135. löggjafarþing — 13. fundur,  18. okt. 2007.

tekjuskattur.

15. mál
[20:48]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Ég sé mig knúinn til að lengja þessa umræðu nokkuð. Ég þarf að fara í andsvar við andsvar við annan mann sem var við mig. Ég er sem sagt í andsvari út af andsvari við aðra ræðu. En samt var það út af minni ræðu. Ég stend samt hér, hv. þm. Ásta Möller, og get ekki annað. Ég verð að nota þetta tækifæri til þess.

Ég get alveg fullvissað hv. þm. Ástu Möller um að ég er að ráðast að gæluskattgreiðendum Sjálfstæðisflokksins, ekki sem persónum, ekki sem einstaklingum, heldur er ég að ráðast gegn kerfi sem mismunar svo að það hriktir í jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og ég notaði það í fyrri ræðu minni að bera saman sjómenn sem gera út á fiskimiðin á Íslandi og þá sem gera út á fjármálamarkaði. Ég get alveg orðað það svo að stjórnarskráin er fyrir borð, jafnræðisreglan er fyrir borð við þennan samanburð á því hvort þú gerir út á fisk eða fé. Það er svo.

Skattastefna Sjálfstæðisflokksins undanfarin 16 ár hefur verið alltumvefjandi umhyggjustefna fyrir auðmenn. Þeim hefur verið hjúkrað bak og fyrir og settir undir þá púðar, peningapúðar þannig að þeir eru nánast lóðréttir í sængum sínum. Ég er að tala um menn sem krakkarnir segja að séu ógeðslega ríkir. Þeir eru það. Og fyrir þessu fólki, sem ég ræðst ekki að persónulega, fyrir þessu fólki hefur Sjálfstæðisflokkurinn alltumvefjandi umhyggju á sama tíma sem öryrkjar, ellilífeyrisþegar, einstæðar mæður og fleiri með lágar tekjur, tekjur undir 150 þúsund borga 22.300 kr. skatta, meðal annars þessi tveggja barna einstæða móðir sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson minntist á.

Gælugreiðandinn sem gerir út á fjármálamarkaði og er með milljón á mánuði, hvað borgar hann, gælugreiðandi sem gerir ekkert annað en að gera út á fjármálamarkaði og reiknar sér ekki laun eins og sjómaðurinn? Hvað greiðir hann? 100 þús. kr. á mánuði. Hvað greiðir hinn hörkuduglegi sjómaður sem sækir sjóinn stíft í öllum veðrum og stendur blóðugur upp fyrir axlir við aðgerð — ef svo má að orði komast — og hefur fyrir þessari milljón á mánuði? Hvað borgar sjómaðurinn? Yfir 300 þúsund. Hvaða réttlæti er í því?

Ég er ekki að ráðast á eldri konur, eldri menn, eldri borgara, námsfólk og aðra sem eiga peninga í banka eins og venjulegt fólk. Því fer víðs fjarri. Ég ætlast til þess að skattkerfið mismuni ekki þannig að gæluskattgreiðendurnir þurfi ekki einu sinni að reikna sér laun fyrir að sækja á fjármálamarkaðinn, gera út á fjármálamarkaðinn. Er til of mikils mælst? Ég get líka sagt að það má vel hugsa sér — og við höfum lagt fram tillögu um það — að setja ákveðið hámark fjármagnstekna sem beri 10% og það sem er umfram það, það sem er orðin uppistaðan í tekjum fólks beri meira. Er nokkurt vit í þjóðfélagi þar sem allstór hópur manna hefur 50 milljarða á ári í fjármagnstekjur og borgar 5 milljarða og er með 45 milljarða til baka? Er nokkurt vit í þessu?

Það verður enn þá vitlausara þegar maður hugsar til þess að þetta fólk borgar ekki til samfélagsins. Það borgar ekki til sveitarfélaganna. Nokkur sveitarfélög í landinu líða fyrir þetta í dag vegna þess að þar hafa sest að gæluskattgreiðendur sem borga ekki til sveitarfélagssamfélagsins. Það gerum við.

