135. löggjafarþing — 13. fundur,  18. okt. 2007.

efling kennslu í heilbrigðisvísindum í Háskólanum á Akureyri.

117. mál
[22:02]
Hlusta

Flm. (Þorvaldur Ingvarsson) (S):

Herra forseti. Ég þakka fyrir jákvæðar umræður um þessa þingsályktunartillögu. Það er ljóst, og hefur komið fram í máli margra hv. þingmanna, að mennt er máttur. Við þessar aðstæður er ljóst að Háskólinn á Akureyri hefur gjörbreytt byggðamálum á Norðurlandi. Byggð í Eyjafirði væri ekki sú sem hún er í dag án þessa ágæta skóla. Menntunarstig hefur án efa aukist á undanförnum árum og sú nýbreytni að taka upp fjarnám víða um land frá skólanum hefur skilað miklum árangri eins og hv. þm. Ásta Möller nefndi áðan.

Ég vek hins vegar athygli á því að í þingsályktunartillögunni er talað um nýjar leiðir og nýtt nám. Það er ekki bara svo að það vanti hjúkrunarfræðinga og aðra starfsmenn inn á stofnanir. Hugsunin er sú að reyna að fara nýjar leiðir, jafnvel lengra, í fleiri greinar í lífvísindum sem ég held að væri afskaplega gott og gæti verið hollt, t.d. bæði út frá rekstri og samkeppnissjónarmiði á milli háskóla.

Áðan var nefndur skortur á leikskólakennurum í Reykjavík. Því miður, eins og fram kom í máli hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar, virðist þurfa takmarkanir í skólanum hér í Reykjavík. Fyrir norðan er þessu öfugt farið. Þar er enginn skortur á leikskólakennurum og líklegasta skýringin er sú að námið hefur gengið vel og þar eru ekki neinar takmarkanir á plássum í skólann.

Þegar við tölum um menntun almennt verðum við að muna að með þeirri ágætu ráðstöfun sem við stóðum öll að varðandi fæðingarorlof þá þýðir þriggja mánaða aukning á fæðingarorlofi á þessu kjörtímabili þúsund ný störf. Þetta eru þúsund ný störf fyrir ungt fólk sem flestallt hefur sótt sér menntun og til þess að geta lengt fæðingarorlofið verðum við að auka menntun enn frekar miðað við það sem við höfum gert, einfaldlega til að standa undir þeim störfum sem verða til við þessar aðstæður.

Ég vil að lokum þakka fyrir jákvæða umræðu og vonast til að við eflum Háskólann á Akureyri og þá með eflingu heilbrigðisvísindadeildar.