135. löggjafarþing — 14. fundur,  30. okt. 2007.

hlutdeild sveitarfélaga í skatttekjum.

9. mál
[14:09]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. flutningsmanni Magnúsi Stefánssyni og meðflutningsmönnum hans fyrir að leggja fram þessa tillögu til þingsályktunar hér á Alþingi og segja það að við í þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs munum styðja framgang hennar. Það er margt rétt sem kemur fram í greinargerðinni um fjárhagsmálefni sveitarfélaganna og þess vegna er sjálfsagt að samþykkja þessa tillögu.

Það er hins vegar þannig að það er eins konar eilífðarverkefni að fást við fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga, það er verkefni sem tekur nánast engan enda og virðist á köflum eins og það skipti engu máli hverjir eru við stjórnvölinn hverju sinni. Nú veit ég að hv. 1. flutningsmaður þessarar tillögu, hv. þm. Magnús Stefánsson, þekkir það af eigin raun, hafandi verið félagsmálaráðherra í síðustu ríkisstjórn, að það er eins og það strandi iðulega á fjármagni og fjármálaráðuneyti þegar þessi mál koma til skoðunar og ég hygg að hann hafi upplifað það sem ráðherra sveitarstjórnarmála að það hefur verið erfitt að glíma við fjármálaráðuneytið þegar þessi mál eru annars vegar. Þetta hefur líka komið fram í umræðum í þinginu núna í haust, til að mynda um fjárlög og fjáraukalög þegar málefni sveitarfélaganna hefur borið á góma.

Sveitarfélögin hafa sannarlega tekið við margs konar verkefnum á undanförnum árum, stundum hefur verið samið sérstaklega milli ríkis og sveitarfélaga um tekjustofna sem þeim ættu að fylgja, en í öðrum tilvikum hefur það ekki verið gert heldur hefur verkefnum verið velt yfir á sveitarfélögin og engir tekjustofnar hafa fylgt þar sérstaklega með.

Þá hafa breytingar á skattaumhverfi leitt til tekjusamdráttar hjá sveitarfélögum en tekjuauka hjá ríkinu. Þannig hefur t.d. sú breyting sem orðið hefur á samsetningu skatttekna með því að æ fleiri greiða einungis fjármagnstekjuskatt, leitt til þess að ríkið hefur fengið meiri skatttekjur í sinn hlut en sveitarfélögin tapað á þeim skiptum. Það eru því margar ástæður fyrir því að það er eðlilegt að taka þessi mál til umfjöllunar, fyrir utan réttlætismálið í því að þeir sem einungis greiða fjármagnstekjuskatt borgi líka eitthvað til þess samfélags sem þeir búa í, þeir taki líka þátt í því að borga kostnað við grunnskólana, leikskólana, gangstéttarnar og menningar- og æskulýðsstarfið sem sveitarfélögin sinna. Það eru því margs konar rök í mínum huga fyrir því að tekjumál og tekjuskipting ríkis og sveitarfélaga sé tekin til umfjöllunar.

Það hefur líka verið mikið áhugamál á undanförnum árum, ég held hjá öllum stjórnmálaflokkum og hjá sveitarstjórnarfólki, að fjölga verkefnum sveitarfélaganna, færa verkefni frá ríki til sveitarfélaganna og renna þannig styrkari stoðum undir sveitarstjórnarstigið í landinu. Því miður hafa þær viðræður sem á undanförnum árum hafa farið fram, m.a. um málefni fatlaðra, strandað á því að það hefur ekki náðst samkomulag um flutning tekjustofna. Það er auðvitað bagalegt ef almennur vilji er til þess að styrkja sveitarstjórnarstigið en það er ekki hægt að ná því fram vegna þess að ríkið vill ekki leggja nægilegt fjármagn inn í það verkefni.

