135. löggjafarþing — 14. fundur,  30. okt. 2007.

lagaákvæði um almenningssamgöngur.

23. mál
[16:55]
Hlusta

Flm. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi sem hv. 11. þm. Reykv. s., Álfheiður Ingadóttir, er fyrsti flutningsmaður að og ég flyt ásamt henni. Frumvarpið varðar almenningssamgöngur og er tilgangur þess að skjóta styrkari stoðum undir rekstur almenningssamgangna sem verða æ fyrirferðarmeiri, bæði á höfuðborgarsvæðinu en eins í fjölmörgum sveitarfélögum vítt og breitt um landið.

Í frumvarpinu er gerð tillaga um tvenns konar breytingu á lagaákvæðum um almenningssamgöngur. Annars vegar er lögð til breyting á lögum um virðisaukaskatt til þess að fyrirtæki sem reka almenningssamgöngur sitji við sama borð og þeir sem reka hópferðabifreiðar og fái endurgreidda tvo þriðju hluta greidds virðisaukaskatts af nýjum almenningsvögnum frá 1. desember 2000 út gildistíma bráðbirgðaákvæðis X í lögunum.

Þá er lagt til að þeir sem reka almenningssamgöngur fái olíugjald að fullu endurgreitt, en með kerfisbreytingu þeirri að leggja niður þungaskatt og taka upp olíugjald greiða þessir aðilar 80–85% hærri gjöld til ríkissjóðs en í eldra kerfi þótt það hafi ekki verið ætlun löggjafans.

Frumvarp um breytingu á lögum um virðisaukaskatt var flutt á 130., 131. og 133. löggjafarþingi en varð ekki útrætt. Það er tekið óbreytt upp í 1. gr. frumvarps þessa.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að kaupendur almenningsvagna sitji við sama borð og kaupendur annarra hópferðabifreiða og njóti endurgreiðslu á tveimur þriðju hlutum virðisaukaskatts sem greiddur er vegna kaupa eða leigu hópferðabifreiða á tímabilinu 1. desember 2000 til 31. desember 2006.

Með lögum nr. 57/2001 var bundin í lög heimild til að endurgreiða þeim sem hafa leyfi til fólksflutninga í atvinnuskyni tvo þriðju hluta þess virðisaukaskatts sem greiddur er vegna kaupa eða leigu hópferðabifreiða á tímabilinu 1. september 2000 til 31. desember 2003. Með lögum nr. 175/2006 var heimildin framlengd til 31. desember 2008.

Niðurfelling virðisaukaskatts vegna kaupa á almenningsvögnum er hins vegar óheimil samkvæmt lögum nr. 50/1988 og hafa þeir sem reka almenningssamgöngur, en það eru einkum sveitarfélög og fyrirtæki þeirra, því engrar endurgreiðslu notið. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að fyrirtæki sem reka almenningssamgöngur sitji við sama borð og þeir sem reka hópferðabifreiðar í samræmi við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.

Jafngild rök liggja að baki nauðsynlegrar endurnýjunar á flota almenningsvagna og flota hópferðabifreiða. Stærsta fyrirtækið á þessu sviði er Strætó bs., sem er byggðasamlag í eigu sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Þjónustusvæði þess er dreifbýli á Kjalarnesi og í Mosfellsdal, þéttbýli í Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði, Garðabæ, Mosfellsbæ, á Seltjarnarnesi, Álftanesi og í Reykjanesbæ. Í ársbyrjun var þjónustusvæðið útvíkkað til Akraness í tilraunaskyni í tvö ár. Þá hafa Árborg, Hveragerði og Reykjanesbær lýst áhuga á samstarfi við Strætó bs. þannig að svipuð þjónusta verði veitt þessum sveitarfélögum og Akranesi.

Strætó bs. heldur nú úti akstri með 110–115 vögnum á þjónustusvæði sínu, þar af um 50 á vegum verktaka. Í bílaflota Strætó bs. eru tveir metanknúnir vagnar og þrír vetnisvagnar sem komu til landsins 2003 en Strætó bs. var meðal fyrstu almenningsvagnafyrirtækja í heiminum til að taka slíka vagna í notkun.

Frá stofnun byggðasamlagsins 1. júlí 2001 hefur fyrirtækið keypt 45 nýja vagna og nemur álagður virðisaukaskattur vegna þeirra kaupa 161,6 millj. kr. Tveir þriðju hlutar fjárhæðarinnar, þ.e. það sem endurgreiðslan tæki til, nemur því 107,3 millj. kr. Stærsti undirverktaki Strætó bs., Hagvagnar hf., hefur á sama tíma keypt 21 strætisvagn til aksturs á áðurgreindu þjónustusvæði og nemur álagður virðisaukaskattur vegna þeirra kaupa um 64 millj. kr. og reiknuð endurgreiðsla, ef jafnræði væri með almenningssamgöngum og öðrum hópferðum, tæplega 43 millj. kr.

Utan höfuðborgarsvæðisins er haldið uppi reglubundnum almenningssamgöngum á Akureyri, Ísafirði, í Fjarðabyggð, Reykjanesbæ og innan Akraness. Ætla má að endurgreiðsla tveggja þriðju hluta virðisaukaskatts vegna kaupa á almenningsvögnum til allra þeirra fyrirtækja sem hér um ræðir gæti numið um 170 millj. kr. vegna tímabilsins 1. september 2000 til 31. desember 2007.

