135. löggjafarþing — 14. fundur,  30. okt. 2007.

hreyfiseðlar í heilbrigðiskerfinu.

32. mál
[15:17]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf):

Herra forseti. Ég tel mér bæði ljúft og skylt að kveðja mér hljóðs undir þessum dagskrárlið til að tjá mig um þessa tillögu og ágæti hennar að innihaldi og tilgangi. Ég leyfi mér jafnframt að þakka sérstaklega þrautseigju flutningsmanns fyrir að flytja þetta mál enn og aftur og nú í fjórða skipti, enda á það vissulega erindi inn á hið háa Alþingi.

Ég vil taka undir þá hugmynd sem þarna er sett fram. Hún er að mínu viti ákaflega snjöll og gagnleg og hefur eins og kom fram í ræðu framsögumanns reynst vel þar sem hún hefur verið reynd. Ég vil hins vegar aðeins gera þá athugasemd, sem er á jákvæðum nótum, að fólk talar gjarnan um þessa hreyfiseðla sem aðgerð í lækningum til að fólk geti náð bata aftur og það er iðulega vísað til þess að þetta sé gott fyrir gamalmenni og sjúklinga eftir atvikum. En auðvitað er hitt atriðið ekki síðra, að fólk temji sér hreyfingu strax á unga aldri þannig að það geti haldið góðri heilsu sem allra lengst. Að því leyti er hreyfing auðvitað oftast nær lækning við offitu. Það er getið um það í greinargerð með tillögunni að hreyfing sé nauðsynleg fyrir þá sem eru orðnir of feitir og þarf ekki mikla spekinga til að komast að þeirri niðurstöðu, en hreyfing á náttúrlega almennt við fyrir öll líffæri hvort heldur það eru æðar, hjarta, lungu eða bein. Það hafa vísindin, læknisfræðin, sannað og sýnt fram á og ég á ekki að þurfa að segja það hér en minnist á þetta vegna þess að hreyfingin hefur tvíþætt gildi, bæði að viðhalda góðri heilsu og til að ná bata þegar heilsufarið versnar.

Mér finnst að heilbrigðisráðuneytið og hæstv. heilbrigðisráðherra ætti í raun og veru að hafa forgang um að taka þetta mál upp í kerfinu. Ég get upplýst það hér til gamans og fróðleiks að þegar ég gegndi starfi forseta Íþrótta- og ólympíusambands Íslands gekk ég á fund þáverandi heilbrigðisráðherra í krafti míns embættis og með þá hugmynd sem ég vildi gjarnan selja honum að bjóða fram starfskrafta allrar íþróttahreyfingarinnar til að koma af stað heljarmikilli útrás í þeim anda að fá sem flesta til að hreyfa sig. Íþróttahreyfingin, sem telur tugi þúsunda sjálfboðaliða og áhugamanna, er net sem nær um allt land og auðvelt að ná til hennar með skipulegum hætti og tilboð mitt var það að heilbrigðisyfirvöld í landinu nýttu sér þessa hreyfingu, gegn hóflegu gjaldi auðvitað, til að koma fólki af stað í hvers konar hreyfingu, ekki endilega til að keppa og allra síst til að keppa í íþróttum heldur til að hreyfa sig a.m.k. einu sinni á dag í allt að klukkutíma. Það væri fyrsta skrefið. Því miður hefur þessi hugmynd ekki enn orðið að veruleika, mér hefur ekki tekist að selja hana enn þá, en vonandi líst hæstv. heilbrigðisráðherra á þessa tillögu og kíkir kannski á þetta vegna þess að ég held að það sé gífurlegur sparnaður fyrir kerfið þegar til lengri tíma er litið að almenningur sé sem heilsuhraustastur frá unga aldri og sem lengst af ævi sinnar. Því miður er það svo að heilbrigðiskerfið er yfirleitt að byrgja brunninn eftir að börnin eru dottin ofan í. Það er verið að kosta miklu til í lækningar og endurhæfingu og alls kyns aðra þjónustu fyrir fólk sem er að reyna að ná bata aftur. Þetta snýst ekki síst um forvarnir og að þjóðin geti tileinkað sér þann hugsunarhátt og þau lífsgæði og þann lífsstíl að hreyfing sé hluti af hinu daglega amstri. Amstrið breytist þá í gleði og ánægju, það get ég fullvissað ykkur öll um.

Ég geri mér vonir um að þessi tillaga nái fram að ganga á þessu þingi og ég held að það sé mál til komið.