135. löggjafarþing — 14. fundur,  30. okt. 2007.

hlutdeild sveitarfélaga í skatttekjum.

9. mál
[14:39]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Þetta er áhugavert viðfangsefni sem hér er dregið upp í þingmálinu um hlutdeild sveitarfélaga í innheimtum skatttekjum. Á því eru auðvitað ýmsir fletir, aðrir en þeir sem tillagan fjallar beinlínis um.

Ég held t.d. að það þurfi líka að velta fyrir sér hver staða sveitarfélaganna eigi að vera í stjórnsýslunni. Hún er að formi til með sama hætti og löggjafarþingið, þ.e. það eru kosnir fulltrúar til að stjórna málum í sveitarfélögunum þannig að þeir hafa sama umboð til sinna verka og alþingismenn hafa til löggjafarstarfsins. Það hefur verið lögð mikil áhersla á sjálfstæði sveitarfélaga í sínum málum, einmitt til að undirstrika þessa stöðu sveitarstjórnarstigsins.

Þá held ég að menn þurfi líka að fylgja málinu eftir. Mér finnst að á síðustu árum, eiginlega á síðustu 15 árum, hafi þróunin verið alveg í þveröfuga átt. Hún hefur verið í þá átt að draga úr sjálfstæði sveitarfélaga í gegnum skort á tekjustofnum og í gegnum mikil afskipti ríkisvaldsins af verkefnum sem sveitarfélögin hafa með hendi.

Bara sú staða að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga hefur margfaldast að umfangi á þessum tíma undirstrikar að sveitarfélögin búa ekki við tekjustofnalöggjöf sem endurspeglar þau verkefni sem þeim eru falin. Þess vegna hefur verið farin sú leið að búa til jöfnunarsjóð, dæla peningum inn í hann, deila síðan út úr honum meira og minna eftir óljósum reglum samkvæmt löggjöfinni og eftir ákvörðunum ráðherra og valins hóps sveitarstjórnarmanna sem hafa mjög óljóst umboð kjósenda til þeirra verka. Þeir eru ekki kosnir til þess að hræra í jöfnunarpottinum og skipta peningum á milli sveitarfélaga, þeir sveitarstjórnarmenn sem sitja við þann kjötketil.

Mér hefur alltaf fundist þetta mjög óeðlilegt og þegar var farið inn á þessa braut fyrir 15 árum talaði ég gegn því hér í þinginu. Þetta hófst með löggjöfinni um flutning á grunnskólanum til sveitarfélaga sem endurspeglaði það að sveitarfélögin voru svo misjafnlega í stakk búin til að leysa verkefnin að mörg þeirra gátu það ekki af eigin tekjum. Í stað þess að breyta löggjöfinni um tekjustofnana þannig að hún endurspeglaði það sem menn ætluðu sveitarfélögunum að gera var búinn til þessi jöfnunarsjóður.

Þá er dregið úr sjálfstæði sveitarfélaganna. Sum sveitarfélög eru með allt að fjórðung af tekjum sínum í gegnum jöfnunarsjóð sem getur síðan breyst í ákvörðunum sem ekki eru teknar á Alþingi. Staða sveitarfélaga til að sinna verkefnum sínum er mjög háð ákvörðunum stjórnar jöfnunarsjóðsins. Þetta er ekki til marks um sjálfstæði sveitarfélaganna. Þetta er til marks um ósjálfstæði þeirra. Umræðan hefur á þessum tíma líka þróast hjá sveitarstjórnarmönnum frá því að tala eins og fullmektugir sjálfstæðir kosnir fulltrúar almennings yfir í það að vera einhvers konar verktakar hjá ríkissjóði sem hafa litið á það sem sitt hlutverk fyrst og fremst að kvarta yfir afskiptum ríkisvaldsins af verkefnum sínum og skorti á löggjöf um rétta tekjustofna. Það er mjög hættuleg þróun þegar sveitarstjórnarmenn fara að líta á sig sem einhvers konar verktaka. Ef það festist í sessi hverfur þörfin fyrir kjörna sveitarstjórnarmenn. Það þarf ekkert að kjósa menn til þess að framkvæma verkefni sem ríkið ræður algjörlega hvernig á að vera leyst af hendi og skaffar tekjurnar til. Þá eru bara ráðnir einhverjir hf.-verktakar í það verkefni. Það þarf ekkert að halda sveitarstjórnarkosningar utan um slíkt.

