135. löggjafarþing — 14. fundur,  30. okt. 2007.

íslenska táknmálið.

12. mál
[16:17]
Hlusta

Flm. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um íslenska táknmálið sem fyrsta mál heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra. Frumvarp þetta hefur verið lagt fram á nokkrum fyrri þingum og er höfundur þess Sigurlín Margrét Sigurðardóttir, fyrrv. alþingismaður, sem lagði frumvarp þessa efnis upphaflega fram á 130. löggjafarþingi.

Það er ánægjulegt að leggja þetta frumvarp fram núna ásamt fulltrúum allra stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi. Ásamt mér flytja þetta mál hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson, Árni Páll Árnason, Árni Johnsen, Ásta R. Jóhannesdóttir, Ásta Möller, Guðbjartur Hannesson, Guðjón Arnar Kristjánsson, Höskuldur Þórhallsson, Kolbrún Halldórsdóttir, Lúðvík Bergvinsson, Magnús Stefánsson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon og Steinunn Valdís Óskarsdóttir.

Þessi samstaða sýnir okkur að barátta Félags heyrnarlausra og barátta Sigurlínar Margrétar hér á Alþingi hefur skilað árangri. Þau hafa náð athygli okkar sem heyrandi erum og gefið okkur skilning á menningu sinni og daglegri tilveru heyrnarskertra, heyrnarlausra og daufblindra. Það er samstaða um það að staðfesta réttindaskrá um stöðu og réttindi þessa hóps sem notar íslenska táknmálið og það hefur náðst samstaða um að viðurkenna táknmálið sem fyrsta mál þeirra sem það nota.

Greinargerðin sem fylgir þessu frumvarpi er að mestu leyti samhljóða þeirri sem fylgdi upphaflega frumvarpinu en helst má nefna breytingu sem felst í nýjum kafla um sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra. Í frumvarpi þessu er að finna réttindaskrá um stöðu og réttindi þeirra sem nota íslenska táknmálið jafnframt því sem kveðið er á um að táknmál verði viðurkennt sem fyrsta mál heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra Íslendinga og réttur þeirra tryggður til hvers konar táknmálstúlkunar.

Virðulegi forseti. Í greinargerðinni kemur fram að til heyrnarskertra, heyrnarlausra og daufblindra sem nú nota táknmálið teljist um 300 Íslendingar. Líf þessara einstaklinga mun taka miklum stakkaskiptum við viðurkenningu á íslenska táknmálinu. Sjálfsmynd og sjálfstraust þeirra mun eflast til muna. Þeir munu finna hvers virði það er að geta sinnt daglegum félagslegum þörfum hindrunarlaust og geta rofið þá einangrun sem hefur heft þá í langan tíma í íslensku samfélagi. Með því að tryggja túlkaþjónustu þarf fólk ekki lengur að betla af t.d. vinnuveitanda að greiða fyrir þjónustu túlks á starfsmannafundum. Það hlýtur að styrkja sjálfsmyndina töluvert, sérstaklega á vinnustað, að vita að maður hefur sömu möguleika og heyrandi starfsmenn til að koma skoðunum sínum á framfæri og tjá sig á vinnustað, að ekki sé talað um frelsið sem það veitir þeim sem tjá sig með táknmálinu. Við erum að byggja brú, verði þetta frumvarp að lögum, milli þeirra sem nota íslenska táknmálið og okkar sem notum íslenska tungumálið sem tjáningarform til að lifa með reisn í íslensku samfélagi, koma þannig löngunum, þrám og skoðunum á framfæri.

