135. löggjafarþing — 13. fundur,  18. okt. 2007.

samkeppnisstaða fyrirtækja í eigu ríkis og sveitarfélaga.

16. mál
[21:20]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Mér virðist sú tillaga sem hér liggur fyrir til þingsályktunar um samkeppnisstöðu fyrirtækja í eigu ríkis og sveitarfélaga, og það sem bæði í tillögutextanum sjálfum segir og eins í greinargerðinni, einkennast býsna mikið af, getum við sagt, einstrengingslegri afstöðu til opinbers rekstrar annars vegar og einkarekstrar hins vegar. Menn gefa sér það nánast að opinber rekstur sé til bölvunar, til trafala og að helst þurfi að koma öllu yfir í einkarekstur sem mögulegt er. Hér svífur sá andi yfir vötnum að opinber rekstur standi í vegi fyrir einkarekstrinum, sé í vegi fyrir framförum, þróun o.s.frv. Ég ætla að segja fyrir mína parta að ég er ósáttur við andann í þessari tillögu. Ég hef út af fyrir sig ekkert á móti því að samkeppnisstaða fyrirtækja í eigu ríkis og sveitarfélaga sé skoðuð og allt eftir því. Mér finnst hins vegar andinn í því sem hér er sett fram mjög neikvæður.

Það mætti að sjálfsögðu alveg eins snúa þessu á haus og spyrja sig hvort ekki ætti að skoða samkeppnisstöðu fyrirtækja í einkaeigu gagnvart ríkinu og sveitarfélögunum, setja sem sagt öfug formerki á allt sem hér er sett fram. Nú höfum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs lagt fram þingsályktunartillögu um að skoða sérstaklega áhrif einkavæðingar á samfélagsþjónustuna. Ég er sannfærður um að þar er mjög margt athyglisvert sem kemur í ljós ef það verður gert.

Hér er talað um að útþensla stofnana sé oft kennd við parkinson-lögmálið. Það er greinilega verið að reyna að koma neikvæðum stimpli á starfsemi hins opinbera og hugsanlega þá sem þar starfa. Hér er sagt: „Allmörg dæmi eru um að ríkisstofnanir undirbjóði þjónustu einkaaðila.“ Mér finnst þetta mikið sagt og stór orð sem hér er haldið fram án þess að beinlínis séu færð rök fyrir þeim. Tekin eru nokkur dæmi í þessu samhengi, m.a. segir hér með leyfi forseta: „Landmælingar Íslands, sem er ríkisfyrirtæki, stóð um árabil fyrir umfangsmikilli kortagerð byggðri á landmælingum, í samkeppni við einkafyrirtæki.“

Mér finnst undarlegt að setja málið fram með þessum hætti vegna þess að Landmælingar Íslands sinna gríðarlega þýðingarmiklu hlutverki og hafa gert um langt árabil. Síðan gerist það að einkafyrirtæki kemur inn á þennan markað og vill fá að spreyta sig. Hvað er þá sagt? Þá verður opinberi reksturinn að fara út.

Er það þá þannig að ef einhverjum dettur í hug að stofna fyrirtæki um einhvern rekstur sem er hjá hinu opinbera sé sá opinberi bara réttdræpur? Ég fullyrði að það hefur stórskaðað Landmælingar Íslands að kortagerðinni þeirra var hætt. Ég skora á hv. flutningsmenn að kynna sér það. Það gerði ég til að mynda í kosningabaráttunni fyrir fáum mánuðum og komst að því að þær hafa skaðast. Afurðin sem hefur komið frá einkaaðilum er miklu lakari en afurðin sem áður var hjá þessu opinbera fyrirtæki.

Hér er talað um rannsóknastofur Landspítalans í beinni samkeppni við einkareknar rannsóknastofur lækna. Bíðið þið nú við, er verið að segja að rannsóknastofur Landspítalans séu eiginlega bara fyrir og það eigi að leggja þær niður? Er það það sem er verið að segja hér? Mér finnst þetta mjög sérkennilegt.

