135. löggjafarþing — 14. fundur,  30. okt. 2007.

iðnaðarmálagjald.

11. mál
[15:54]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef kannski orðað hugsun mína óljóst. Ég skildi það ekki svo að hv. þm. Pétur H. Blöndal hefði verið að tala um lýðræði í verkalýðshreyfingunni heldur um lýðræðið og verkalýðshreyfinguna, um rétt einstaklings og hópa til að mynda félög og þær lagalegu takmarkanir sem fólki væru settar. Þannig skildi ég hv. þingmann enda vék hann að prófessorum sem vildu gjarnan mynda félag, stéttarfélag, en ríkið neitaði að semja við þá. Þetta kemur mér reyndar svolítið spánskt fyrir sjónir. Ég hélt að það hefði verið sameiginlegur vilji allra aðila að prófessorar semdu um laun sín og kjör en Kjaradómur kæmi þar ekki að ákvörðunum eins og verið hefur.

Að verkalýðsfélög séu orðin að stofnunum, séu stofnanagerð, hvað eigum við við með því? Jú, á vegum þeirra eru reknar skrifstofur. Á vegum skrifstofa svarar fólk til um réttindi og skyldur fólks. Þegar brotið er á launafólki, að mati stjórna í verkalýðsfélögum eða starfsfólks sem hefur sérhæft sig í þeim efnum, er iðulega leitað til lögfræðinga og málin rekin fyrir dómstólum. Jú, jú, þetta eru leiðir stofnunar. Þetta er stofnanagert ferli í sjálfu sér en það er ekkert athugavert við það og ekkert slæmt við það. Félög sem reka stofnanir af þessu tagi geta eftir sem áður verið lifandi og nærst af lifandi rót. Það held ég að eigi sem betur fer um allflest verkalýðsfélög á Íslandi.