Virðulegi forseti. Þann 30. mars á þessu ári var undirritaður sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra af Íslands hálfu. Með sáttmálanum eru stigin mikilvæg skref í réttindamálum fatlaðra, þá ekki síst heyrnarskertra, heyrnarlausra og daufblindra. Með undirritun sinni hefur Ísland samþykkt að leggja sig fram um að tryggja réttindi fatlaðra hér á landi og þar með bæta umhverfi þeirra. Í sáttmálanum er skýrt kveðið á um að allar aðildarþjóðir skuli grípa til viðeigandi ráðstafana til að tryggja rétt fatlaðra og frelsi til tjáningar og skoðana. Er þarna, virðulegi forseti, aðallega um að ræða grein 21 í áðurnefndum sáttmála. Er þar sérstaklega tiltekið að tryggja eigi þennan rétt og frelsi til tjáningar og skoðana með því meðal annars að viðurkenna og upphefja táknmálið. Þá er jafnframt tiltekið að tryggja eigi þennan rétt með því að viðurkenna og greiða fyrir notkun táknmáls sem og öðrum þeim leiðum sem fatlaðir kjósa að nota í opinberum samskiptum Viðurkenning íslenskra stjórnvalda á íslenska táknmálinu yrði því að mínu mati eðlilegt framhald á undirritun þessa sáttmála sem Ísland hefur nú þegar, eins og ég áður nefndi, undirritað.

Virðulegi forseti. Frumvarpið nær ekki eingöngu til þeirra sem eru heyrnarskertir eða heyrnarlausir og nota því táknmálið til tjáningar eins og áður hefur komið fram, heldur nær það einnig til daufblindra. Daufblindir eru þeir sem hafa skerta eða enga heyrn og skerta eða enga sjón. Mikilvægt er að frumvarp þetta taki einnig til daufblindra sem nota snertitáknmál. Daufblindir er fámennasti hópur fatlaðra hér á landi en þeir þurfa þó mjög sérhæfða þjónustu á sviði samskipta og skipar táknmálið þar stóran sess. Þessir þrír hópar eiga táknmálið sameiginlegt og því má enginn þeirra vera settur út undan. Nauðsynlegt er að standa vörð um íslenska táknmálið svo að þessir hópar geti haft aðgang að upplýsingum, stundað nám og tekið þátt í menningarlífi og athöfnum daglegs lífs. Markmið þessa frumvarps er að réttindi þessara þriggja hópa verði tryggð.

Í greinargerðinni er dregin fram sú merkilega sögulega staðreynd að táknmálið var bannað í u.þ.b. 100 ár. Þann tíma hafa heyrnarlausir gjarnan kallað einangrunartímabilið. Ákvörðun um bannið var tekin í Mílanó árið 1880 á ráðstefnu heyrnleysingjakennara víðs vegar að úr heiminum. Niðurstaða ráðstefnunnar var að samþykkja að beita svokallaðri „oral“-stefnu eða raddmálsaðferð við menntun heyrnarlausra. Í þeirri stefnu felst að heyrnarlausir og heyrnarskertir læri að lesa af vörum og læri að tala með hjálp kennara án þess að nota táknmál. Sú stefna breiddist út um allan heim og heyrnarlausir kennarar voru jafnvel reknir frá skólum. Á þeim tíma dró verulega úr menntun heyrnarlausra, störf þeirra urðu einfaldari og samfélag heyrnarlausra einangraðist frá heimi heyrandi manna. Heyrnarlausir fóru í felur til þess að geta talað saman á því máli sem var þeim eðlilegast, táknmálinu. Þetta ástand, virðulegi forseti, varði í 100 ár.

Það var árið 1960 sem bandaríski málvísindamaðurinn William Stokoe uppgötvaði að táknmál væru mál eins og hver önnur mál. Þessi vitneskja breiddist út um allan heim og þeir málvísindamenn sem hafa rannsakað táknmál hafa komist að raun um að táknmál eru fullkomin og flókin mál. Heyrnarlausir brutu smám saman niður múrinn eftir að uppalendur og skólar tóku að viðurkenna mál þeirra. Á Norðurlöndunum var táknmál viðurkennt á tímabilinu 1975–1980 en verður sýnilegt hér á landi í kringum 1986.