Ég kem síðan að 2. gr. sem fjallar um breytingar á lögum um olíugjald og kílómetragjald.

Þegar lög um olíugjald og kílómetragjald voru sett féllu úr gildi lög um fjáröflun til vegagerðar, þar sem m.a. var kveðið á um þungaskatt. Áður hafði þungaskattur þeirra sem reka almenningsvagna verið felldur niður að 70% en í stað þess ákvæðis kom 80% endurgreiðsla olíugjalds. Í athugasemdum með frumvarpinu um olíugjald segir um 6. gr., með leyfi forseta:

„Gert er ráð fyrir að endurgreiðslur samkvæmt þessum tölulið verði sambærilegar afslætti sem þessir aðilar njóta í núverandi þungaskattskerfi.“

Það var því augljós ásetningur löggjafans að þeir sem reka almenningsvagna sætu við sama borð eftir breytingu og fyrir. Reynslan hefur hins vegar sýnt að svo er ekki í raun. Í erindi sem fjármálastjóri Strætó bs. sendi efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis þann 14. apríl 2004, þegar málið var þar til umfjöllunar, kemur fram að kostnaður þess fyrirtækis hækki úr 37,5 millj. kr. vegna þungaskatts í 68,5 millj. kr. vegna olíugjalds. Skýringin er einkum sú að 80% endurgreiðsla olíugjalds er reiknuð á gjaldið án virðisaukaskatt, sem þá leggst alfarið á viðkomandi fyrirtæki. Þá veldur sú breyting, að hluti þungaskattsins var felldur niður og aldrei innheimtur en olíugjaldið er að fullu innheimt og endurgreiðslan kemur síðar, viðvarandi fjárbindingu sem metin er á 10–14 millj. kr. hjá Strætó bs.

Hið sama gildir að sjálfsögðu um almenningssamgangnafyrirtæki annars staðar á landinu. Þetta er viðbótarkostnaður sem ekki var í þungaskattskerfinu. Af þessu má ljóst vera að rekstraraðilar almenningssamgangna eru alls ekki jafnsettir í kerfi olíugjaldsins og þeir voru í þungaskattskerfinu, sem var þó aldrei ætlun löggjafans. Ætlun löggjafans var þvert á móti að þessir aðilar sætu við sama borð eftir að olíugjaldið var tekið upp og þungaskatturinn felldur niður. Almenningssamgöngufyrirtæki eru þess vegna með lagabreytingunni á sínum tíma að greiða meiri gjöld til ríkisins en áður. Ég ítreka að það var ekki ætlun löggjafans og kemur skýrt fram í greinargerð með frumvarpinu á sínum tíma að það hafi ekki staðið til. Það er því nauðsynlegt að olíugjaldið verði endurgreitt að fullu svo að þessir aðilar sitji við sama borð, enda mun virðisaukaskatturinn sitja eftir sem kostnaður á fyrirtækin og þar með sem tekjur til ríkisins.

Herra forseti. Við flutningsmenn þessa frumvarps teljum að hér sé um að ræða mikið réttlætismál og mikilvægt samfélagsmál. Það er mikilvægt réttlætismál að almenningssamgöngur sitji við sama borð og hópferðabílar og engin skynsamleg rök mæla reyndar fyrir slíkri mismunun. Meginröksemdin fyrir þessu ákvæði um hópferðabíla á sínum tíma mun hafa verið að auðvelda þeim fyrirtækjum að endurnýja ökutækjaflota sinn, fá nýja bíla sem uppfylltu ströngustu kröfur í öryggis- og umhverfismálum. Staðreyndin er að sjálfsögðu sú að sömu rök eiga við um almenningsvagnana og raunar hefur það verið vandamál á því svæði sem ég þekki best til, þ.e. á höfuðborgarsvæðinu, hvað vagnar hafa verið gamlir, til skamms tíma hefur meðalaldur þeirra verið talsvert yfir tíu ár. Það eru því fullkomlega sömu rök sem eiga við um almenningssamgöngur í þéttbýli og með hópferðabílana að þessu leyti.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að loftmengun, svifryk og sót af völdum samgangna er helsta umhverfisvandamálið á höfuðborgarsvæðinu enda byggjast samgöngur nær allar á notkun innflutts jarðefnaeldsneytis. Jafnframt því að styðja við þróun vistvænna orkugjafa í samgöngum er nauðsynlegt að auka hlut almenningssamgangna stórlega til að draga úr loftmengun. Fyrsta skrefið er að tryggja að almenningssamgöngur sitji a.m.k. við sama borð og hópferðaakstur við innkaup á nýjum farartækjum til fólksflutninga og enn fremur að almenningssamgöngur verði ekki til frambúðar miklu verr settar með tilliti til olíugjalds en þær voru þegar þungaskattur var innheimtur. Í þeim tilgangi er frumvarp þetta flutt.

Ég vil að lokum, herra forseti, leggja til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. efnahags- og skattanefndar til umfjöllunar en ég vænti þess jafnframt að sú nefnd sem fær þetta mál til meðferðar muni kalla eftir viðhorfum bæði úr umhverfisnefnd og samgöngunefnd þar sem efni frumvarpsins snertir báða þessa málaflokka mjög mikið.