135. löggjafarþing — 14. fundur,  30. okt. 2007.

afstaða heilbrigðisráðherra til áfengisfrumvarpsins.

[13:56]
Hlusta

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mér finnst óþarfi að brigsla fólki um öfgar ef það er ekki sammála í þessu máli því að ég held að mörg sjónarmið takist á í því. Mér finnst líka óþarfi að tala um tækifærismennsku þó að fólk skipti um skoðun. Stundum getur verið stutt mjög góðum rökum að skipta um skoðun.

Ég tel, eftir að hafa kynnt mér þessi mál, að það sem við erum að horfa upp á sé tvímælalaust aukið aðgengi og þar með aukin neysla. Þar dugir að horfa til nágrannalanda. Við getum nefnt Finnland sem dæmi, það var nefnt í umræðunni á dögunum að Finnar fóru þessa leið fyrir nokkrum árum og eru þegar farnir að sjá þess stað í áfengistengd heilbrigðisvandamál í sínu landi.

Við erum að tala um heilbrigðisáætlun sem við ætlum að framfylgja hér, um 5 lítra neyslu af hreinum vínanda á mann en erum langt yfir þeim mörkum nú þegar, hvað þá ef við aukum aðgengi. Í þessum málum skiptir máli að horfa á það, ekki bara út frá sjónarmiðum markaðsaðila, heldur út frá heilbrigðissjónarmiðum. Allar alþjóðlegar tölur sýna að þetta er eitt stærsta heilbrigðisvandamál samtímans og því miður virðast forvarnir ekki skila sama árangri og takmörkun á aðgengi.

Þó að ég telji að það séu ýmis sjónarmið í þessu máli sem megi skoða með og á móti tel ég fyrst og fremst að verið sé að taka áfengi, setja það inn fyrir sviga og breyta því í það sem við köllum venjulega neysluvöru — sem það er ekki, sem það er hreint ekki — og þess sér stað ef við horfum á þau heilbrigðisvandamál og þau félagslegu vandamál (Gripið fram í.) sem hljótast af auknu aðgengi og aukinni neyslu á áfengi.