135. löggjafarþing — 14. fundur,  30. okt. 2007.

afstaða heilbrigðisráðherra til áfengisfrumvarpsins.

[13:54]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson flutti mjög skemmtilega ræðu hér áðan um mikilvægi þess að sýna skoðunum hollustu. Þetta er sami þingmaður og flutti hér einhvern tímann þingmál um að leggja Ríkisútvarpið niður. Síðan mætti hann á næsta þingi og talaði fyrir því að Ríkisútvarpið yrði gert að opinberu hlutafélagi og að landsmenn yrðu allir lögþvingaðir til að greiða nefskatt til að fjármagna það. Menn höfðu á þessu skilning því nú væri hann orðinn formaður menntamálanefndar.

Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur að sjálfsögðu frelsi til að hafa þá skoðun að selja eigi áfengi í matvöruverslunum. Hann hefur að sjálfsögðu einnig frelsi til að berjast fyrir þessari hugsjón sinni en hann hefur jafnframt þá skyldu sem hæstv. heilbrigðisráðherra á Íslandi að koma á framfæri sjónarmiðum þeirra stofnana sem undir hann heyra, hvort sem það er Lýðheilsustöð, landlæknisembættið, áfengisvarnaráð eða aðrir aðilar. Hann er líka ábyrgur fyrir því að framfylgja forvarnastefnu ríkisstjórnarinnar. Það er mál þeirra stofnana sem ég vísaði hér til að það frumvarp sem hér um ræðir stríðir gegn þessari stefnu.

Á hitt vil ég síðan leggja áherslu að gefnu tilefni, vegna orða hæstv. ráðherra, að þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa jafnan talað fyrir því að jafnræði sé með landsmönnum hvað varðar aðgengi að verslunum ÁTVR. Við höfum líka talað fyrir því að þar sé á boðstólum fjölbreytt úrval, ekkert síður á fámennum stöðum en í þéttbýli. (Gripið fram í.)

Við höfum hins vegar talað gegn því að markaðsöflunum á Íslandi verði falið það verkefni að koma áfengi niður í landsmenn. (Heilbrrh.: ... betra aðgengi ...) Það er gegn þeirri stefnu sem við höfum talað. Það er furðulegt að hæstv. heilbrigðisráðherra skuli sýna annað eins ábyrgðarleysi í þessu máli og dæmin sanna.