135. löggjafarþing — 13. fundur,  18. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[18:17]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég tek til máls öðru sinni um þetta umdeilda frumvarp sem 17 alþingismenn leggja kapp á að verði að lögum en sem kunnugt er gengur það út á að færa verslunum heimild til að selja áfengi, léttvín og bjór með vissum skilyrðum. Einvörðungu þeir sem hafa náð 20 ára aldri mega afgreiða vöruna og hana má ekki afgreiða eftir klukkan 20 á kvöldin sem þýðir að sjálfsögðu að það verða aðeins tilteknar verslanir sem hafa mannskap og möguleika til þess að annast þessa starfsemi, með öðrum orðum stóru matvörukeðjurnar. Það er fyrirsjáanlegt að þetta mun leiða til þess að einokun sem áður var hjá ríkinu verður færð til þeirra, hvort sem þær heita Nóatún, Kaupás, Bónus, Hagkaup eða eitthvað annað. Þá er spurningin: Hvað er unnið með þessu og hvað hugsanlega tapast?

Hv. þm. Bjarni Benediktsson tók til máls um frumvarpið fyrir stundu og ef ég heyrði rétt sagði hann að þetta mál snerist ekki um útreikninga. Það snerist um frelsi og það snerist um leiðir til að skapa mannvænt samfélag. Ég held að ég hafi heyrt hann nota þessi hugtök. En snýst þetta mál ekki um útreikninga?

Mér finnst að þeir sem flytja frumvarpið geti ekki komist svona auðveldlega frá þessu máli. Það eru þrír þættir sem hafa komið fram í þessari umræðu. Í fyrsta lagi sá þáttur sem lýtur að heilsufarinu og lýðheilsunni. Í öðru lagi sjónarhorn neytenda. Kæmi þetta til með að skapa meira vöruúrval, væri þetta neytandanum í hag í þeim skilningi og yrði þetta þeim í hag að því leyti að verðlagið, innkaupsverðið mundi lækka?

Það er ágætt að hv. þm. Bjarni Benediktsson er kominn í salinn og heyrir mál mitt því að ég var einmitt að vísa í ræðu hans áðan og taldi mig hafa heyrt að þetta mál snerist ekki um útreikninga fyrst og fremst heldur um frelsi og leið til að skapa mannvænt samfélag. Ég sagði í stuttu máli að mér fyndist menn ekki geta komist svona ódýrt frá þessu máli því að það snýst nefnilega um útreikninga.

Ég ætla þá að víkja að þeim þremur þáttum sem ég nefndi. Fyrst að lýðheilsunni. Ég held að það sé engin tilviljun að landlæknisembættið sendir frá sér yfirlýsingu í dag þar sem frumvarpi sautjánmenninganna er harðlega mótmælt, vegna þess að heilbrigðisyfirvöld, hvort sem það er hér á landi eða erlendis, hafa varað við þessari stefnu. Samkvæmt markmiðum sem sett eru fram í heilbrigðisáætlun fyrri ríkisstjórnar samræmist þetta frumvarp ekki henni. Ég spyr: Hefur orðið einhver breyting á stefnu ríkisstjórnarinnar hvað forvarnir snertir? Það er nauðsynlegt að fá það fram í dagsljósið.

Fyrsti flutningsmaður frumvarpsins, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, segir í blaðaviðtali í gær að nokkrir læknar sem hann þekki telji að það sé ekkert samhengi á milli dreifingarmátans á áfengi, verðlagsins annars vegar og neyslunnar hins vegar. „Nokkrir læknar sem ég þekki“, sagði hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson. Ég veit ekki hvað hárgreiðslumeistarar sem hv. þingmaður þekkir telja vera rétt eða bílasalar eða aðrir úr vinahópi 1. flutningsmanns frumvarpsins. Þetta snýst nefnilega ekkert um tilfinningar, þetta snýst um staðreyndir, þetta snýst um rannsóknir sem gerðar hafa verið á þessum þáttum.

