135. löggjafarþing — 14. fundur,  30. okt. 2007.

íslenska táknmálið.

12. mál
[16:44]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að þetta mál skuli enn á ný vera komið inn í sali Alþingis. Það hefur oft verið flutt áður og talað hefur verið fyrir því að íslenska táknmálið verði móðurmál heyrnarlausa, heyrnarskerta og daufblindra, tungumál þeirra sem ekki geta að fullu tjáð sig á íslensku máli.

Hér er um að ræða réttindamál þess hóps sem getur ekki tjáð sig með öðrum hætti en að nýta sér táknmálið. Það er því löngu kominn tími til að við afgreiðum þetta frumvarp og tryggjum þessum hópi sem jafnasta stöðu á við það sem við hin sem getum mælt á íslenska tungu höfum. Að við tryggjum að þeir sem eru heyrnarlausir, heyrnarskertir eða daufblindir geti nýst sem best í þjóðfélagi okkar. Það er það sem þessi hópur sækist eftir, að fá að vera fullgildir íslenskir þegnar.

Ekki þarf að hafa mörg orð um þetta mál, mikið hefur verið talað um það í þingsal. Þar sem þingmenn úr öllum flokkum eru meðflutningsmenn vænti ég þess að það fái brautargengi á hv. Alþingi og komist í höfn. Það þarf ekki að endurtaka rökin, þau eru öll þekkt, búið að flytja þau hér margoft og tala fyrir þeim af mikilli skynsemi. Fyrir okkur í Frjálslynda flokknum yrði það mikið fagnaðarefni að málið fengi framgang. Við komum að því í upphafi, við höfum stutt það og munum gera það áfram. Ég vænti þess að hv. Alþingi taki á sig rögg og afgreiði málið og finni því þann farveg sem eðlilegur er. Ég vænti þess að menn stígi þau skref að bera íslenska táknmálið inn í íslenska lagasafnið þannig að sá hópur sem í hlut á geti notið sjálfsagðra réttinda.