Þess vegna held ég að menn eigi að fara að beina sjónum að stöðu sveitarfélaganna og láta löggjöfina endurspegla þá kröfu sveitarstjórnarmanna að sveitarstjórnarstigið sé sjálfstætt stjórnsýslustig. Þá þarf tekjulöggjöfin að endurspegla það þannig að hvert sveitarfélag fái sínar tekjur beint af gjaldendum, hvort sem það eru gjaldendur í eigin sveitarfélagi eða gjaldendur um land allt með hlutdeild í almennum tekjustofni sem lagður er á alla landsmenn. Það á ekki að fara með skatttekjurnar í gegnum einhverja sjóði, jöfnunarsjóði eða slíkt, heldur ákvarða í löggjöfinni beina leið frá greiðandanum til sveitarfélagsins sem á síðan að vinna úr því sem það hefur.

Mér hefur fundist bera á því meðal sveitarstjórnarmanna að þeir vilji svolítið firra sig ábyrgð á því að sinna verkefnum sínum. Þeir treysta sér t.d. ekki til að annast kjarasamninga við starfsmenn skólanna. Kjarasamningar við kennara eru ekki á vettvangi hvers og eins sveitarfélags, heldur hafa þau sameinast um að ýta því yfir á sameiginlega launanefnd og falið þeirri launanefnd fullnaðarumboð til að gera samninga vegna þess að þau treysta sér ekki til þess hvert og eitt að semja við starfsmenn sína. Það er mikill veikleiki hjá sveitarstjórnarstiginu ef það getur ekki annast kjarasamninga við þá starfsmenn sem það ræður til starfa til að sinna þeim verkefnum sem á að sinna.

Það hefur verið dálítil tilhneiging til þess hjá einstaka sveitarstjórnarmönnum að varpa ábyrgðinni á ríkissjóð. Ef ekki er hægt að mæta kröfum eða þörfum á einhverju tilteknu sviði er því borið við að það skorti á hjá ríkinu að skaffa nægilega tekjustofna. Það getur stundum átt við rök að styðjast eins og gengur en það getur ekki verið algild afsökun sveitarstjórnarmanna og undanskot gagnvart því að mæta kjósendum sínum á heimavelli og svara þeim af hverju menn taka þær ákvarðanir sem þeir taka. Sveitarstjórnarmenn verða svolítið að fara að axla ábyrgð á því í ríkari mæli sem þeir eru að gera og draga úr því að afsaka sig með því að þeir hafi ekki næga tekjustofna. Það getur aldrei verið þannig að sveitarfélag eða einhver annar fái alltaf allar þær tekjur sem þau þurfa á hverjum tíma. Það er bara aldrei þannig. Menn þurfa alltaf að skipta því sem þeir hafa undir höndum á milli of margra verkefna og það er alltaf eitthvað sem gengur af. Það verður alltaf þannig og getur aldrei orðið öðruvísi hvernig sem við högum tekjustofnalöggjöfinni.

En það er betra að hafa hana þannig að sveitarfélögin séu sjálfstæð í þeim skilningi að þau hafi eigin tekjustofna og geti gengið að þeim tryggum. Þar með er málinu lokið gagnvart ríkisvaldinu. Þau verða þá sjálf að vinna úr því og svara umbjóðendum sínum fyrir sín verk. Þannig held ég að þetta verði að vera. Það er svo sjálfstætt mál sem þessi tillaga tekur ekki á hvernig tekjustofnarnir eiga að vera. Það finnst mér aðalatriðið og þá spurningu er ekki hægt að útkljá í viðræðum við Samband íslenskra sveitarfélaga. Svo mikið er víst.