135. löggjafarþing — 14. fundur,  30. okt. 2007.

iðnaðarmálagjald.

11. mál
[15:52]
Hlusta

Flm. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég man ekki eftir að hafa talað neitt um lýðræði í verkalýðshreyfingunni í þetta skipti. Ég hef reyndar oft gert það en ekki núna. Það er tilefni til að tala um það oftar.

Verkalýðshreyfingin og verkalýðsfélög voru afskaplega þarfar stofnanir á sínum tíma þegar þau sköpuðu launafólki mikil réttindi. Hins vegar held ég að þau hafi einmitt, eins og hv. þingmaður nefndi, stofnanagerst. Núna þarf verkalýðurinn að standa uppi í hárinu á verkalýðshreyfingunni til að öðlast rétt. Mér sýnist að prófessorar við háskólana á Íslandi, sem ekki lengur heyra undir Kjaradóm, vilji stofna stéttarfélög en megi ekki, þ.e. ríkið neiti að semja við þá. Þeim er gert að borga, væntanlega til einhvers stéttarfélags sem opinberir starfsmenn. Í þessu samhengi þarf að horfa til ýmissa þátta.

Svo nefndi ég í ræðu minni, ég veit ekki hvort hv. þingmaður heyrði það, að Mannréttindadómstóll Evrópu er nýbúinn, þann 15. október, að ákveða að taka iðnaðarmálagjaldið til skoðunar. Það eru nokkur tíðindi því að þetta er jú Mannréttindadómstóll Evrópu.