135. löggjafarþing — 14. fundur,  30. okt. 2007.

hlutdeild sveitarfélaga í skatttekjum.

9. mál
[14:33]
Hlusta

Ármann Kr. Ólafsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson segir: Er ekki í lagi að sveitarfélögin njóti þess ef vel gengur? Auðvitað er það í lagi. Það er margsinnis búið að tala um þessa sérstöku tekjustofna og það er eins og sitt sýnist hverjum í því, a.m.k. telur ríkið að það hafi tryggt sveitarfélögunum þá tekjustofna sem þau áttu að fá þegar verkefni grunnskólans voru flutt yfir.

Það gengur upp og niður hjá sveitarfélögunum, segir hv. þingmaður. Það er rétt. En það gengur þá vissulega líka upp og niður hjá ríkinu. Sennilega helst það yfirleitt í hendur að þegar vel gengur hjá ríkinu gengur vel hjá sveitarfélögunum og öfugt.

Þess vegna er ég ekkert endilega viss um að fjármagnstekjuskattur og útdeiling á honum sé rétta leiðin. Hv. þingmaður kom í lok ræðu sinnar inn á það hvort ekki ætti þá að horfa til einhverra ákveðinna styrkja til verst settu sveitarfélaganna og ég held að það hljóti að nýtast þeim betur, þ.e. ef sveitarfélögin hafa einhvern fastan punkt í þeim tekjum sem þau fá. Annars gætu tekjurnar farið að sveiflast í takt við þennan blessaða fjármagnstekjuskatt og sveitarfélögin gætu fengið eitt árið mjög lítið inn í rekstur sinn og annað árið mikið inn í hann og sennilega alltaf í öfugu hlutfalli við það sem æskilegt væri.