135. löggjafarþing — 13. fundur,  18. okt. 2007.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

10. mál
[19:01]
Hlusta

Flm. (Kristinn H. Gunnarsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil leyfa mér að mæla fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar og lögum um málefni aldraðra sem ég flyt ásamt þremur öðrum þingmönnum Frjálslynda flokksins, þeim hv. þingmönnum Guðjóni A. Kristjánssyni, Grétari Mar Jónssyni og Jóni Magnússyni. Frumvarpið er í tveimur köflum með breytingu á hvorum lagabálknum um sig. Fyrri kaflinn fjallar um breyting á lögum um almannatryggingar og sá síðari um breyting á lögum um málefni aldraðra og er afleiddur af breytingu á fyrri kaflanum, lagabálkinum.

Meginefni frumvarpsins er að gera þær breytingar á almannatryggingalöggjöfinni að atvinnutekjur lífeyrisþega eða maka hans skerði ekki bætur lífeyrisþegans frá Tryggingastofnun ríkisins eða örorkulífeyrisþegans frá sömu stofnun. Í þessu felst meginatriðið í þessu frumvarpi, þ.e. að gera lífeyrisþegum, hvort sem það eru aldraðir eða öryrkjar, kleift að afla sér tekna án þess að það skerði bætur þeirra frá ríkinu.

Í öðru lagi er verið að afnema tenginguna sem verið hefur lengi við lýði á milli lífeyrisþegans eða öryrkjans og maka hans þannig að eftir að breytingin hefur tekið gildi, ef hún nær fram að ganga, munu tekjur makans ekki skerða bætur viðkomandi lífeyrisþega eða öryrkja.

Í þriðja lagi er lagt til í frumvarpinu að undanskilja séreignarlífeyrissparnað ákvæðum sem ganga til skerðingar á bótum lífeyrisþega eða öryrkja þannig að sá sparnaður og séreignarsparnaður sem einstaklingar hafa komið sér upp á starfsævinni í samstarfi við sinn vinnuveitanda á hverjum tíma og er tekinn út þegar þar að kemur mun þá ekki skerða bæturnar frá ríkinu eins og reglurnar og ákvæði laganna eru núna. Þessi skerðing séreignarlífeyrissparnaðarins á bótunum er afar ósanngjörn og getur komið illa við einstaklinginn sem hefur haft fyrir því að leggja fyrir sig og getur í verstu tilvikum komið þannig út að séreignarlífeyrissparnaðurinn er fyrst og fremst sparnaður ríkissjóðs en ekki hyggindi sem í hag koma fyrir viðkomandi lífeyrisþega um að leggja til hliðar til seinni tíma þegar ekki árar eins vel og gerir þegar viðkomandi er á vinnumarkaði eða þegar hann er hættur störfum vegna aldurs. Okkur þykir sanngjarnt og eðlilegt að séreignarlífeyrissparnaður sé til viðbótar þeim bótum sem ríkið veitir sínum þegnum þegar þau skilyrði eiga við sem lögin kveða á um.

Ég get nefnt sem dæmi um slæm áhrif á gildandi lagaákvæðum að maður sem var í góðri vinnu og lagði fyrir í séreignarlífeyrissparnað töluverðar fjárhæðir lenti í því óhappi að verða öryrki og gat ekki lengur stundað sína vinnu, og er reyndar ekki á vinnumarkaði, hugðist taka út þennan séreignarlífeyrissparnað sinn og hafa hann til ráðstöfunar til viðbótar þeim bótum sem honum hafa verið úrskurðaðar. En þá kemur í ljós að ef hann tekur út séreignarlífeyrissparnaðinn skerðast bæturnar mjög mikið og reyndar að fullu í því tilviki og ekki bara það ár sem hann tekur út séreignarlífeyrissparnaðinn heldur í mörg ár á eftir. Þetta er auðvitað algjörlega óviðunandi, virðulegi forseti, og andstætt þeim tilgangi sem löggjafinn hefur markað séreignarlífeyrissparnaði. Kjör þeirra sem eru orðnir aldraðir eða eru öryrkjar eru nú ekki það góð að ástæða sé til þess að mati okkar þingmanna Frjálslynda flokksins að hafa lagaákvæði sem fyrst og fremst spara útgjöld fyrir ríkissjóð gagnvart einstaklingum sem ekki hafa mikið fyrir sig að leggja fyrir.

Virðulegi forseti. Þetta eru í stuttu máli þær breytingar sem við erum að leggja til að verði gerðar á almannatryggingalöggjöfinni og þær munu bæta kjör þessa hóps töluvert. Þær munu sérstaklega bæta kjör öryrkja sem munu njóta mjög góðs af þessari breytingu ef hún nær fram að ganga enda ekki vanþörf á. Tölur sem teknar hafa verið saman um kjör þeirra, kaupmátt og þróun hans leiða í ljós að þeir hafa ekki notið sambærilegrar þróunar og aðrir í þessu þjóðfélagi. Þeir hafa dregist aftur úr og fyllsta ástæða er til þess að hið opinbera geri bragarbót á lagaákvæðum hvað varðar þeirra bætur.

Það mun ekki kosta mikla peninga eða mikil útgjöld fyrir ríkissjóð að afnema tengingu bóta við atvinnutekjur ellilífeyrisþega. Einhverja fjárhæð mun það kosta og helsta mat sem ég hef á því er um 500 millj. kr. Á móti því mun ríkið hafa tekjur af atvinnutekjum þeim sem aldraðir munu afla sér eða ávinna sér eftir að þessi skerðing hefur verið afnumin og þær tekjur munu augljóslega verða miklu meiri en þessi viðbótarútgjöld ríkissjóðs. Því má gera ráð fyrir að ríkissjóður muni hagnast verulega á þeirri breytingu og mig minnir reyndar að fyrr á þessu ári hafi Samtök atvinnulífsins einmitt bent á þessa staðreynd og lagt mat á hugsanlegan ávinning ríkissjóðs og talið hann vera um þrjá milljarða kr. Að teknu tilliti til þess og hins að um viðbótarútgjöld er að ræða fyrir ríkissjóð hvað varðar öryrkja af augljósum ástæðum hygg ég að heildaráhrifin fyrir ríkissjóð af þessu frumvarpi séu ekki mikil, þau séu óveruleg í þeim stærðum sem ríkissjóður er að skila í afgang um þessar mundir. Ef ríkissjóður hefur einhvern tíma ástæðu til og efni á að bæta kjör þeirra í þjóðfélaginu sem búa við hvað erfiðastar fjárhagslegar aðstæður er tækifærið til þess núna þannig að frumvarpið er á réttum tíma hvað það varðar þó að ég vilji ekki útiloka að við hefðum flutt málið eftir sem áður af réttlætisástæðum þótt staðan í ríkisfjármálum væri með öðrum hætti en hún er núna og fyrirsjáanlegt er að staða ríkissjóðs verði góð á næstu árum. Því eru ekki uppi neinar þær aðstæður sem gætu dregið úr mönnum kjarkinn við að hrinda þessu réttlætismáli í framkvæmd.

Virðulegi forseti. Ég held ég láti ræðu minni lokið sem lýsingu á þessu máli. Ég skora á hv. þingheim að taka undir tillögur okkar gera þær að lögum. Ég legg til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. heilbrigðisnefndar.