135. löggjafarþing — 14. fundur,  30. okt. 2007.

lánamál og lánakjör einstaklinga.

20. mál
[17:37]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Samkeppnisumhverfi á Íslandi, hvort sem um er að ræða í peningum eða öðru, er náttúrlega mjög ábótavant. Það eru ekki bara bankar, það er ekki bara vaxtamunur í bönkunum, þessi samkeppnisvandamál sem íslenska þjóðin býr við er í tryggingafélögum og olíufélögum, flugfélögum, siglingum til og frá landinu og ýmiss konar verslunum. Það er eiginlega sama hvar á er litið, okkur vantar meiri og betri samkeppni. Þetta er fákeppnismarkaður og það að þurfa að bera þessa háu vexti og verðtrygginguna er mjög vont fyrir heimilin og smærri fyrirtæki í landinu sem hafa ekki tækifæri til að vera með viðskipti sín í erlendum gjaldmiðli. Sveitarfélögin eiga mjög erfitt, skulda mikið og borga mikla vexti þó svo að stærstu sveitarfélögin séu farin að taka lán erlendis og í erlendum gjaldmiðli. Það er ekkert skrýtið þó að fólk velti fyrir sér evrunni og þeim möguleikum sem felast í henni, það hlýtur bara að leiða það af sér þegar haldið er svona á málunum.

Það er dálítið sorglegt að heyra þá aðila sem eru raunverulega að berjast fyrir þessu kerfi sem hefur verið á Íslandi — það er t.d. í fyrsta skipti í dag sem er talað um að leggja af stimpilgjald, hæstv. viðskiptaráðherra hefur boðað að það standi til að endurskoða gjaldið. Við höfum ekki séð að það væri vilji hjá sjálfstæðismönnum eða framsóknarmönnum að leggja það af. Þeir kannski vilja það núna, framsóknarmennirnir sem eru komnir í stjórnarandstöðu en þeir hafa ekki gert það síðustu 12 árin og Sjálfstæðisflokkurinn ekki síðustu 16. Þetta hefur því orðið til þess að hamla eðlilegum möguleikum fólks til að nýta sér þó þá litlu samkeppni sem er á innanlandsmarkaði með peningalán.

Þegar hv. þm. Pétur Blöndal talar um að fyrirtækin borgi 18% af sínum tekjum í skatta má minna á að samkvæmt því borga launþegar þá líka 36,5% í skatta.

Það verður gaman að fylgjast með því hvað Samfylkingin leggur til í þessum málum. Þeir eru fáir hérna í þingsalnum núna frá Samfylkingunni til þess að útskýra hvað þeir vilja og ætla sér að gera. Það þarf kannski ekkert að spyrja að því, sjálfstæðismennirnir hafa verið 16 ár í ríkisstjórn og þeir hafa ekkert viljað gera og ekkert gert og maður á ekki von á því að þeir muni koma með neinar tillögur um breytingar. Þeir eru strengjabrúður bankanna og eru að vinna fyrir þá í tíma og ótíma, að þeirra velferðarmálum, en eru ekki að hugsa um fólkið í landinu sem þarf á aðstoð þeirra að halda og býr við allt of há vaxtakjör og ósanngjörn lífsskilyrði.