135. löggjafarþing — 14. fundur,  30. okt. 2007.

íslenska táknmálið.

12. mál
[16:47]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um íslenska táknmálið sem fyrsta mál heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra. Þetta er afskaplega þarft mál og mjög brýnt að taka á málefnum þessa hóps sem er ekki mjög fjölmennur en á samt sem áður sinn rétt til eðlilegra tjáskipta.

Síðast þegar þetta mál var rætt hér á Alþingi þá kom ég með annan vinkil á málinu sem ég vil gjarnan koma aftur að og vil gjarnan að hv. nefnd ræði. Það er þáttur tölvunnar í því að auka samskipti á milli fólks. Hún hefur þegar gert það að verkum að margir sem áður voru taldir mjög greindarskertir og engin samskipti náðust við, hafa náð góðum tökum á samskiptum með hjálp tölvunnar.

Fyrir nokkrum dögum las ég um mjög merka nýjung sem er unnin fyrir danska þingið, merkilegt nokk, sem er þróun á hljóðgervli, þ.e. forrit sem tekur hljóðbylgjur, talað mál og breytir því yfir í tungumál, skrifað mál. Það eru þegar komin mjög hraðvirk kerfi til þess að hraðrita tungumál yfir á letur, þannig að í rauninni er kominn möguleiki á því að heyrnarskertir og heyrnarlausir geti haft tjáskipti í gegnum tölvu með því að sá sem maður talar við, hann talar inn á lítið tæki sem breytir hljóðinu yfir í ritað mál sem er svo aftur breytt yfir í táknmál sem hinn heyrnarlausi skilur eða jafnvel ef hann lærir að lesa þá getur hann lesið af skjánum það sem hinn er að segja.

Fyrir þá sem ekki hafa nægilega sjón til að hægt væri að nota skjá til tjáskipta væri hægt að koma þeim til skila með titringi eða öðrum slíkum táknum. Og öfugt, þegar hinn heyrnarskerti vill tala við þann sem hann ætlar að hafa samskipti við, þá ritar hann tákn eða letur inn á þessa tölvu með hraðritun og tölvan breytir því yfir í hljóð. Sú tækni er komin nú þegar. Samskiptin gætu því eiginlega átt sér stað í gegnum tæki sem ég hugsa að þurfi ekki endilega að vera mikið stærra en GSM-sími.

Ég vildi gjarnan að hv. nefnd skoðaði þá tækniþróun sem hefur orðið þannig að hún fari ekki þá leið að lögbinda eitthvert táknmál sem er kannski, ég segi kannski, orðið úrelt og loka þar með á ákveðna þróun sem gæti átt sér stað með aðstoð tölvutækni og hugbúnaðar.