135. löggjafarþing — 14. fundur,  30. okt. 2007.

lögfesting samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.

7. mál
[16:13]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil segja nokkur orð um hið mikilvæga þingmál sem er hér til umræðu, tillögu til þingsályktunar um að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Ég er einn af flutningsmönnum með hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni. Þingmenn Samfylkingarinnar hafa látið sig varða þennan málaflokk og hafa þingmál í þessa veru verið flutt af þeim. Rannveig Guðmundsdóttir, hv. fyrrverandi þingmaður, lagði m.a. nokkrum sinnum fram þingmál í þessa veru. Ég vil leggja sérstaka áherslu á hve mikilvægt það er að barnasáttmálinn verði lögfestur og þarf ekki að tíunda neitt frekar rökin fyrir því. Þau komu vel fram í máli 1. flutningsmanns.

Mig langar samt að minna á og fagna áfanga sem náðist í málefnum barna í vor þegar aðgerðaáætlun til fjögurra ára til að styrkja stöðu barna og ungmenna var samþykkt hér á þinginu og er þetta þingmál í raun í sömu veru. Það þarf að tryggja réttindi barna og á það er bent hér í greinargerðinni að ekki sé hægt að beita barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna með beinum hætti fyrir íslenskum dómstólum vegna þess að hann hefur ekki verið lögfestur. Ýmislegt fleira kallar á að farið verði í þessa vinnu og unnið fljótt. Við leggjum til að þessu verði lokið fyrir 20. nóvember 2008. Til þess að svo megi verða þarf að afgreiða málið fljótt og vel.

Undanfarið hefur það ítrekað komið fram í fréttum að víða er pottur brotinn í málefnum barna og má þar t.d. nefna fangelsismálin sem hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson kom inn á hér áðan. Það eru réttindi til umgengni. Við höfum vissulega náð ákveðnum áföngum á undanförnum árum og ekki síst nú í vor, en það þarf meira til. Það þarf líka að tryggja friðhelgi einkalífs barns eins og bent var á í framsögu hér áðan. Hægt er að nefna fjölda annarra atriða sem við verðum að bæta til að tryggja velferð barna á Íslandi.

Ég vil því, virðulegi forseti, leggja ríka áherslu á að málið komi aftur til meðferðar þingsins og barnasáttmálinn verði lögfestur. Það yrði íslenskum börnum til mikilla réttindabóta. Ég vil í þessari umræðu ítreka að barnasáttmálinn verði lögfestur og það sem fyrst.