Hér er talað um að einkafyrirtæki hafi lýst áhuga á að taka að sér starfsemi hafnasviðs Siglingastofnunar. En sviðinu, eins og hér segir, er ætlað að hafa umsjón með hafnarframkvæmdum og vinna að uppbyggingu sjóvarna og hafna. Vita hv. flutningsmenn hvað hér er á ferðinni? Hér er um að ræða hafnasviðið sem sér um að vinna að uppbyggingu sjóvarna og hafna og hefur umsjón með hafnarframkvæmdum. Vita hv. flutningsmenn hve margir starfsmenn á hafnasviði Siglingastofnunar sjá um þessa þjónustu? Það eru eitt til tvö mannár. Þetta fékk ég upplýsingar um þegar við í samgöngunefnd Alþingis fórum í heimsókn til Siglingastofnunar í morgun. Er það það sem á að einkavæða? Er það það sem á að dreifa til margra einkaaðila, eða hvað, til að koma á samkeppni?

Ég held að margt sé vanhugsað í þessari tillögu. Hér er talað um að samlegðaráhrif í einkarekstri yrðu einhver. Geta ekki verið heilmikil samlegðaráhrif með því að vera með mörg öflug verkefni hjá hinu opinbera? Að sjálfsögðu. Ég ætla að taka hér eitt dæmi, af því að tíminn er takmarkaður í fyrri umr., þar sem fjallað er um vélamiðstöð sem áður hét Vélamiðstöð Reykjavíkur, Vélamiðstöðin ehf., og vitnað í útboð Sorpu um gámaþjónustu. Hér segir m.a., með leyfi forseta, „og er stjórn fyrirtækisins skipuð m.a. borgarverkfræðingi Reykjavíkur og forstjóra Orkuveitunnar“.

Ég held að hv. flutningsmenn hefðu átt að vinna tillöguna betur áður en þeir settu hana fram. Það vill þannig til að þetta eru gamlar fréttir sem væntanlega eiga sér stoð í því að þessi tillaga hefur verið flutt hér á fyrri þingum. Þetta er einkafyrirtæki í dag. Stjórnin er ekki skipuð borgarverkfræðingi Reykjavíkur eða forstjóra Orkuveitunnar. Þetta eru bara gamlar fréttir sem hér eru settar fram í greinargerð máli flutningsmanna til stuðnings. Ég held að þeir hefðu átt að vinna heimavinnuna aðeins betur áður en þeir komu þessu inn í þingið. Þarna eru rangar upplýsingar á ferðinni.

Svo segir hér í lokin að það sé mikilvægt að ríkið dragi sig út úr starfsemi sem er á samkeppnismarkaði og um leið að vekja, með leyfi forseta, „ríkisstofnanir til vitundar um skaðsemi þess að hamla þróun framsækinnar starfsemi á vegum einkaaðila“. Þessu er alveg snúið á haus. Hér hafa kannski opinber fyrirtæki verið í metnaðarfullri starfsemi, mikilvægu þróunarstarfi, starfi sem skiptir máli fyrir samfélag okkar og svo koma einkaaðilar þar inn á og þá á bara að ýta allri opinberri starfsemi út til að einkaaðilarnir fái sviðið, stundum til þess að þeir geti verið með einokun. Halda menn að það sé jákvætt? Halda menn virkilega að þessi stefna muni alltaf leið til meiri hagkvæmni fyrir hinn opinbera aðila sem kannski greiðir fyrir þjónustuna með einhverjum hætti?

Ég hef staðið í þeim sporum að vera í fyrirsvari fyrir stærsta sveitarfélag landsins í 12 ár. Og ég gæti sagt margar reynslusögur af því að stundum hafa útboð skilað hagkvæmari rekstri, stundum hefur það leitt til kostnaðarlækkunar, en mjög oft leiðir þessi leið líka til kostnaðarhækkunar fyrir hinn opinbera aðila miðað við að hann sinni þessu sjálfur. Er þá til einhvers farið?

Ég er út af fyrir sig ekki andvígur því að svona athugun sé gerð á vegum viðskiptaráðherra en mér fyndist að það ætti alveg eins að gera með öfugum formerkjum, að skoða hvort einkaaðilar komi inn á markaðinn, ýti út mikilvægri samfélagslegri þjónustu sem er hagkvæm fyrir samfélagið, notendur hennar, og verði jafnvel til þess að þessi þjónusta verði dýrari. Allt yfirbragð þeirrar tillögu sem hér liggur fyrir er á þessum nótum, að hið opinbera sé að þvælast fyrir einkaaðilum og þeir eigi að eiga sviðið.