135. löggjafarþing — 14. fundur,  30. okt. 2007.

hlutdeild sveitarfélaga í skatttekjum.

9. mál
[14:47]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf):

Frú forseti. Hér er á dagskrá tiltölulega einföld tillaga. Ég ætla að leyfa mér að rifja hana upp í upphafi máls míns. Þetta er tillaga til þingsályktunar og hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að taka hið fyrsta upp viðræður við Samband íslenskra sveitarfélaga um aukna hlutdeild sveitarfélaganna í innheimtum skatttekjum.“

Í raun og veru er þetta svo eðlilegt og sjálfsagt mál að maður spyr sjálfan sig hvort ástæða sé til að flytja sérstaka þingsályktunartillögu á hinu háa Alþingi. Auðvitað ættu stjórnvöld að finna það upp hjá sjálfum sér að hefja slíkar viðræður. Til þess eru bæði margvísleg tilefni og rök, og breytingar hafa átt sér stað í þjóðfélaginu sem kalla á endurskoðun á skiptingu skatttekna.

Ég hef kvatt mér hljóðs til þess að það heyrist rödd úr mínum ágæta flokki Samfylkingunni til að láta í ljósi þá skoðun. Þótt ég tali kannski ekki endilega fyrir munn alls flokksins er ég þeirrar skoðunar að þetta sé sjálfsagt mál og tillaga sem er góðra gjalda verð og sjálfsagt að skoða. Við erum væntanlega næstum því flest sammála um að það sé tímabært að sveitarfélögin taki að sér fleiri verkefni, að samfélagsleg verkefni séu færð frá hinu opinbera, frá ríkinu, til sveitarfélaganna og þá fyrst og fremst að því sem snýr að allri nærþjónustu. Reynslan hefur sýnt að það er farsælast í þágu borgaranna og skattgreiðenda. Ég get ímyndað mér að þessi tillaga sé flutt vegna þeirra hugmynda sem uppi hafa verið um að láta hluta af fjármagnstekjuskatti renna til sveitarfélaganna. Þetta hefur líka borið á góma í þessum umræðum og margt fróðlegt og athyglisvert sagt um það. Ég er eindregið þeirrar skoðunar að það sé sanngjörn tillaga og sjálfsagt mál að hluti af fjármagnstekjuskatti renni til þeirra verkefna og til sveitarfélaganna eftir atvikum.

Fjármagnstekjuskattur hefur vaxið verulega á undanförnum árum og er ljóst að hann mun vaxa áfram. Þetta eru þær einustu skattgreiðslur sem fjöldinn allur af fólki greiðir og eins og hér hefur verið sagt í umræðunni er eðlilegt að hver borgari leggi sitt af mörkum til þeirrar þjónustu sem hann fær hjá sínu sveitarfélagi. Það er ekki nema eðlilegt að sveitarfélög renni hýru auga til fjármagnstekjuskattsins og ætlist til þess að fá hluta af þeirri köku. Þau rök hafa verið borin fram að það geti verið viðsjárvert að skipta þeim hluta af fjármagnstekjuskattinum sem mundi ganga til sveitarfélaganna í samræmi við stærð og umsvif sveitarfélaganna vegna þess að þau efnuðustu fái þá mest. Ég held að það sé í sjálfu sér verkefni sem menn þurfi að leysa að því leyti að það er enginn vandi. Það er eins og sagt er bara aðferðafræði um hvernig eigi að skipta þessum peningum þannig að sem flestir geti fallist á það.

Ég veit ekki hver örlög þessarar tillögu verða en efnislega er ég henni sammála og tel þetta vera sjálfsagt mál.