135. löggjafarþing — 14. fundur,  30. okt. 2007.

hlutdeild sveitarfélaga í skatttekjum.

9. mál
[14:37]
Hlusta

Ármann Kr. Ólafsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það sem ég vildi bara segja örstutt um þetta varðandi síðustu ræðu hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar er að þegar verkefnin eru flutt á milli, eins og grunnskólinn á sínum tíma, telja menn að tekjustofnarnir séu tryggðir. Síðan voru þeir endurskoðaðir og því hefur verið breytt og menn töldu að menn væru búnir að ná sátt í þeim efnum. En auðvitað breytist tíðarandinn. Þess vegna getur þetta á einhverjum tímapunkti orðið dýrara en menn lögðu upp með.

Það breytist líka svo margt annað. Þau er t.d. mjög óvænt fyrir sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, öll þau fasteignagjöld sem þau hafa fengið inn í rekstur sinn. Gríðarlegar upphæðir. Þetta er alveg nýtt, mjög óvænt, en ekkert slæmt við það. Þær tekjur hafa síðan farið í að byggja upp annað, eins og t.d. grunnskólana. Það er alveg á hreinu að menn geta líka fengið inn mjög óvæntar tekjur. Þetta getur aldrei verið alveg A, B og C enda sýnir það sig að fjárhagsáætlanir standa misvel hjá sveitarfélögunum.

Varðandi auknar skuldir sveitarfélaganna verð ég segja, og mér finnst alveg ástæða til að draga það fram hér, að það er svolítið sérkennilegt að eiginlega öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, ef ekki öll, eru búin að minnka skuldir sínar — nema eitt og það er stærsta sveitarfélagið. Það er mjög misjafnt hvernig menn spila úr sínu, það er alveg greinilegt.