135. löggjafarþing — 13. fundur,  18. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[18:55]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég sagði að það að setja þetta mál í forgang á þessu þingi segi mér það sem segja þarf. Ég hefði forgangsraðað öðruvísi. Það hvarflar ekki að mér að segja það jafnframt að hv. þingmaður sem hér er til andsvara hafi ekki áhuga á öðrum málum en hv. þingmenn sem eru að þessu máli forgangsraða ranglega.

Sá veldur sem á upphafið. Við sem hér höfum staðið uppi höfum af þessu þungar áhyggjur. Við getum ekki tekið þessu máli af þeirri léttúð að láta það umræðulaust fram hjá okkur fara. Það getur heldur ekki Eiríkur Hermannsson, fræðslustjóri í Reykjanesbæ. Það getur heldur ekki fjöldi fólks sem hefur haft samband við okkur þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs úr öllum flokkum. Það er eins og ég sagði áðan mikill og vaxandi skilningur á þessu vandamáli og því miður er það svo að mér finnst þann skilning skorta hjá flutningsmönnum þessa frumvarps.

Þegar hv. þingmenn hreyfa þessu máli er full ástæða, vegna alvöru málsins, að grípa til andsvara og leiða fram þau sjónarmið og gagnrök sem þurfa, því að við sem hugsum um þetta mikla vandamál látum það ekki yfir okkur ganga og hér er málfrelsi. Hins vegar hefðu engar ræður verið settar af stað ef fyrirhyggjan hefði verið önnur að forgangsraða ekki með þessum hætti.