135. löggjafarþing — 13. fundur,  18. okt. 2007.

tekjuskattur.

15. mál
[20:25]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt að ég notaði ekki þetta orð „gæluskattgreiðendur“ en ég hefði hins vegar getað notað það. Það er aftur annað mál. Það var kannski það sem hv. þingmaður átti við, að hún mátti búast við því að þau orð hrytu af mínum vörum eins og einhvers annars (Gripið fram í.) hv. þingmanns hér í þessari umræðu.

Það sem ég vil segja í þessu samhengi öllu, varðandi fjármagnstekjuskattinn sérstaklega, er að frá mínum bæjardyrum séð, og ég fullyrði það að sveitarstjórnarmenn séu almennt þeirrar skoðunar, á hluti af honum að koma til sveitarfélaganna. Menn hafa hins vegar velt fyrir sér spurningunni: Hvernig á að tryggja að hann komist til sveitarfélaga í einhverjum eðlilegum hlutföllum? Hann innheimtist ekki jafnt eftir sveitarstjórnum. Það er önnur umræða. Og til hvers höfum við mekanisma sem er Jöfnunarsjóður sveitarfélaga? Þangað fer líka útsvarið sem er jafnað út eftir vissum reglum. Það er því ekki vandamál í sjálfu sér.

Hitt er að eftir stendur sú staðreynd að skattbyrðin hefur breyst og flust til. Í þeim upplýsingum sem hér eru reiddar fram og við höfum séð á fleiri stöðum, m.a. hefur Stefán Ólafsson prófessor bent á það í rannsóknum sínum, sést að skattbyrðin hefur flust til þannig að þeir sem eru með hæstar tekjur hafa fengið hlutfallslega minni hækkun eða skattbyrði þeirra lést á meðan skattur á þá sem hafa lægstu tekjurnar hefur aukist hlutfallslega. Það er kjarni málsins. Á sama tíma hefur Sjálfstæðisflokkurinn beitt sér fyrir því að sérstaki hátekjuskatturinn, sérstakt þrep í tekjuskattinum, yrði felldur niður. Skattur sem er ekkert mál að innheimta, eins og hv. þm. Jón Magnússon benti á, á tölvuöld, 21. öldinni. Það er ekkert vandamál í því.

Þetta eru staðreyndir sem (Forseti hringir.) tala sínu máli og Sjálfstæðisflokkurinn situr uppi með.