135. löggjafarþing — 15. fundur,  31. okt. 2007.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

19. mál
[13:31]
Hlusta

Flm. (Birkir Jón Jónsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Flutningsmenn eru ásamt þeim sem hér stendur hv. þm. Guðni Ágústsson, Siv Friðleifsdóttir og Magnús Stefánsson.

Hæstv. forseti. Í frumvarpinu er lögð til efnisleg breyting á lögunum, svohljóðandi:

„Þriðjungur af upphæð námsláns breytist í styrk ljúki námsmaður lokaprófum á tilskildum tíma samkvæmt reglum viðkomandi skóla sem háðar eru samþykki menntamálaráðherra.“

Í greinargerð með frumvarpinu stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Á árunum 2003–2005 var brottfall nemenda í háskólum landsins á bilinu 19–57% eftir eins árs nám. Það var meira meðal nemenda ríkisháskólanna en þeirra einkareknu. Brottfall í svo miklum mæli er menntakerfinu dýrt og mikilvægt er að sporna við því með tiltækum ráðum. Öflug náms- og starfsráðgjöf er mikilvægur hlekkur í þeirri viðleitni en auk þess má nýta hagræna hvata til þess að hvetja námsmenn til að ljúka námi sem þeir hefja.

Víða á Norðurlöndunum tíðkast að verðlauna námsmenn fyrir að ljúka formlegu námi með viðunandi hætti og á tilskildum tíma með því að breyta hluta námslána þeirra í óafturkræfan styrk. Í því er fólginn sparnaður fyrir menntakerfið í heild þar sem hvati til þess að ljúka námi á tilsettum tíma er aukinn verulega og sparnaður næst á móti í menntakerfinu. Í frumvarpi þessu er lagt til að Íslendingar feti í fótspor frændþjóða sinna með viðlíka tilhögun. Íslenska leiðin verði sú að ljúki námsmaður námi samkvæmt reglum viðkomandi skóla og á tilskildum tíma breytist þriðjungur af námsláni hans í óafturkræfan styrk sem hvorki verði tekjutengdur né skattlagður. Víðast hvar á Norðurlöndunum eru námsstyrkir ekki bundnir því skilyrði að námsmaður ljúki formlegu námi en hér er lagt til að svo verði. Breyting af þessu tagi hvetur mjög til þess að námsmenn ljúki námi á þeim tíma sem skólinn miðar við. Þó er gert ráð fyrir að námsmenn sem ljúka ekki námi á tilskildum tíma en geta framvísað vottorði um lögmætar tafir njóti þessara breytinga. Lögmætar tafir eru skilgreindar af stjórn LÍN en gætu m.a. verið langtímaveikindi, fæðingarorlof og slys sem hamla námi tímabundið.

Áætlaður kostnaður við þessa lagabreytingu er um 1,6 milljarðar kr. Útlán LÍN eru um 9,5 milljarðar kr. í ár (2007) og eru áætluð 10,7 milljarðar kr. árið 2008. Árlegt framlag ríkisins er samkvæmt nýjustu útreikningum Ríkisendurskoðunar 51% af heildarútlánum sem skýrist af vaxtaniðurgreiðslum annars vegar og afföllum hins vegar. Í heildina mundi kosta rúma 3 milljarða kr. að breyta þriðjungi námslána í styrk en þar sem helmingurinn er nú þegar ríkisframlag vegna áður greindra ástæðna er breytingin hér metin á 1,6 milljarða kr. Á móti kemur sparnaður í menntakerfinu ljúki námsmenn námi á tilskildum tíma.

Gert er ráð fyrir að stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna skeri úr um álitamál sem kunna að rísa vegna þessa. Líkt og öðrum úrskurðum stjórnar má skjóta þeim til málskotsnefndar sem skipuð er af menntamálaráðherra sbr. 5. gr. a í lögunum.

