135. löggjafarþing — 14. fundur,  30. okt. 2007.

minnst látins fyrrverandi alþingismanns.

[13:31]
Hlusta

Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Nú verður minnst látins fyrrverandi alþingismanns.

Kristín S. Kvaran, kaupmaður og fyrrverandi alþingismaður, andaðist sunnudaginn 28. október. Hún var 61 árs að aldri.

Kristín S. Kvaran var fædd í Reykjavík 5. janúar 1946. Foreldrar hennar voru hjónin Stefán Guðmundsson innheimtumaður og Guðrún Benediktsdóttir verslunarmaður.

Kristín S. Kvaran stundaði nám í Fósturskóla Íslands 1973–1976 og við Barnevernsakademiet í Ósló veturinn 1977–1978. Hún var forstöðumaður dagvistarheimila hjá Reykjavíkurborg 1976–1977 og 1980–1981 og hjá Hafnarfjarðarbæ 1982–1983. Kennari í hagnýtri uppeldisfræði var hún við Fósturskóla Íslands 1978–1980. Hún stofnaði og gaf út bæjarblað í Garðabæ 1987–1990. Heiti þess var Blaðið okkar og var hún ritstjóri þess. Enn fremur vann hún við ríkissjónvarpið og Stöð 2 að sjónvarpsþáttum um neytendamál og umræðuþáttum á árunum 1988–1990 og leysti auk þess af á fréttastofu. Frá árinu 1990 starfaði hún sem kaupmaður og heildsali til dauðadags.

Kristín S. Kvaran átti sæti í stjórn Fóstrufélags Íslands, síðar Félags íslenskra leikskólakennara, frá 1978 og var formaður þess 1980–1981. Hún var formaður Neytendafélags Reykjavíkur og nágrennis 1986–1988 og sat í stjórn Norræna félagsins í Garðabæ frá 1987, formaður þess 1988–1994. Árið 1999 varð hún formaður í stjórn Sambands Norrænu félaganna en þá var hún formaður Norræna félagsins á Íslandi.

Í alþingiskosningunum 1983 var Kristín S. Kvaran í kjöri í Reykjavík fyrir hið nýstofnaða Bandalag jafnaðarmanna og hlaut kosningu sem landskjörinn alþingismaður. Hún sat á fjórum þingum alls. Í þrjú ár starfaði hún innan Bandalags jafnaðarmanna en þegar þau samtök sameinuðust Alþýðuflokknum kaus hún að ganga til liðs við þingflokk sjálfstæðismanna. Var hún upp frá því stuðningsmaður Sjálfstæðisflokksins og virk í starfi fyrir hann.

Kristín S. Kvaran hafði verslun að aðalstarfi en áhugasvið hennar voru mörg. Hún menntaðist til starfa fyrir börn og lét jafnan málefni þeirra sig miklu varða. Á Alþingi sat hún lengst í menntamálanefnd og félagsmálanefnd. Hún átti lengi þátt í félagsskap um norræna samvinnu og var þar valin til formennsku. Hún reyndist öflugur talsmaður þeirra sjónarmiða sem hún bar fyrir brjósti. Er þingsetu hennar lauk árið 1987 hélt hún áfram afskiptum af þjóðmálum á öðrum vettvangi. Hún var einlæg og heiðarleg í málflutningi og trú þeim málstað sem hún kaus að helga krafta sína.

Ég bið þingheim að minnast Kristínar S. Kvaran með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]