Menn hafa t.d. vísað í reynslu Finna sem gerðu tilraun af því tagi sem hér er verið að mæla með, þ.e. að auka aðgengið og færa verðlagið niður. Ég hef fyrst og fremst verið að beina sjónum mínum að auknu aðgengi og ekki bara auknu aðgengi heldur að færa verkefnið til markaðsaflanna, að beita markaðsöflunum til þess að koma áfengi á framfæri. Þetta var tilraun sem Finnar réðust í fyrir nokkrum árum, það mun hafa verið í ársbyrjun 2004 sem gerð var tilraun af þessu tagi, alla vega í nokkrum sveitarfélögum, bæði varðandi aðgengið og verðlagið. Við fengum síðan frétt í Fréttablaðinu um árangurinn þremur eða fjórum árum síðar, 4. ágúst birtist sú frétt birtist undir fyrirsögninni Drykkjan fellir flesta Finna. Þar segir að ofdrykkja sé orðin helsta dauðaorsök finnskra karlmanna á aldrinum 15–64 ára, 17% allra sem látast á þessu aldursskeiði hafa drukkið sig til dauða. Síðan er vísað í þessa tilraun sem menn gerðu og afleiðingunum sem að mati lögregluyfirvalda í Finnlandi er aukin ölvun á almannafæri og andfélagsleg hegðun. Fréttin og umfjöllunin tengist þessari tilraun sem Finnar gerðu.

Mér datt í hug að minna á þetta í ljósi þeirra orða hv. þm. Bjarna Benediktssonar að það sem fyrir tillögusmiðum vekti væri að búa til mannvænna þjóðfélag. Það má vel vera að menn geti síðan ráðist í mótvægisaðgerðir — ég man ekki hvort það var hv. þingmaður sem talaði um það eða aðrir þingmenn — til að hamla gegn þeim spjöllum sem þeir mundu valda með þessum breytingum á fyrirkomulaginu. Ég spyr: Hvers vegna í ósköpunum er verið að ráðast í breytingar ef þær eru sannanlega til ills?

Þá er komið að hinum þáttunum sem snúa að neytandanum. Halda menn — og menn verða að taka þá umræðu — að á fámennum stöðum þar sem opnar eru áfengisútsölur á vegum ÁTVR og seldar eru að lágmarki 100 vörutegundir yrði úrvalið betra ef verslunin færðist inn í kaupfélagið eða verslanir á staðnum? Eru menn að gera því skóna að úrvalið yrði meira? Eða eru menn að gera því skóna að úrvalið yrði meira með því að færa áfengissöluna inn í Hagkaup, Bónus, Kaupás eða Nóatún en það er í Heiðrúnu eða í þeim verslunum sem ÁTVR rekur? Ég held ekki.

Halda menn svo, ef við færum okkur yfir í næstu stærð sem lýtur einnig að útreikningum sem hv. þm. Bjarni Benediktsson segir að komi okkur ekkert við, þetta snúist bara um frelsi og mannvænt samfélag, heldur þingmaðurinn að innkaupsverð á áfengi komi til með að lækka með þessu móti? Ég held ekki. Staðreyndin er sú að ÁTVR gerir mjög hagstæð innkaup með tilliti til verðlags vegna samlegðaráhrifa, vegna þess að það er keypt í það miklum mæli, svo þó það sé gert eins og alltaf hefur verið í gegnum umboðsaðila. Það er staðreynd, umboðsaðilar voru alla tíð til staðar.

Að lokum, herra forseti, þetta er í fimmta sinn sem þessi tilraun er gerð að breyta fyrirkomulaginu á áfengisútsölunni. Ég minnist þess ekki að hafa orðið vitni að eins neikvæðum viðbrögðum í samfélaginu almennt gegn frumvarpinu og við verðum vitni að núna. Ég sat fyrir svörum hlustenda á útvarpsstöðinni Bylgjunni í morgun og fjöldinn allur af fólki hringdi inn. (Forseti hringir.) Allir sem hringdu voru andvígir þessu frumvarpi. Ég held að það sé dæmigert um þá afstöðu sem er til staðar í samfélaginu (Forseti hringir.) og sem ræðst að hluta til af viðhorfsbreytingu.