135. löggjafarþing — 13. fundur,  18. okt. 2007.

efling kennslu í heilbrigðisvísindum í Háskólanum á Akureyri.

117. mál
[21:42]
Hlusta

Björn Valur Gíslason (Vg):

Herra forseti. Hér er komin fram tillaga sem ég er meðflutningsmaður að ásamt fleirum og þar á meðal frummælanda, hv. þm. Þorvaldi Ingvarssyni, um að efla kennslu í heilbrigðisvísindum í Háskólanum á Akureyri.

Það er rétt sem kemur fram í greinargerð með tillögunni að rannsóknir sýna það jafnt í kennslu á háskólastigi sem og annars staðar að menntun sem á sér stað úti á landsbyggðinni verður til þess að þeir sem þar stunda nám eru líklegri en aðrir til að setjast þar að og starfa. Rannsóknir sem nemendur brautskráðir af Háskólanum á Akureyri gerðu og vitnað er í í greinargerð með þingsályktunartillögunni vitna sannarlega um það ásamt öðru. Það er að hluta til markmiðið með þessari tillögu, til hliðar við það að efla menntun í heilbrigðisvísindum, að reyna að styrkja atvinnulífið á landsbyggðinni, ekki bara á því svæði þar sem háskólinn er, í þessu tilfelli Háskólinn á Akureyri, heldur víðar á landsbyggðinni og það veitir svo sannarlega ekki af því.

Mikilvægi Háskólans á Akureyri verður aldrei metið til fulls bæði fyrir samfélagið á Akureyri og við Eyjafjörð allan og það sama á náttúrlega við aðrar menntastofnanir þar á framhaldsskólastigi eins og menntaskólann og verkmenntaskólann. Samanlagt held ég að í þessum þrem skólum, Menntaskólanum á Akureyri, Verkmenntaskólanum á Akureyri og Háskólanum á Akureyri gangi til náms á hverju hausti vel á fjórða þúsund nemendur, hvorki meira né minna og það hefur mikil áhrif á samfélagið á þessu svæði við Eyjafjörð.

Það hefur hingað til loðað við Eyjafjörð að þar er tiltölulega lágt menntastig, hefur verið lengi og lengi vel var menntastigið við Eyjafjörð eitt það lægsta á landinu. Það eru ekki mörg ár síðan gerð var rannsókn hjá Símey, ef ég man rétt, á Akureyri þar sem kom fram að rétt tæplega helmingur fólks á vinnumarkaði var eingöngu með grunnskólapróf, enga framhaldsmenntun umfram grunnskóla, svo ótrúlegt sem það nú er. Þá var háskólans reyndar ekki farið að gæta af eins miklum krafti og núna. En þetta kom auðvitað fram í því að á Eyjafirði var eitt mesta láglaunasvæði á landinu líka. Það hefur svo sem lengi loðað við það svæði sömuleiðis. En þetta hefur þokast upp á við eftir að háskólans fór að gæta svona af verulegum krafti, eftir að hann var farinn að skila út í samfélagið vel menntuðu fólki og nú er til dæmis staðan þar í kennarastétt orðin þannig að flestir skólar eru vel mannaðir ef ekki fullmannaðir af réttindakennurum og það um allan Eyjafjörð að auki þannig að þetta smitar út frá sér líka.

Þessi tillaga leiðir líka hugann að menntun á öðrum sviðum, verkmenntun og menntun sem snýr að störfum sem eru frekar landsbyggðartengd líkt og í sjávarútvegi og landbúnaði og undirstrikar mikilvægi þess að leita svipaðra leiða hvað þau störf eða hvað það atvinnulíf varðar líkt og gerir í þessari tillögu. Ég vil minna á að á þessu landi okkar er ekki starfandi fiskvinnsluskóli lengur. Var þó starfandi skóli síðast ef ég man rétt á Dalvík. En ekki var rekstrargrundvöllur fyrir honum vegna þess að það sóttu hann ekki nægilega margir nemendur. Svipaða sögu má segja með sjómannanám, stýrimannaskólanám, að þar núna hangir rétt skólahald í Reykjavík í því fagi en það hefur dottið upp fyrir úti á landi þar sem hefur verið reynt að koma því á.

Ein skýring á því er að menntunar er ekki krafist í sjávarútvegi nema að mjög litlu leyti. Menntunar er ekki krafist um borð í fiskiskipum nema bara varðandi skipstjórn og vélstjórn og ekki nóg með það, menntun er aldrei að neinu leyti, þ.e. umfram lögbundin réttindi er menntun aldrei metin til launa, aldrei nokkurn tíma. Það skiptir ekki máli hversu vel menntaðir sjómenn eru í meðferð á fiski eða vinnslu á fiski, við veiðarfæri eða hvað sem má nefna í því sambandi, aldrei er það metið til launa. Þeir fá menntun sína aldrei metna til launa. Raunar hefur það verið svo, því miður, í þessu fagi að þeir sem ráða þar ferðinni, þeir sem reka skipin, hafa hreint út sagt reynt að halda niðri menntunarstigi af ótta við að þurfa að greiða fyrir það hærri laun. Það hefur meðal annars komið fram í því að á Alþingi hefur oftsinnis verið rætt um að skerða réttindi yfirmanna, fækka stýrimönnum, fækka vélstjórum og skerða réttindi yfirmanna að auki meira en því nemur. Ef ég man rétt er ekki langt síðan slík mál voru rædd. Fiskmatsmenn, vigtarmenn, vélamenn og aðrir sem sinna störfum um borð í skipum fá ekki, þ.e. þar er engrar menntunar krafist og það er ekki greitt fyrir menntun í þeim fögum.

Það mætti huga að því í sambandi við þessa tillögu líka, þessa góðu tillögu, að huga að fleiri þáttum varðandi menntun á landsbyggðinni því að rannsóknir á fleiri sviðum en kemur fram í greinargerðinni vitna til þess og benda til þess að það skili sér til landsbyggðarinnar, þ.e. fólk sem býr á landsbyggðinni sækir frekar skóla sem eru reknir á landsbyggðinni og eru líklegri til að sitja þar eftir og þá ekki bara í kringum skólasvæðið beint.

Það er mín skoðun, án þess að ég hafi fyrir því vísindalegar sannanir, að menntunarstigi á landsbyggðinni, þ.e. utan stærstu þéttbýliskjarnana, hafi farið aftur, þ.e. að menntunarstigið hafi lækkað. Það lækkaði um tíma nokkuð hratt en hefur aðeins rétt úr kútnum eftir að fjarnám og fjarkennsla komst á þann stað sem það er í dag og auðveldara hefur orðið fyrir fólk að stunda fjarnám. Það kemur konum sérstaklega vel því að meiri hluti þeirra sem stunda fjarnám úti á landi eru konur sem eru þá langoftast að stunda nám í svokölluðum umönnunarstéttum eða kennarastétt og er ekkert nema gott um það að segja.

Þessi tillaga er vel til þess fallin að efla menntastigið á landsbyggðinni, efla háskólanám á landsbyggðinni, Akureyri og Eyjafjarðarsvæðinu í þessu tilfelli, og nái hún fram að ganga er ég handviss um að hún muni láta gott eitt af sér leiða.