135. löggjafarþing — 14. fundur,  30. okt. 2007.

hreyfiseðlar í heilbrigðiskerfinu.

32. mál
[15:10]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna svo sannarlega því máli sem hér er lagt fram af hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur. Gerðar hafa verið tilraunir á einstaka stöðum með slíka hreyfiseðla og ég tel að verði þeir að veruleika séum við komin með nýjan og mjög öflugan þátt inn í heilbrigðisþjónustuna til að bæta heilsu landans. Það er staðreynd, eins og hv þingmaður rakti ágætlega, að lífsstílssjúkdómar eru að aukast allverulega í samfélaginu og þeir eru þess eðlis að svona hreyfiseðlar ættu að geta tekið á þeim að mjög miklu leyti og í mörgum tilfellum alfarið.

Í tengslum við þetta mál langar mig að segja þinginu frá því að fyrir ári síðan varð ég þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að ávarpa ráðstefnu SÍBS á Hótel Sögu sem bar yfirskriftina Hreyfing – lykill að lengra og betra lífi. Ég sat ráðstefnuna og þar kom margt mjög áhugavert fram. Þarna var heilbrigðisstarfsfólk að fara yfir bæði rannsóknir og þekkingu sína og sýn á það hvernig hreyfing getur breytt lífi og hefur breytt lífi margra sjúklinga sem þetta heilbrigðisstarfsfólk hefur verið að meðhöndla. Það sem stóð upp úr að mínu mati var rannsókn sem gerð hafði verið á hópum eldri borgara þar sem einn hópurinn hafði verið settur í gönguferðir, mjög markvissar, og annar ekki og á þeim var mjög mælanlegur munur þegar rannsókninni var lokið, svo ég nefni eitt dæmi. Þarna var líka skýrt frá rannsóknum á fólki með langvinna lungnateppu og þær leiddu í ljós að þótt hreyfing bætti lítið öndunargetu þess bætti hún verulega nýtingu þess súrefnis sem innbyrt var og var þannig mjög til góðs og bætti lífsgæði þessa fólks allverulega.

Virðulegi forseti. Ég nefni þetta vegna þess að mér finnst þetta eiga erindi hingað inn af því að rauði þráðurinn í gegnum þessi ráðstefna alla var í rauninni sá að hreyfing skipti verulegu máli ef ekki öllu máli í því að ná bata og auka lífsgæði fólks sem var hrjáð af hinum ýmsu sjúkdómum. Á þessari ráðstefnu var einnig fjallað um þessa hreyfiseðla. Auður Ólafsdóttir sjúkraþjálfari fjallaði um þá og fór mjög vel yfir hlutverk þeirra og ekki var annað á fólki á þessari ráðstefnu að heyra en það teldi hreyfiseðlana mjög mikilvæga viðbót inn í heilbrigðisþjónustu okkar. Því veit ég að þessu máli yrði mjög fagnað ef þetta yrði að raunverulegum valkosti hér á landi.

Þá finnst mér áhugavert að lesa í greinargerð þessarar þingsályktunartillögu um bandarísku rannsóknina, þ.e. í kaflanum Reynsla annarra þjóða , þar sem eldra fólki með stoðkerfisvandamál var boðið upp á vatnsleikfimi í stað liðskiptaaðgerðar. Slíkar sögur hefur maður verið að heyra, þ.e. að fólk sem bíður eftir því að fara í liðskiptaaðgerðir, mjaðmaaðgerðir eða hnéaðgerðir, hefur fengið þannig bata með breyttu matarræði og aukinni hreyfingu að það hefur ekki þurft á þessum aðgerðum að halda. Af niðurstöðum þessara rannsókna að dæma og sögum þess eðlis finnst mér svo sannarlega til mikils reynandi að fara slíkar leiðir fyrir þetta fólk vegna þess, eins og kom fram í máli hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur, að aðgerðir eru mikið inngrip, ég tala nú ekki um þegar fólk er komið á efri ár.

Mér þykir mataræði líka mjög mikilvægt í þessum efnum, og það er aðeins nefnt í greinargerðinni, vegna þess að við vitum að eitt af því sem kveikir lífsstílssjúkdóma eins og æðasjúkdóma og sömuleiðis ýmis stoðkerfisvandamál er matarræðið og því tel ég að það þurfi líka að koma með kröftugum hætti þarna inn. Það sem gerist ef fólk fær ráðgjöf um matarræði er að það verður líka meðvitaðra um það og við viljum náttúrlega að þeir sem þurfa að leita eftir þjónustu heilbrigðiskerfisins séu virkir gerendur í sínum bata, séu meðvitaðir um líkama sinn og líðan. Það er miklu auðveldra að meðhöndla slíka sjúklinga en þá sem koma bara og horfa á lækninn sinn og bíða eftir að hann rétti þeim lyfin eða segi þeim til að öðru leyti. Ég tel að ráðgjöf um matarræði og ráðgjöf um hreyfingu geti skipt sköpum í því að skapa þannig viðhorf hjá sjúklingum að þeir geti orðið virkir gerendur í sínum eigin bata sem er yfirleitt lykilatriði.

Virðulegi forseti. Við eigum frábært starfsfólk í heilbrigðisgeiranum. Ég er líka á því að við eigum að skoða fleiri leiðir í þessum efnum og þá kannski óhefðbundnari leiðir en það er kannski seinni tíma mál. Ég held að með því að kveikja áhuga hjá fólki á hinum ýmsu leiðum, það er mismunandi hvaða leiðir henta fólki, þá náum við því markmiði að gera fólk og sjúklinga að virkum gerendum í sínum eigin bata. Eins og ég sagði eigum við mikið af góðu starfsfólki og ég sé í raun og veru fátt því til fyrirstöðu að hrinda þessu máli í framkvæmd, það er allt sem mælir með því að það verði að veruleika og þá vonandi hið allra fyrsta.