málið. Auðvitað sjá menn viðskiptatækifæri í þessu, að sjálfsögðu. Þess vegna er mjög athyglisvert og ég get eiginlega gert orð í ritstjórnargrein Morgunblaðsins frá því 16. október síðastliðnum að mínum hvað þetta varðar og ætla að leyfa mér, herra forseti, að vitna til ritstjórnargreinar Morgunblaðsins um þetta mál:

„Flutningsmenn frumvarpsins telja að núverandi fyrirkomulag sé tímaskekkja og eigi rætur að rekja til þess tíma sem „menn voru mjög gjarnir á að setja einokunarlög og hin ýmsu höft í íslenska löggjöf. Þar má t.d. nefna einkaleyfi á síldarsölu, einkasölu á viðtækjum, einkarétt til útvarpsreksturs. Seinna komu ýmis lög og höft eins og einokun á sölu bifreiða, símtækja og annars slíks og fyrir einungis um 15 árum var ríkið með einokun á því að flytja inn eldspýtur.“ Þetta er ef til vill fyndið.

Ekkert er hins vegar skoplegt við málið sjálft. Áfengi er vara af allt öðrum toga en bílar, útvörp, sjónvörp, símar og eldspýtur. Engri vöru, sem seld er með löglegum hætti hér á landi, fylgir jafnmikil ógæfa og áfengi.“

Ég hef ekki heyrt þá enn þá segja að það eigi að leyfa hömlulausa sölu á fíkniefnum og ætla ekki að gera þeim það upp. Áfram með leiðara Morgunblaðsins, með leyfi forseta:

„Fjöldi Íslendinga á daglega í lífs- og sálarstríði við áfengisvanda, sem aldrei hverfur þótt hægt sé að halda honum niðri. Freistingarnar eru nægar og það er síður en svo eins og erfitt sé að ná í áfengi eða fólk láti það standa í vegi fyrir drykkju að geta ekki keypt áfengi í matvörubúðum.

En er ekki óþarfi að ekki sé hægt að kaupa í matinn án þess að freistingarnar blasi við fólki, sem á fullt í fangi með að halda sig á réttu spori? Er til of mikils mælst að fólk leggi það á sig að fara í sérstakar verslanir til að kaupa áfengi? Vissulega er göfugt markmið að ætla að einfalda fólki lífið, en ekki má gleyma að þessi ráðstöfun myndi einnig gera lífið að martröð fyrir fjölda manns.

Í greinargerðinni með frumvarpinu er lítið gert úr því að lögleiðing sölu áfengis í matvörubúðum muni hafa áhrif á aðgengi þeirra, sem ekki eru orðnir tvítugir, en er hægt að fullyrða það? Eftir því sem sala á áfengi verður dreifðari verður eftirlitið erfiðara.“

Og áfram segir í leiðara Morgunblaðsins sem ég get stundum verið sammála þó oft sé hann á villubraut, með leyfi forseta:

„Það er athyglisvert að í greinargerðinni er hvergi talað um áfengisvandann.“

Bíddu við! Þetta eru forustumenn í ríkisstjórnarflokkunum sem hljóta að verða láta taka sig alvarlega. Áfram segir í ritstjórnargreininni, með leyfi forseta:

„Hún gæti rétt eins snúist um sölu á eplum eða súrmjólk. Hér er hins vegar á ferðinni frumvarp, sem engin ástæða er til að samþykkja. Í umræðum á þingi í gær var bent á að forvarnir hefðu ekki virkað. Munu þær virka betur verði frumvarpið samþykkt? Það er eins og flutningsmenn frumvarpsins séu tilfinningalausir og geri sér enga grein fyrir því um hvað áfengisvandamálið snýst.“

Ég hef í sjálfu sér litlu við þetta að bæta. Þarna er í hnotskurn lýst og rætt ábyrgðarleysi þeirra manna sem leggja þetta frumvarp fram með þessum hætti. Veruleikafirringin skín þar með fullkomnum hætti í gegn. Þess vegna er ástæðulaust að rifja upp — er það sjaldan sem ég er að vitna í hæstv. dómsmálaráðherra en þó get ég ekki annað en tekið undir það sem hann skrifar á sinni heimasíðu einmitt um þetta sama mál. Þar segir hæstv. ráðherra Björn Bjarnason, með leyfi forseta:

„Mér heyrðist ágætur flokksbróðir minn og samþingmaður, Sigurður Kári Kristjánsson, rökstyðja aukið aðgengi að áfengi í verslunum á þann veg, að hér verði til einhver Miðjarðarhafsdrykkjumenning við breytingu í þá átt. Þessi rök voru notuð við breytingar á áfengislöggjöf í Bretlandi fyrir fáeinum árum. Allir virðast nú á einu máli um, að þar hafi drykkjumenning síður en svo færst í átt að Miðjarðarhafi. Drykkjuvandamál hafi stóraukist með auknu aðgengi og stórefla þurfi löggæslu og meðferðarúrræði til að bregðast við þeim.“

Ætli þarna sé ekki að tala hæstv. ráðherra sem er yfirmaður löggæslumála? Og verður maður ekki að telja að hann hafi nokkra reynslu af þeim málum sem undir hann heyra? Jú. Ég held að það sé ástæða til að taka mark á því.

Herra forseti. Ég vil nú ljúka máli mínu. Mér finnst með endemum að þetta skuli vera mesta áherslumál forustumanna stjórnarflokkanna, verðandi hugsanlega leiðtoga þessara flokka, að þetta skuli vera eitt fyrsta mál, brennivínsmál sem lagt er fram. Ég hefði viljað ræða kjör fiskvinnslufólks, kjör útgerðar, kjör smábátasjómanna. Nei, þetta er það sem brennur á þessum forustumönnum og skal vera fyrsta málið sem lagt er fram á Alþingi. Ég tek áfram undir orð í leiðara Morgunblaðsins. (Gripið fram í: Hver þá?) Þau eru að gagnvart þessum vanda, áfengisvandanum, er hreint eins og flutningsmenn frumvarpsins séu tilfinningalausir og geri sér enga grein fyrir því um hvað áfengisvandamálið snýst.