Einhvern tíma á Ísafirði þegar skattskráin var gefin út mætti maður manni á götu og sagði við hann: „Hvað ert þú að gera hér uppi á gangstétt. Af hverju ertu ekki niðri í fjöru? Þú hefur ekki borgað krónu fyrir gangstéttina, ekki fyrir ljósin og ekki fyrir umhverfið, ekki fyrir hreinsun á stéttinni. Þú hefur ekkert gert.“ Það er þetta fólk sem ég þoli ekki að skattkerfi Sjálfstæðisflokksins beri alltumvefjandi umhyggju fyrir.

Ég þoli það ekki heldur að einstæða móðirin með tvö börn borgi 22 þús. kr. á mánuði en milljónkrónamaðurinn 100 þúsund, fjármagnstekjumaðurinn. Svona kerfi er brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Ég fullyrði það. Það gengur ekki upp að mismuna fólki svona herfilega. Ég segi að hin rétta hugsun í skattkerfinu sé að vera stoltur af því að greiða skatta. Þeir eiga að stíga fram, gæluskattgreiðendurnir, og krefjast þess að fá að borga meira til samfélagsins, til heilsugæslunnar, til umönnunar aldraðra, til að hækka laun láglaunafólksins. Það væri betur að þeir notuðu peningana sína til þess og ferðuðust svo bara á fyrsta farrými í staðinn fyrir að vera í einkaþotunum á Reykjavíkurflugvelli. Það væri miklu nær að þeir sýndu þann manndóm að koma sjálfir fram — fyrst að Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki skattleggja þá — og borga ríflega.

Nei, þeir borga til samfélagslegra verkefna svo af þessum stóru peningum til að fá ímynd. Þeir borga eitthvað hitt og þetta í velferðinni. Maðurinn með 50 milljarðana og borgar 5 milljarða af þeim í fjármagnstekjuskatt og er með 45 milljarða eftir. Hann gefur 50 milljónir í Þjóðleikhúsið eða hann gefur 50 milljónir í Mæðrastyrksnefnd og hrósar sér af því — þetta er verkefni sem ríkisstjórnin á að sjá um og ríkisvaldið — og fær einhverja ímynd af því.

Ég ber miklu meiri virðingu fyrir fátæku ekkjunni sem gefur fimm aura eða fimmtíukall, miklu, miklu meiri virðingu fyrir henni. Ég ber enga virðingu fyrir kerfi sem lætur þá ríkustu borga minnst, ekki nokkra virðingu fyrir slíku kerfi.

Það er ástæða til að hrósa flutningsmönnum þessa frumvarps fyrir að taka þetta upp og það er ástæða til þess í þessum þingsal að tala lengi og vel um það óréttlæti sem hér viðgengst, lengi og vel.

En hvað kýs Sjálfstæðisflokkurinn að gera og forgangsraða þegar við stöndum frammi fyrir þessari mismunun, stjórnarskrárbrotum eða að það hriktir í stjórnarskránni og hún er fyrir borð og jafnræðisreglunni? Hvað er þá gert? Þremur dögum er eytt í að auðvelda aðgengi ungmenna að brennivíni eða léttvíni. Sú er forgangsröðunin, en ekki að ræða þetta brýna mál. Ég verð þó að hrósa hv. þm. Ástu Möller fyrir að koma hér upp og taka til máls. Það verð ég að segja. Það finnst mér til mikillar fyrirmyndar.

Minn flokkur, Vinstri hreyfingin – grænt framboð, mun aldrei líða þetta ástand. Okkur þingmönnum ber, og við höfum undirritað þá skyldu, að standa vörð um stjórnarskrána. Þegar þarna er verið að brjóta lög með jafnhrikalegri mismunun og hér á sér stað þá eiga þingmenn auðvitað að standa upp allir sem einn og minnast þess heits sem þeir hafa unnið gagnvart stjórnarskránni, þar með talið gagnvart jafnræðisreglunni.