Með leyfi forseta vil ég fá að vitna hér til norska málvísindamanninum Terjes Basiliers sem sagði, með leyfi forseta:

„Ef ég viðurkenni mál annars manns hef ég þar með viðurkennt manninn … en ef ég viðurkenni ekki mál hans hef ég þar með hafnað honum vegna þess að málið er hluti af okkur sjálfum.“

Virðulegi forseti. Þetta eru falleg orð, og orð að sönnu og eiga sannarlega vel við þegar fjallað er um viðurkenningu íslenska táknmálsins og um leið réttindaskrá þess.

Í þessu frumvarpi liggur sú framtíðarsýn að táknmálið muni njóta sömu virðingar og önnur mál og hér á landi sömu virðingar og íslenska tungan. Íslenska táknmálið er tjáningarform þeirra sem ekki geta notað íslenska tungu og sem Íslendingum ber þeim sem það nota að fá það viðurkennt, það er réttlætismál.

Virðulegi forseti. Það er flókið að viðurkenna nýtt mál. Skoða þarf vandlega hvaða þýðingu viðurkenning á táknmáli hefur fyrir heyrnarlausa, heyrnarskerta og daufblinda og fyrir stjórnvöld. Ég tel að viðurkenning táknmálsins feli um leið í sér viðurkenningu á tilveru framangreindra og áðurnefndra hópa og ábyrgð stjórnvalda og skyldu þeirra að virða mismunandi þarfir einstaklinga og koma til móts við þá af virðingu. Framtíðarsýnin í frumvarpinu er sú að táknmálið muni njóta sömu virðingar og önnur mál og að heyrnarlausum verði mögulegt að taka fullan þátt í þjóðfélaginu á grundvelli laganna, að heyrnarlausir, heyrnarskertir og daufblindir hafi rétt til að ákveða hvert sé móðurmál þeirra og aðrir viðurkenni og virði þá ákvörðun. Gera þarf heyrnarlausum, heyrnarskertum og daufblindum sem aðallega eru notendur táknmálstúlkaþjónustu hátt undir höfði svo að þeir geti og fái notið táknmálstúlkaþjónustu hindrunarlaust en svo er því miður ekki í dag, virðulegi forseti.

Samhliða frumvarpinu er flutt frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum hvað varðar réttindi og réttarstöðu heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra. Það mál er mál 17 á þskj. 17 og við ræðum þau mál saman hér. Þá vil ég líka greina frá því hér að ég mun einnig leggja fram þingmál er varðar textun sjónvarpsefnis á þessu þingi en það mál snertir hins vegar um 25–30 þús. manns.

Flutningsmenn telja rétt að benda á í þessu samhengi að sjónvarpsefni á táknmáli er af mjög skornum skammti á Íslandi og ég tel eðlilegt að það verði aukið. Annars staðar á Norðurlöndunum eru t.d. sýndir menningartengdir táknmálsþættir a.m.k. einu sinni í viku á opinberu sjónvarpsstöðvunum sem hefur auðvitað mjög mikla þýðingu fyrir samfélag heyrnarlausra. Úr þessu megum við Íslendingar svo sannarlega bæta og þá ekki síður til að auka þekkingu á íslenska táknmálinu, þekkingu hinna heyrandi.

Virðulegi forseti. Þegar Sigurlín Margrét Sigurðardóttir lagði þetta mál fyrst fram hér á Alþingi haustið 2003 sendi Félag heyrnarlausra formönnum allra þingflokka á Alþingi formlegt bréf með áskorun um samþykkt málsins. Þá var forseta Alþingis og forsætisráðherra jafnframt afhent áskorun í apríl á þessu ári um að samþykkja frumvarpið. Var þess jafnframt óskað í bréfinu að lögð yrði áhersla á að þeim sem notuðu íslenska táknmálið yrði tryggt jafnræði í samfélaginu. Réttindaskrá sú sem birtist í þessu frumvarpi er fyrsta skrefið í átt að því tryggja slíkt jafnræði. Óskin er að síðar verði táknmálið formlega viðurkennt í stjórnarskrá Íslands sem fullgilt mál til jafns við íslenskuna.

