135. löggjafarþing — 14. fundur,  30. okt. 2007.

íslenska táknmálið.

12. mál
[16:50]
Hlusta

Flm. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram og fyrir góðar undirtektir. Við sjáum á þeim hópi flutningsmanna sem að málinu stendur að um það ríkir mjög góð samstaða.

Mig langar aðeins að víkja að lokaorðum síðasta ræðumanns, hv. þm. Péturs Blöndals, þar sem hann velti upp þætti tölvunnar til þess að auka samskipti fólks og velti fyrir sér hljóðgervlum sem hraðrita tungumál eða talað mál yfir í ritað mál. Ég er sammála hv. þingmanni að þetta er eitthvað sem getur hjálpað töluvert í samskiptum milli einstaklinga. Það sem ég sé fyrir mér í þessu er að slík tækni geti hjálpað þeim sem eru í námi, í háskólanámi eða öðru námi, sitja fyrirlestra eða fundi. Þetta er til í raun og veru, þetta kallast rittúlkun og er eitthvað sem við þurfum að fara að beina sjónum okkar að því að þetta er eitt úrræði.

Um eitt er ég þó ekki sammála hv. þingmanni en það er þegar hann veltir því upp að táknmálið verði hugsanlega úrelt, að tæknin geti leyst það af hólmi. Það er vegna þess að ég held að ekkert komi í staðinn fyrir persónuleg tjáskipti manna á milli þar sem horfst er í augu og rætt saman.

Það er það sem táknmálið gefur þeim sem það nota. Það eru samræður, maður á mann þar sem fólk horfist í augu og á tjáskipti. Sama á við um þá sem eru daufblindir. Ég held að ekkert komi í staðinn fyrir mannlega snertingu, ekki tæki sem titrar eða nokkur annar skapaður hlutur.

Engu að síður er ég sammála hv. þingmanni hvað það varðar að vissulega er vert að skoða þetta sem hjálpartæki við þær aðstæður þegar það gæti hentað, t.d. gætu einstaklingar í námi, í fyrirlestrum nýtt sér slíka rittúlkun.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta langt en ég tek undir það sem hv. þm. Katrín Jakobsdóttir sagði, að hér er ekki um marga einstaklinga að ræða en þetta er mjög einangraður hópur. Það er því mikilvægt að tryggja honum þessi réttindi, tryggja honum aðgang að túlkaþjónustu og tryggja honum aðgang að þeim tækjum, möguleikum og þeirri þjónustu sem gæti brúað aðkomu hans inn í samfélag hinna talandi og líka öfugt.

Í því sambandi vil ég koma aðeins betur að því sem ég nefndi í framsöguræðu minni en það eru textunarmálin, þ.e. að hér verði sett í lög að texta beri íslenskt sjónvarpsefni en það finnst mér mjög mikilvægt í þessu sambandi. Þeir sem nota íslenska táknmálið eru u.þ.b. 300 og svo eru þeir sem eru heyrnarskertir og heyra slitrótt úr sjónvarpinu, missa jafnvel samhengið og missa þráðinn vegna þessa, það er mjög mikilvægt að þeim hópi verði boðið upp á textað efni. Þannig að sá hópur, sem og þeir sem nota táknmálið og geta lesið geti fylgst með íslensku sjónvarpsefni. Vegna þess sá hópur er jafnvel enn stærri.

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu þar sem margt athyglisvert hefur komið fram. Mér þótti áhugavert að heyra hv. þm. Ágúst Ólaf Ágústsson segja frá því að dóttur hans höfðu verið kennd nokkur tákn í leikskólanum. Þetta finnst mér vera mikilvægt til þess að auka þekkingu og fræðslu á íslenska táknmálinu. Þar sér maður líka fyrir sér að hægt væri að vera með t.d. teiknimyndir og annað slíkt efni þar sem táknmál væri notað til jafns á við talað mál til þess að auka fræðslu, auka þekkingu og auka skilning á þessum tveimur málum.

Virðulegi forseti. Enn og aftur þakka fyrir þessa umræðu og tek undir með hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni sem sagði að það væri mikilvægt að þessi hópur fengi að vera fullgildir íslenskir þegnar á við okkur hin og að við smíðum þessa brú á milli málanna og málheimanna.