135. löggjafarþing — 13. fundur,  18. okt. 2007.

tekjuskattur.

15. mál
[20:33]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Það hlýtur að vera nokkuð sérstök tilfinning fyrir hv. þm. Árna Þór Sigurðsson að hafa lent í vitlausu leikriti eða vitlausu andsvari þegar hv. þm. Ásta Möller leitaði andsvara við ræðu hv. þm. Árna Sigurðssonar sem í raun átti við ræðu hv. 7. þm. Suðurkjördæmis. Það voru hins vegar mjög merkilegar upplýsingar sem komu fram um þessa svonefndu gæluskattgreiðendur Sjálfstæðisflokksins sem hv. 7. þm. Suðurk. minntist á. Hv. 7. þm. Reykv. s., Ásta Möller, benti okkur á hverjir þessir skattgreiðendur væru samkvæmt því sem hún las upp að hluta úr upplýsingum frá fjármálaráðuneytinu.

En hverjir voru þetta? Það sem hún nefndi var að hlutfallslega bæri mikið á skólafólki og öldruðum sem greiddu fjármagnstekjur sem er sjálfsagt skýringin á því að fjármagnstekjur hafa aukist jafnmikið í þjóðfélaginu og hæstv. fjármálaráðherra hefur iðulega gumað af. En það er nú ekki þannig. Það þarf ekki að fara langt eða vísa til margra hluta til þess að sjá það og skoða, með skattalækkunum á fyrirtæki, þ.e. hlutfallslegum skattalækkunum á fyrirtæki, á rekstur, og lægsta fjármagnstekjuskatti í norðanverðri Evrópu. Ég tek það fram að ef vísað er til Bandaríkja Norður-Ameríku þá eru fjármagnstekjur þar mun hærri en hér á landi, mun hærri, og hærri en almennt gerist í Evrópu. Varðandi viðmiðanir er því ekki um auðugan garð að gresja nema ef til vill einhver af ríkjunum sem eru nýsloppin undan oki kommúnismans. Alla vega hefur þetta gengið vel, fjármagnstekjur hafa aukist, heildarskattheimtan eða heildarandvirðið, þannig að það er út af fyrir sig gott og ég er ekkert að draga úr því.

Ég er þeirrar skoðunar að lág skattprósenta geti og muni skila sér í jafnmiklum eða auknum tekjum til ríkisins og sama máli gegni hvað varðar fjármagnstekjur og skatt á launafólk þar sem við höfum gjörsamlega keyrt út af. Það sem hefur verið að skapa og búa til þann velferðarhalla sem ég hef verið að tala um eru hinir óskaplega háu neysluskattar í formi einna hæstu virðisaukaskattsgreiðslna sem fyrirfinnast í Evrópu auk þess sem við höfum óheyrilega há vörugjöld og ýmis önnur aðflutningsgjöld. Þetta gerir það að verkum að öll aðföng til almenns rekstrar, til þess að lifa, verða svo dýr, og ekki nóg með það, vegna þess að heimilin í landinu eru mjög skuldug og lánabyrðin markast af því hvert vöruverðið er í landinu, vegna þess að við höfum verðtryggingu. Þessi óhóflegu neysluskattar ríkisins valda því að lánin eru hærri en þau ella yrðu. Þetta lendir því með tvöföldum þunga á þeim sem minnst hafa fyrir sig að leggja. Hvernig sem við lítum á þetta hefur þjóðfélagið orðið þannig og verið mótað þannig af hálfu ríkisstjórnarflokkanna og þeirrar ríkisstjórnar sem áður sat að þeir sem sitja á botninum hvað tekjur varðar eiga sér ekki viðreisnar von vegna hinna ofurþungu skatta hlutfallslega af tekjum þeirra sem ríkisvaldið og sveitarfélög leggja á fólkið í landinu.

Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, 9. þm. Reykv. n., benti á eitt dæmi áðan í mjög góðri ræðu sem hann flutti og það dæmi er mjög sláandi og sýnir hversu mikið réttlætismál þetta frumvarp okkar frjálslyndra er. Hann benti á að einstæð móðir með tvö börn og 150 þús. kr. launatekjur á mánuði þyrfti að greiða 22 þús. kr. í skatta og þetta dró hv. þm. Árni Þór Sigurðsson fram með mjög glöggum hætti. Þetta er mergurinn málsins. Lágtekjufólkið í landinu, maðurinn sem er með 150 þús. kr. fær kjarabót sem nemur 22 þús. kr. ef frumvarp okkar frjálslyndra nær fram að ganga. Það er besta og mesta kjarabótin sem láglaunafólkið í landinu getur fengið og það sem í augnablikinu er líklegast til að jafna að nokkru þann velferðarhalla sem við búum við í dag og koma á auknum jöfnuði þótt því fari fjarri að farið sé að jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar eins og hv. þm. Atli Gíslason benti mjög glögglega á í ræðum sínum áðan. Það er síðan annað mál. Við frjálslynd erum fyrst og fremst að leggja þetta frumvarp fram til að hækka skattleysismörkin í 150 þús. sem byrjun vegna þess að ekki verður við það unað að haldið verði áfram með sama hætti og verið hefur að skattleggja láglaunafólk eins og gert er í dag. En þetta er byrjunin. Að okkar mati verður að taka skattkerfið til heildarendurskoðunar til að skapa réttlæti, til að móta réttlæti í þjóðfélaginu á grundvelli jafnræðishugsjónar og jafnræðis einstaklinganna.