135. löggjafarþing — 13. fundur,  18. okt. 2007.

samkeppnisstaða fyrirtækja í eigu ríkis og sveitarfélaga.

16. mál
[21:30]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er feginn því að hv. þm. Ásta Möller segir að ekki andi köldu af hálfu flutningsmanna í garð opinberrar starfsemi. Ég vil bara segja — af því að haft var á orði í umræðum fyrr í dag af hæstv. iðnaðarráðherra að það væri ekki lengur þannig í mínum flokki að við sæjum rautt þegar talað væri um samkeppni — að ég er alls ekki þeirrar skoðunar að samkeppni geti ekki verið af hinu góða en ég er hins vegar ekki þeirrar skoðunar að hún eigi alltaf við og að það sé einhver trúarsetning að koma henni á hvar sem hægt er. Ég tel að opinber starfsemi sé oft mjög mikilvæg, þýðingarmikil fyrir samfélagið og hagstæð.

Varðandi það sem hv. þingmaður nefndi með Siglingastofnun, og bar saman við Vegagerðina, vil ég taka fram að þar er ólíku saman að jafna. Vegagerðin er miklu stærri stofnun með miklu almennari verkefni sem margar verkfræðistofur geta sinnt. Á Siglingastofnun, sem hefur með höndum hönnun hafnarmannvirkja, er afskaplega sérhæfð verkfræði og afar fáir aðilar hér á landi hafa þekkingu og reynslu á því sviði, líka vegna þess að þetta eru fá verkefni. Á sama tíma eru færustu sérfræðingar okkar hjá Siglingastofnun á heimsklassa varðandi rannsóknir og þróun og hönnun hafnarmannvirkja. Það fullyrði ég og hv. þingmaður veit þetta örugglega.

Ég þekki það líka eftir að hafa verið formaður hafnarstjórnar í Reykjavík í tólf ár og Hafnasambands sveitarfélaga að mjög fáir aðilar hafa þessa þekkingu til að bera. Það er Siglingastofnun og það eru Faxaflóahafnir sem hafa sérfræðiþekkingu á þessu sviði og það hefði ekki nokkurn hlut upp á sig að taka þá þekkingu og reynslu og reyna að koma henni út til einkageirans. Það er ekki það umfang að það hafi neitt upp á sig.