135. löggjafarþing — 13. fundur,  18. okt. 2007.

tekjuskattur.

15. mál
[19:55]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fór kannski örlítið ónákvæmt með það sem hv. 7. þm. Suðurk. sagði hér áðan. En meiningin var svona nokkurn veginn í því samræmi en með þeirri leiðréttingu þá bið ég hann velvirðingar. Ég tel að meginatriði máls míns hafi þó komist til skila og verið í samræmi við það sem hann fjallaði um og ég sé ekki annað en að við séum í grundvallaratriðum sammála hvað þetta mál varðar.

Varðandi gæluskattgreiðendur Sjálfstæðisflokksins þá skal ég ekki meta það hvort þeir sem greiða lægstu skattana eða eru í lægstu prósentunni, þ.e. fjármagnseigendurnir, séu allir kjósendur þess flokks þótt hlutfallslega séu flestir þeirra í nágrenni við hann. En kosningar eru leynilegar og menn fara ekki í að kanna það. En það er ekki mergurinn málsins.

Mergurinn málsins er miklu frekar það sem hv. þm. Atli Gíslason benti á, þ.e. spurningin um jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Ég taldi að það hefði komist til skila í ræðu minni hér áðan að við erum að skattleggja þyngst þá sem lægst hafa launin í þjóðfélaginu á sama tíma og þeir bera minnstu skattana sem hæstu tekjurnar hafa, sem mest hafa fyrir sig að leggja. Það er óréttlátt.

Ég er sammála hv. þm. Atla Gíslasyni um að þetta er ekki alveg í samræmi við þær hugmyndir sem við tölum um varðandi jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Ég er líka sammála honum varðandi þrepaðan tekjuskatt. Ég sé ekki hvaða vandamál það á að vera á tölvuöld.