135. löggjafarþing — 15. fundur,  31. okt. 2007.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

19. mál
[13:43]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það mál sem hér er lagt fram er, eins og hv. þingmaður kynnti, ekki lagt fram hér í fyrsta sinn heldur var það lagt fram af hæstv. núverandi ráðherra, Björgvini G. Sigurðssyni, á einum tveim eða þrem fyrri þingum. Það er alveg hárrétt sem þingmaðurinn sagði, það er samt ákveðinn munur á þessum frumvörpum. Ég var m.a. flutningsmaður að því máli og við vildum vissulega ganga lengra, þ.e. breyta fleiri þáttum hvað varðar Lánasjóð íslenskra námsmanna til að bæta enn frekar stöðu námsmanna, svo sem að skoða grunninn sem reiknar út námslánin og fleiri slíka þætti sem eru mikil þjóðþrifamál. Ég verð að segja alveg eins og er að mér þykir ánægjulegt að okkur í Samfylkingunni hefur greinilega gengið mjög vel í kosningabaráttunni við að sannfæra landann vegna þess að okkur tókst að sannfæra Framsóknarflokkinn um ágæti þessa máls og fleiri reyndar líka. Þetta er ekki eina þingmálið sem við samfylkingarfólk höfum flutt í þingsölum á fyrri þingum sem Framsóknarflokkurinn hefur ákveðið að endurnýta og endurflytja. Ég segi alveg eins og er, okkur hefur greinilega gengið mjög vel í þessari kosningabaráttu við að koma málum okkar á framfæri.

Um eitt vil ég þó spyrja hv. þingmann. Ég fagna því að okkur hafi tekist svo vel að koma málum okkar á framfæri við framsóknarmenn, en ég spyr hv. þingmann: Í þau 12 ár sem Framsóknarflokkurinn var í ríkisstjórn, sem var þangað til núna í vor, beitti Framsóknarflokkurinn sér innan þess ríkisstjórnarsamstarfs sem hann var í þá fyrir því að þessi leið yrði farin? Var því komið á framfæri við hæstv. menntamálaráðherra? Var því komið á framfæri í menntamálanefnd þar sem Framsóknarflokkurinn átti varaformann eða er þetta nýtilkomið (Forseti hringir.) og ætlar Framsóknarflokkurinn eingöngu að beita sér fyrir þessum ágætu málum nú þegar hann er kominn í stjórnarandstöðu?