Að sama skapi þarf í þessu samhengi að huga að stöðu þeirra nemenda sem stunda lánshæft nám en kjósa að taka ekki lán hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Á síðasta námsári voru 16–18.000 nemendur í háskólum og sérskólum á háskólastigi á Íslandi. Lánþegar LÍN á sama tímabili voru rétt rúmlega 9000 talsins. Einhver hluti þeirra námsmanna sem ekki taka lán hjá LÍN er ekki lánshæfur en þó má gera ráð fyrir að þúsundir námsmanna kjósi að framfleyta sér með öðrum hætti en með lántöku. Framsóknarmenn vilja meta reynsluna af þessu máli þegar fram í sækir til að gæta jafnræðis meðal námsmanna og skoða alvarlega þann möguleika að jafna möguleika námsmanna til þess að hljóta styrk, bæði þeirra sem taka lán til framfærslu á námstíma og hinna sem kjósa að framfleyta sér með öðrum hætti. Mætti hugsa sér að þeir gætu sótt um styrk að námi loknu, þar sem tekið yrði tillit til tekna viðkomandi á námstímanum. Styrkirnir yrðu þó tekjutengdir með sama hætti og útreikningar og lánshæfi lántaka gera ráð fyrir.“

Þetta er í fáum orðum efnisinnihald þess frumvarps sem við framsóknarmenn höfum raðað mjög framarlega í forgangsröð okkar. Stjórnmálaflokkar sem eiga sæti á Alþingi forgangsröðuðu sínum málum í ákveðna röð til að allir þingflokkar gætu komið þeim áherslumálum sem þeir leggja mesta áherslu á á framfæri í þingsölum Alþingis. Þetta er það mál sem þingflokkur framsóknarmanna leggur hvað mesta áherslu á.

Frá því að þessu frumvarpi var dreift í þingsölum hefur farið fram mikil umræða í þjóðfélaginu um þær breytingar sem hér eru lagðar til og hef ég fundið fyrir víðtækum stuðningi í samfélaginu við þessar breytingar. Meðal annars hafa komið ályktanir frá Samtökum íslenskra námsmanna erlendis, samtökum stúdenta við Háskólann á Akureyri og Stúdentaráði Háskóla Íslands. Það er því ljóst að það er gaumgæfilega fylgst með afdrifum þessa frumvarps innan háskólasamfélagsins enda er hér um mjög mikið hagsmunamál að ræða fyrir stúdenta í landinu.

Þetta mál var einnig rætt mikið í aðdraganda síðustu kosninga á fjölmörgum fundum sem við frambjóðendur fórum á þar og fannst mér vera nokkur samhljómur á milli flokka í þeirri umræðu sem þá var tekin. Sérstaklega fann ég fyrir samhljómi á milli þingmanna og frambjóðenda Framsóknarflokksins og Samfylkingarinnar í þessum efnum, enda lögðu þingmenn Samfylkingarinnar fram frumvarp til laga um breytingu á Lánasjóði íslenska námsmanna á síðasta kjörtímabili en frumvarp sem er ekki að öllu leyti eins og það frumvarp sem hér um ræðir. Við framsóknarmenn viljum að örlítið hærra hlutfall af námslánum breytist í styrk en þá var kveðið á um, en það er enginn grundvallarmunur á þeim frumvörpum sem lögð hafa verið fram í málinu. Ég á von á því í ljósi þeirrar umræðu sem þá fór fram að þetta frumvarp njóti víðtæks stuðnings í þingsölum Alþingis því hér er um mjög gott mál að ræða.

