135. löggjafarþing — 14. fundur,  30. okt. 2007.

lánamál og lánakjör einstaklinga.

20. mál
[17:41]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég stenst ekki þá freistingu að blanda mér aðeins inn í þessa umræðu sem er að mörgu leyti alveg með ólíkindum. Margt sem hér hefur verið sagt er ekki alveg í samræmi við veruleikann að mínu mati, eins og það að verðtrygging lána sé eitthvert aðalvandamál hér. Það bara er ekki þannig að mínu mati. Verðtrygging er í fyrsta lagi ekki skilyrði í lántöku. Í öðru lagi eru raunvextir lægri á verðtryggðum lánum en á óverðtryggðum lánum og auðvitað eru það raunvextirnir sem skipta fyrst og fremst máli.

Ef það yrði tekin sú ákvörðun í dag að afnema verðtrygginguna mundu fyrst vextirnir fara að bíta, og stýrivextir Seðlabankans. Að því leyti til gæti það verið farsæl aðgerð, en hún mundi hafa hræðilegar afleiðingar fyrir það fólk í landinu sem hefur minnst milli handanna. Þá leggjast vextirnir á strax, þá er ekki hægt að færa þá aftur fyrir og jafna þannig út byrðina. Mér finnst alltaf mjög skrýtið þegar fólk heldur því fram að verðtrygging lána sé eitthvert aðalvandamál í þessum efnum.

Af hverju eru vextir svona háir á Íslandi? Stýrivextirnir eru gríðarlega háir, milli 14 og 15% í dag, og það er sú aðferð sem Seðlabankinn beitir til þess að reyna að ná tökum á þenslunni og hefur í raun þau skilaboð frá ríkisstjórninni, frá stjórnvöldum, að verðbólga skuli ekki vera yfir 2,5%. Hvað á aumingja Seðlabankinn að gera? segi ég nú bara, miðað við það að lögin eru þessi í landinu, þetta er hans hlutverk. Auðvitað er þetta samt óþolandi, ég ætla ekki að fara að verja það, það er óþolandi að hafa þessa háu vexti. Þess vegna er umræðan um það hvort við ráðum eitthvað við það að vera hér með sjálfstæða mynt, og hefur aðild að Evrópusambandinu eðlilega tengst þeirri umræðu.

Nú eru samfylkingarmenn komnir í ríkisstjórn og ég heyri viðskiptaráðherrann fyrst og fremst tala um glæsileg útrásarfyrirtæki þegar hann talar um bankana og ég er sammála honum með það að auðvitað eru þetta glæsileg útrásarfyrirtæki, en hins vegar er þetta ekki mikið í samræmi við það sem Samfylkingin sagði áður en hún komst í ríkisstjórn. Við skulum vera minnug þess að hæstv. iðnaðarráðherra sagði eða skrifaði á heimasíðu sína eitthvað á þessa leið: Guð hjálpi bönkunum ef við Jóhanna komumst í ríkisstjórn. Þá yrði nú aldeilis tekið á þeim. Við skulum sjá til hverjar efndirnar verða í þeim efnum. Það sem mér finnst aðalatriðið í þessu er að við björgum ekki heiminum með því að afleggja verðtrygginguna.

Síðan fékk ég smáskilaboð frá fyrrverandi félaga mínum í Framsóknarflokknum þar sem hann sagði eitthvað á þá leið að fyrrverandi viðskiptaráðherrar hefðu kannski fyrst og fremst hugsað um það að selja réttu aðilunum bankana. Þá vil ég gjarnan rifja upp að það var allt mjög opið ferli og það voru erlendir ráðgjafar sem unnu með ríkisstjórninni og ráðherranefnd um einkavæðingu í þeim efnum og viðskiptaráðuneytinu og mér sem viðskiptaráðherra sem bar ábyrgð á þessari sölu. Ég er ákaflega stolt af því að hafa verið sá einstaklingur sem bar ábyrgð á því að bankarnir voru einkavæddir, mjög stolt vegna þess að það hefur skilað miklu, gríðarlegum fjölda vel launaðra starfa til sérstaklega ungra Íslendinga og það hefur skapað ríkissjóði gríðarlegar skatttekjur. Það velkjast ekki margir í vafa um að það er rétt. Ég heyri ekki hér á hv. Alþingi þær raddir að það hafi verið röng ákvörðun að selja bankana.

Það sem er aðalatriðið gagnvart hv. þingmanni sem nefndi þetta hér er að ferlið var opið og það var farið að ráðgjöf fagaðila, erlendra fagaðila, og allt uppi á borðinu. Svo geta menn velt fyrir sér hvort þetta var gott verð. Miðað við það hvernig þessar bankastofnanir eða þessi fyrirtæki hafa þróast getur maður náttúrlega sagt að þetta hafi verið lágt verð en þetta verð þótti hátt á þeim tíma og það hafði tafist í nokkur missiri að selja bankana vegna þess að fjárfestum fannst íslenska ríkisstjórnin gera sér allt of miklar vonir um hátt verð.

Þetta er kannski ekki aðalatriðið í sambandi við þessa umræðu en ég stenst ekki freistinguna að rifja þetta aðeins upp.