135. löggjafarþing — 13. fundur,  18. okt. 2007.

tekjuskattur.

15. mál
[19:31]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Hér er réttlætismál á ferðinni. Hér er spurning um að snúa af braut forgangsröðunar ríkisstjórna síðustu fjögurra kjörtímabila þar sem fyrst og fremst var borin umhyggja fyrir stóreigna- og hátekjumönnum. Þetta hafa verið feit 16 ár stóreigna- og hátekjumanna en mögur ár launamanna, öryrkja og aldraðra hvað snýr að skattálagningu og mörgu, mörgu fleiru. Gagnvart hátekju- og ofurtekjumönnum og stóreignamönnum hefur eignarskattur og eignarskattsauki verið felldur niður, hátekjuskattur felldur niður, og fleiri sporslur hafa þessir aðilar fengið á síðustu 16 árum undir forustu Sjálfstæðisflokksins. Á sama tíma hefur persónuafslátturinn fjarri því fylgt verðlagsþróun eins og kom vel fram í ræðu hv. frummælanda Kristins H. Gunnarssonar.

Ef það væri bara svo að persónuafslátturinn hefði ekki fylgt verðlagsþróun gæti maður sagt að þessi 150 þús. kr. mörk væru kannski ívið of mikil en það hefur fleira gerst í skattlagningu alþýðufólks á Íslandi, láglauna- og millitekjufólks. Það hefur nefnilega gerst að barnabætur hafa verið skertar stórlega og það hefur líka gerst að vaxtabætur hafa skerst stórlega. Ég var á þingi í janúar eða febrúar 2005 og varaði mjög eindregið við þeirri þróun sem blasti við varðandi vaxtabæturnar. Það sáum við fyrir haustið 2004 þegar fasteignaverð í Reykjavík tók mikinn kipp og víðar á landinu vegna nýrra lána einokunarbankanna. Þá blasti við að fasteignamat íbúðarhúsnæðis mundi hækka mjög verulega og ef viðmiðunarmörkin gagnvart vaxtabótunum yrðu ekki hækkuð að sama skapi — því að þarna var ekki um rauneignaaukningu að ræða heldur bara verðlagsþróun í Reykjavík — mundu vaxtabæturnar skerðast um 40, 50, 60%.

Hæstv. þáverandi félagsmálaráðherra, Árni Magnússon, hafnaði þessu algjörlega þegar ég spurði hann hvort hann hygðist bregðast við. Svo var ekki og við álagningu 2005 og aftur 2006 brast þetta á og fólk sem hafði reiknað með að fá 150–200 þús. kr. í vaxtabætur fékk ekki krónu vegna þess að eignaverðbólgan og fasteignamatið höfðu farið yfir mörk vaxtabótanna og þúsundir framteljenda á Íslandi fengu skertar vaxtabætur. Ekkert dugði til fyrr en verkalýðshreyfingin gekk í málið og þá náðist fram leiðrétting en þó alls ekki full leiðrétting. Þetta gerði ungu fólki og íbúðarkaupendum, barnafólki, mjög erfitt fyrir bæði sumarið 2005 og ég tala nú ekki um 2006. Þetta skerðingardæmi var ekki leiðrétt gagnvart láglaunafólki, barnafjölskyldum og millitekjufólki fyrr en verkalýðshreyfingin greip inn í og eftir margföld aðvörunarorð m.a. frá þeim sem hér stendur og mörgum öðrum. Þarna hefur orðið stórkostleg skerðing.

Ég leyfi mér að efast um að þær 150 þús. kr. sem lagðar eru til hér í skattleysismörkum vegi upp á móti þeim skerðingum sem átt hafa sér stað á persónuafslætti, vaxtabótum og barnabótum. Ég hygg að 150 þús. kr. talan sé síst of há vegna þess að allir sem reka heimili vita að þetta hrekkur ekki langt. Þetta er kannski við lágmarksframfærslumörk og við eigum ekki að skattleggja örorkulífeyrisþega með 95 eða 100 þús. kr. á mánuði eins og staðan er í dag. Við eigum ekki að skattleggja fólk sem er með tekjur undir framfærslumörkum, það er þjóðarskömm en það hefur verið raunin í mörg, mörg ár. Það hefur verið raunin að öryrkjar með lágmarkslífeyri eru skattlagðir og það er ótrúlegt að fólk með 100 þús. kr. framfærslueyri á mánuði þurfi að borga 37% af síðasta tíu þúsund kallinum.

Þannig hefur ríkisstjórnarstefnan verið og þannig birtist hún enn í fjárlagafrumvarpinu. Þrátt fyrir fögur fyrirheit heldur persónuafsláttur sem ákveðinn er í fjárlagafrumvarpinu vart við verðlagsþróun, það eru veruleg áhöld um það hvort persónuafsláttur sem ákvarðaður hefur verið í fjárlögum standist verðlagsþróun. Ríkisstjórnin heggur enn í sama knérunn, enn á hygla stóreigna- og hátekjumönnum og láta öryrkja, aldraða, láglaunafólk og millitekjufólk borga brúsann. Það gengur ekki.