Virðulegi forseti. Það má í því sambandi benda á það að stöðu íslenskunnar má líka skerpa allverulega. Fyrrverandi þingmaður Mörður Árnason lagði fram tillögu til þingsályktunar hér um það mál og var henni vísað til ríkisstjórnarinnar 6. maí árið 2004 og sömuleiðis sendi Mörður Árnason þessa tillögu til stjórnarskrárnefndar síðar. Þegar þessi tillaga var lögð fram sendi formaður Félags heyrnarlausra bréf til þingflokkanna þar sem áréttað var mikilvægi þess að styrkja stöðu íslensku tungunnar til þess að geta styrkt og tryggt stöðu íslenska táknmálsins. Ég vildi koma þessu líka á framfæri í þessari umræðu, þetta helst að ákveðnu leyti í hendur og styrkir verulega stöðu þessa máls, þ.e. að tryggja réttarstöðu íslenska táknmálsins sé réttarstaða íslensku tungunnar trygg.

Virðulegi forseti. Í greinargerðinni eru tiltekin þrjú mikilvæg atriði sem liggja til grundvallar því að viðurkenning íslenska táknmálsins öðlist fullt gildi. Ætla ég ekki að fara yfir það hér að öðru leyti en því að nefna þau í stuttu máli.

Í fyrsta lagi er farið yfir mikilvægi þess að efla nám í táknmálsfræði, í öðru lagi er farið yfir mikilvægi þess að tryggja túlkaþjónustu og fjármagn til hennar og í þriðja lagi þarf að líta til menningar heyrnarlausra. Af öllum tungumálum sprettur nefnilega upp menning og þarf að huga að henni í tengslum við viðurkenningu táknmálsins. Í greinargerðinni er farið ítarlega yfir þessi þrjú atriði og eins og ég áður sagði ætla ég að láta duga að nefna þau hér í þessari framsögu.

Virðulegi forseti. Frumvarpi þessu fylgir einnig mjög góð grein af vísindavef Háskóla Íslands eftir Svandísi Svavarsdóttur íslenskufræðing þar sem gefin er mjög greinargóð mynd af táknmálinu, eðli þess og uppruna og stöðu þess í alþjóðlegu samhengi. Hvet ég þingheim og aðra áhugasama til þess að kynna sér þá grein vegna þess að hún varpar mjög skýru ljósi á það hvers eðlis táknmálið er.

Það er von mín og flutningsmanna frumvarpsins að það nái fram að ganga á þessu þingi svo að notendur táknmálsins fái réttindaskrá sína samþykkta og íslenska táknmálið viðurkennt svo að þau fái fullan aðgang að íslensku samfélagi og fái lifað með þeirri reisn sem þeim ber. Við getum þá hafið vinnu við að byggja þá brú sem ég nefndi hér, brú milli þessara tveggja málheima, íslensku tungunnar og íslenska táknmálsins.

Virðulegi forseti. Ég lýk nú máli mínu og vona að menntamálanefnd geti unnið hratt og vel að þessu mikilvæga máli, að það verði samþykkt á þessu þingi. Ég ber náttúrlega væntingar til þess að nefndin nái að afgreiða það á þessu þingi vegna þess hversu snemma það er fram komið. Þar með höfum við veturinn til að fara vel yfir það. Ég er afar bjartsýn og sérstaklega í ljósi þeirrar samstöðu sem um þetta mál ríkir nú, þvert á alla þingflokka, um að það verði að veruleika, að réttindaskrá íslenska táknmálsins verði staðfest og íslenska táknmálið viðurkennt í íslenskum lögum og síðar stjórnarskrá.