Við megum ekki líta á útgjöld til menntamála sem bein útgjöld. Þau eru fjárfesting, fjárfesting í þekkingu og þar af leiðandi fjárfesting í hagvexti þjóðarinnar til framtíðar litið. Ef við berum okkur saman við Dani er munurinn á þjóðunum sá að við Íslendingar búum við gríðarlegar náttúruauðlindir. Danir búa ekki við hliðstæðar náttúruauðlindir og við Íslendingar. Þeir áttuðu sig á því fyrir löngu að það væri nauðsynlegt að fjárfesta í menntun enda er menntakerfi Dana mjög framsækið og við erum að feta í svipaða átt hvað það varðar. Aðrar Norðurlandaþjóðir hafa farið svipaða leið þannig að við Íslendingar erum aftarlega á merinni hvað þetta varðar. Hins vegar ber að nefna það, þar sem sá sem hér stendur var hluti af síðustu ríkisstjórn, að framlög til menntamála í tíð þáverandi ríkisstjórnar jukust gríðarlega og framlög til menntamála í fjárlögum ársins 2007 hafa í sögulegu samhengi aldrei verið hærri. Aldrei hefur verið eins mikil gróska á háskólastiginu og framhaldsskólastiginu þannig að þau miklu framlög og sú fjárfesting sem þáverandi stjórnvöld hafa lagt til menntamála hafa skilað sér í miklum mæli. Ég hef trú á því, vil sjá það og hef þá sýn að við Íslendingar eigum að vera fremstir meðal þjóða þegar kemur að menntamálum og uppbyggingu menntamála því þetta er sú framtíð sem við viljum byggja á, að auka þekkingu okkar sem þjóðar. Þetta frumvarp er hluti af því að móta þá framtíðarsýn að styrkja okkur sem þjóð hvað þetta varðar.

Ég nefndi það áðan að kostnaður vegna þessa frumvarps er áætlaður 1,6 milljarðar kr., þ.e. beinn kostnaður. Hins vegar höfum við ekki gert ráð fyrir því og tekið tillit til þess að verði þetta að veruleika verður íslenskt skólakerfi skilvirkara, það verður meiri hvati fyrir nemendur að ljúka námi á tilsettum tíma. Þar af leiðandi mun það skila þjóðfélaginu hæfu vinnuafli fyrr en ella og því mundi þetta hafa mjög jákvæð áhrif á ríkissjóð sé litið til þess hvað varðar framlög til menntastofnana, þ.e. skilvirkni þeirra, og jafnframt til skattgreiðslna þeirra sem kæmu fyrr út á vinnumarkaðinn en ella.

Eins og ég nefndi áðan fól ágætt frumvarp sem var lagt fram af hv. þingmönnum Samfylkingarinnar í sér svipaðar efnisbreytingar, reyndar nokkru víðtækara, tók á fleiri málum, en þar voru m.a. flutningsmenn hæstv. ráðherrar Björgvin G. Sigurðsson, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Össur Skarphéðinsson og Þórunn Sveinbjarnardóttir ásamt hv. þingmönnum sem sitja nú á Alþingi, þeim Lúðvíki Bergvinssyni, Katrínu Júlíusdóttur, Helga Hjörvar, Einari Má Sigurðarsyni og Ágústi Ólafi Ágústssyni. Ég hef ástæðu til að ætla að hér sé breið samstaða um þetta mál í ljósi þess að það er ekki gríðarlegur munur á þessum frumvörpum en við höfum kosið að horfa þrengra á þessi mál, framsóknarmenn, með það að markmiði að bæta sérstaklega þennan þátt í kjörum námsmanna.

Hæstv. forseti. Ég vona, og vil, að lokinni þessari umræðu að þetta mál fái hraða og góða afgreiðslu í hv. menntamálanefnd að lokinni þessari umræðu. Það er mikilvægt að þeir þingmenn sem sitja í þeirri nefnd vinni mjög vel og hratt að þessu máli enda er hér um að ræða eitt brýnasta úrlausnarefni fyrir íslenska námsmenn á síðari tímum. Ég hef í ljósi viðbragða úr samfélaginu, sérstaklega frá námsmönnum, orðið var við að það er mikill áhugi á því hjá íslenskum námsmönnum í háskólum landsins að þetta frumvarp verði að veruleika sem allra fyrst.