135. löggjafarþing — 13. fundur,  18. okt. 2007.

efling kennslu í heilbrigðisvísindum í Háskólanum á Akureyri.

117. mál
[21:50]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Mig langaði til þess að segja nokkur orð um þessa tillögu til þingsályktunar sem ég fagna. Það er ekki ofsögum sagt að þegar Háskólinn á Akureyri var stofnaður þá var það töluvert mikil lyftistöng fyrir það samfélag sem þar var og það var ekki síður lyftistöng fyrir einmitt heilbrigðisþjónustuna. Ef ég man rétt var einmitt heilbrigðisdeildin ein af fyrstu deildum innan Háskólans á Akureyri og það sannaði sig að það var góð ráðstöfun. Hún var skynsamleg þó að hún hafi þótt djörf á sínum tíma enda minnir mig að þetta hafi verið fyrsti háskólinn utan Háskóla Íslands sem var stofnaður og þótti mörgum býsna djarft og ekki skynsamlegt. En á hinn bóginn hefur þetta sannað sig. Eins og er með svo margt, að þegar kemur svona samkeppni um gæði eins og þarna kom, þá hafði það þau áhrif á hjúkrunarfræðideildina fyrir sunnan við Háskóla Íslands að hún batnaði eða fann fyrir þessari samkeppni og gæði námsins jukust.

Jafnframt er mjög ánægjulegt að hjúkrunarfræðideildin fyrir norðan tók upp ýmis nýmæli sem akkúrat sneru að því að þetta var háskóladeild á landsbyggðinni og fann sérstaklega til ábyrgðar sinnar gagnvart landsbyggðinni. Hjúkrunarfræðideildin hefur stofnað til fjarnáms í öðrum landshlutum, Keflavík, Ísafirði og Egilsstöðum eftir því sem ég man best. Það skilaði þessum samfélögum menntuðum hjúkrunarfræðingum sem hefðu annars ekki átt þess kost að mennta sig í þessu fagi. Ég man sérstaklega eftir því þegar tíu konur á Ísafirði tóku sig upp — þær höfðu starfað við heilbrigðisþjónustuna en án faglegrar menntunar — þær tóku sig upp og hófu fjarnám frá Háskólanum á Akureyri og skiluðu sér til starfa til sjúkrahússins og bættu þá úr brýnni þörf fyrir menntaða hjúkrunarfræðinga á staðnum. Það sama á við einmitt einnig fyrir austan og svo í Keflavík og á fleiri stöðum. Því er alveg ljóst að hjúkrunarfræðideildin fyrir norðan hefur staðið undir væntingum.

Annað sem heilbrigðisdeildin hefur gert er að hún færði í raun nám í iðjuþjálfun hingað til Íslands. Nám í iðjuþjálfun var ekki til staðar á Íslandi þegar heilbrigðisdeildin fyrir norðan tók upp það nám. Það hefur gert það að verkum að fjöldinn allur af ungu fólki hefur núna tækifæri til þess að læra það hér á landi sem það hafði ekki áður.

Það er alveg rétt sem kemur fram í þingsályktunartillögunni að verulegur skortur er á hjúkrunarfræðingum. Það vantar á milli 600 og 800 hjúkrunarfræðinga í landinu. Það fer eftir það er reiknað út hve þörfin er mikil. Það er jafnframt rétt sem kemur þarna fram að töluverður hluti þeirra sem brautskrást frá Akureyri helst úti á landi. Það vill reyndar þannig til varðandi þá könnun sem Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga gerði að það var ég sem tók saman þessar tölur þannig að ég þekki þetta mál nokkuð vel.

Ég sem sagt tek undir þessa tillögu til þingsályktunar um að efla kennslu í heilbrigðisvísindum við Háskólann á Akureyri. Flutningsmenn eru eftir því sem ég kemst næst allir hv. þingmenn Norðausturkjördæmis og er það vel. Það er full þörf á því að efla þessa kennslu. Það er nú þannig að námsplássum hefur fjölgað í hjúkrunarfræði á undanförnum árum. Það dugar samt ekki til því að þannig vill til að þessi stétt er mjög eftirsótt til annarra starfa og hefur leitað verulega út fyrir heilbrigðiskerfið til starfa þar sem menntun þeirra nýtist en er samt ekki innan heilbrigðisþjónustunnar beinlínis, enda er það náttúrlega mjög gott að þessum hópi býðst verkefni þannig að ríkið hefur ekki einkarétt á þeirra starfskröftum eins og svo oft vill verða varðandi íslenska heilbrigðisþjónustu sem er að mestu ríkisrekin.

Ég kem hérna upp til að fagna þessari tillögu og lýsa yfir stuðningi mínum við hana. Ég tel að full ástæða sé til þess að fylgja henni eftir.