Sömuleiðis hafa sveitarfélögin oftlega nefnt það í samskiptum sínum við ríkið þegar um verkefnaflutning er að ræða að það ætti að hafa inni samkomulag ríkis og sveitarfélaga eða að hafa í löggjöfinni einhvers konar endurskoðunarákvæði á þeim tekjustofnum sem fluttir eru þannig að eftir einhvern tiltekinn tíma, þrjú, fimm eða sjö ár sé hægt að meta árangurinn af verkefnatilfærslu og meta hvort verkefnið eða þeir tekjustofnar sem fylgdu hafi staðið undir þeim verkefnum þegar reynslan er metin. Ríkið hefur litið svo á að ómögulegt sé að vera með slík endurskoðunarákvæði inni, það hefur verið algjört eitur í beinum ríkisvaldsins. En þarna held ég að menn verði að vera reiðubúnir til þess að skoða málin eftir á. Ég held t.d. að það sé almennt reynsla sveitarstjórnarstigsins að þó að vel hafi tekist til með flutning grunnskólans frá ríki til sveitarfélaga árið 1996 þá komi það skýrt fram í öllum hagtölum og skoðunum að kostnaður sveitarfélaganna við rekstur grunnskólans hefur orðið mun meiri en þeir tekjustofnar sem fluttir voru frá ríkinu. Sumt af því hafa reyndar verið ákvarðanir sem sveitarfélögin hafa algjörlega tekið sjálf og á eigin forsendum og ekkert nema gott um það að segja að þau taki slíkar ákvarðanir og sannarlega hefur grunnskólinn eflst við þetta, en engu að síður er þarna um að ræða frekari verkefni, frekari útgjöld sem sveitarfélögin mörg hver eiga í miklu basli með að standa undir.

Í þessu samhengi þarf líka að ræða það hvort vilji sé til þess að auka svigrúm sveitarfélaganna til skattheimtu. Í sumum löndum er því þannig farið að skattheimtuvaldið, þ.e. ákvörðun útsvars, er alfarið í höndum sveitarfélaganna og ekkert hámark í því eins og hér gildir, t.d. er ekkert hámark á útsvarinu í Danmörku, ef ég hef skilið það rétt, og sveitarfélögin geta sjálf tekið ákvörðun um hvað það er. Við þurfum að ræða það hvort þetta er leið sem við mundum vilja fara, þ.e. hvort við viljum gefa sveitarfélögunum meira sjálfdæmi og um leið færa þeim fleiri verkefni, meira vald, og treysta þeim fyrir ákvörðunum, t.d. um skattheimtu. Í dag höfum við ákveðið bil sem sveitarfélögin geta unnið innan og ákveðið hvar á því bili þau vilja vera og það er eðlilegt að spyrja sig að því: Af hverju þarf að setja einhvern ákveðinn ramma, af hverju geta sveitarfélögin ekki tekið þessa ákvörðun sjálf? Sveitarfélögin og sveitarstjórnirnar eru kosnar lýðræðislegum kosningum af íbúunum og standa að sjálfsögðu skil á því sem þær ákveða gagnvart þeim.

Þannig má líka taka fyrir fleiri skattstofna eins og fasteignaskattinn, hlutdeild í tekjuskatti fyrirtækja, jafnvel virðisaukaskattinn, en þegar upp er staðið er það kannski ekki endilega heitið á skattstofninum sem skiptir máli heldur heildartekjurnar og hvernig þær standa undir þeim verkefnum sem sveitarfélögin eiga að sinna sem skiptir mestu máli. Hugmyndir hafa líka heyrst um að í staðinn fyrir að fá sveitarfélögunum fleiri tekjustofna eins og hlutdeild í fjármagnstekjuskatti, virðisaukaskatti eða tekjuskatti fyrirtækja þá ætti kannski bara að setja allan tekjuskatt einstaklinga yfir á sveitarfélögin sem væri þá tekjustofn sveitarfélaganna og ríkið væri með aðra tekjustofna. Það er leið sem að mínu viti má alveg skoða þó að ég sé almennt þeirrar skoðunar að hagkvæmara sé fyrir opinbera aðila að vera með breiðan skattstofn, ekki of einhæfan skattstofn, ekki öll eggin í sömu körfu, það er svona almennt mitt viðhorf í þeim málum.

Virðulegur forseti. Ég tel sjálfsagt að samþykkja þessa tillögu og það er brýnt að ríkisvaldið sýni í verki vilja til þess að efla tekjustofna sveitarfélaga. Það er mjög mikilvægt að slík skilaboð komi úr herbúðum stjórnarliða því annars er tímasóun að efna til slíkra viðræðna um breytta verkaskiptingu.