135. löggjafarþing — 14. fundur,  30. okt. 2007.

hreyfiseðlar í heilbrigðiskerfinu.

32. mál
[15:22]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um hreyfiseðla í heilbrigðiskerfinu og ég vil byrja á að segja að ég tek eindregið undir tillöguna. Ég tel að við stöndum frammi fyrir mikilli vá sem er vaxandi þyngd fólks, það á ekki bara við hér á landi, það virðist vera svo um allan heim, sem stafar bæði af óhollu matarræði en alveg sérstaklega held ég að það stafi af hreyfingarleysi og það á við fleiri.

Það sem mætti kannski gera athugasemdir við, eins og stendur reyndar í greinargerðinni, er að þessir seðlar ættu að vera bæði ráðgjafar- og hreyfiseðlar undir nafninu hreyfiseðlar. Það þarf líka að ráðleggja fólki að breyta um lífsstíl.

Mér finnst oft, herra forseti, að heilbrigðisstéttir og heilbrigðiskerfið bregðist ekki við hlutum beint af augum, finni ekki náttúrulegustu lausnina. Sem dæmi má nefna að fólk sem reykir, er með lungnateppu eða eitthvað slíkt, fær alls konar lyf en það sem er beint af augum er náttúrlega að hætta að reykja. Þeir sem eru of þungir fara jafnvel í uppskurði sem eru stórhættulegir og kosta óhemjufé í staðinn fyrir að fara beint af augum sem er bara breytt matarræði og hreyfing og yrði sennilega að byrja á mataræðinu fyrst því að fólkið er oft og tíðum of feitt til að hreyfa sig. Ég ætla ekki að nefna það hve lífsstaða slíks fólks breytist við að losna við offituna og fara að geta hreyft sig.

Auðvitað á að benda slíku fólki, bæði reykingamönnum og offitusjúklingum, á hreyfingu og lausnir sem eru beint af augum. Það sem mælir gegn því er oft og tíðum að viljinn er veikur, þetta er eins konar fíkn, bæði reykingar og ofát eru oft og tíðum fíkn. (Gripið fram í: Hreyfing líka.) Hreyfing getur reyndar orðið fíkn líka en ég mundi ekki segja að hún væri mjög skaðleg, ég held að hún sé ekki mjög skaðleg nema hún gangi út í öfgar sem stundum gerist. En fíknin er ákveðið vandamál sem mér finnst ekki hafa verið tekið á. Mér finnst að hv. þingmenn — það er varla að ég þori að segja það — ættu að hugleiða það, og orða ég það mjög varlega, að fólk geti sjálft afsalað sér forræði í ákveðinn tíma, kannski í hálft ár eða eitt ár eftir atvikum, þannig að það ákveði sjálft að tekin séu af því völdin, því að það sem maður upplifir t.d. í endurhæfingu fíkla er að þeir ganga bara út, þeir geta gengið út hvenær sem er og ekkert stöðvar þá þegar fíknin er orðin mikil, viljinn er horfinn og löngunin svo mikil.

Þegar viljinn er horfinn verðum við að skoða aðrar lausnir, bæði varðandi matarfíkn, spilafíkn, eiturlyfjafíkn og áfengisfíkn. Þegar viljinn er horfinn þarf Alþingi að veita mönnum þá aðstoð að þeir geti afsalað sér sjálfræðinu sjálfir ef þeir óska þess á þeirri stundu sem skynsemin kemur yfir þá og þá til einhvers tíma, auðvitað alls ekki endalaust, kannski eftir því hvað meðferðin tekur langan tíma, hálft ár, eitt ár o.s.frv. Þetta held ég að menn ættu að skoða.

Ég er mjög hlynntur þessari þingsályktunartillögu um hreyfiseðla og legg til að það verði loksins samþykkt einhver tillaga frá venjulegum þingmanni.