135. löggjafarþing — 13. fundur,  18. okt. 2007.

tekjuskattur.

15. mál
[20:44]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt sem fram kom hjá hv. þm. Jóni Magnússyni að hægt er að færa fyrir því rök og hægt er að benda á dæmi um það, m.a. héðan, að lægra skatthlutfall hafi leitt til hærri skatttekna hins opinbera en fyrir því eru auðvitað einhver takmörk. Þar eru einhver sársaukamörk sem menn verða að sjálfsögðu að vara sig á að fara ekki niður fyrir. Það var kannski aðallega það sem ég var að reyna að draga fram. Við getum ekki endalaust lækkað skatthlutfallið og haldið að við getum með því aukið tekjur ríkissjóðs út í það óendanlega, vegna þess að ef sú röksemdafærsla gengi upp mundum við náttúrlega að lokum verða komin niður í prósentuna núll og segja að þar með yrðu skatttekjur hins opinbera alveg gríðarlega háar, sem er auðvitað ekki veruleikinn.

Ég vil líka benda á að það eru ýmsir aðrir þættir sem er eðlilegt að við látum fara að vega þyngra í skatttekjum opinberra aðila, ríkis og sveitarfélaga. Þar vil ég nefna sérstaklega hluti eins og umhverfisskatta, þ.e. slíka skattlagningu, þar sem við erum beinlínis að ná pólitískum markmiðum sem geta m.a. lotið að því að ná árangri í loftslagsmálum sem voru til umræðu fyrr í dag, og þá er mikilvægt að nota hagræna hvata eins og það heitir sem þýðir í raun og veru bara skattlagning eða gjöld til að ná árangri. Það er eðlilegt að slík gjöld eða slíkar skatttekjur fari að vega þyngra í okkar sameiginlegu skatttekjum. Þess vegna ítreka ég að það er mikilvægt að skattkerfið allt verði tekið til gagngerrar endurskoðunar og ég hvet mjög til þess. Að sjálfsögðu er það frumvarp sem hér liggur fyrir aðeins lítill hluti af því en eftir þessa umræðu finnst mér mjög margt í því vera jákvætt og það eigi fullan rétt á sér eins og það er lagt hér fram. (Forseti hringir.)