135. löggjafarþing — 14. fundur,  30. okt. 2007.

lánamál og lánakjör einstaklinga.

20. mál
[17:33]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Bankarnir borga 18% af hagnaði sínum í skatt, ekki 10%, eins og önnur íslensk fyrirtæki. Ég hélt að hv. þingmaður vissi það. Vextir hafa verið hækkaðir úr 4,15% upp í 5,10% hjá Íbúðalánasjóði og hjá flestum á markaðnum en margir tóku lán með föstum vöxtum, 4,15% hjá Kaupþingi þegar þeir fóru í gang, og þeir vextir sitja áfram. Það fólk nýtur þess til framtíðar að hafa svona lága vexti. Vextirnir lækkuðu mjög mikið þegar bankarnir fóru inn á markaðinn. Sennilega voru meðalvextir þá um 6% og lækkuðu niður í 4,15% og sú vaxtalækkun er ein mesta kjarabót sem íslenskir launþegar hafa fengið en hefur því miður valdið mikilli hækkun á íbúðaverði sem kemur í bakið á sérstaklega yngra fólki sem er að kaupa fyrstu eign. Það kemur hins vegar öllum öðrum Íslendingum til góða sem ekki hafa selt eignir eða keypt á síðustu árum því að eignamyndunin hefur verið gífurleg í íbúðarhúsnæði, sennilega hjá flestum miklu meiri en þeir hafa haft í laun.

Sú hækkun hefur svo aftur endurspeglast og er aðalhvatinn og mótorinn á bak við hækkun vísitölunnar. Þegar menn kvarta undan því að þeir séu að borga háa vexti á verðtryggð lán er það vegna hækkunar á íbúðaverði sem myndar eign, miklu meiri eign en lánin hækka. Eignamyndunin hjá almenningi hefur verið umtalsverð en skilar sér því miður í hækkun verðbólgu.