135. löggjafarþing — 15. fundur,  31. okt. 2007.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

19. mál
[13:49]
Hlusta

Flm. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við erum að tala hér um mjög jákvætt mál, mikið framfaraspor. En í hvaða stöðu er umræðan komin hér strax í fyrsta andsvari hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur? Þetta er allt í einu orðið bara nöldur og tuð, því miður, rétt eins og síðustu viku þegar hv. þm. Höskuldur Þórhallsson kom með málefni tengt nýsköpun. Hvernig þróaðist sú umræða? Það var ekki að öllu leyti málefnaleg umræða af hálfu þingmanna Samfylkingarinnar þá. Og hver er þá tilgangur samfylkingarmanna í umræðu sem þessari? Er ekki réttara að hafa umræðuna á því stigi að hún sé uppbyggileg og að við ræðum sérstaklega um það mál sem hér er til umræðu?

Það er einfaldlega þannig, hæstv. forseti, að við gerðum margt mjög gott í menntamálum og ég er viss um að hv. þm. Katrín Júlíusdóttir er sammála því að síðasta ríkisstjórn gerði margt mjög gott í menntamálum. Við beittum okkur fyrir því, við hv. þm. Dagný Jónsdóttir, innan okkar flokks að áherslur sem þessar sem við erum að ræða hér kæmu fram í flokksþingsályktunum og höfum verið mjög jákvæð í garð námsmanna hvað þessi mál áhrærir enda er fyrrverandi hv. þm. Dagný Jónsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri stúdentaráðs Háskóla Íslands.

Ég hef alla tíð haft mjög mikinn áhuga á þessum málum. Eins ég segi þá komum við ekki öllum málum til leiðar og það er ekki hægt að framkvæma alla hluti í einu. Ég vil nú reyna að hífa þessa umræðu á jákvæðu nóturnar vegna þess að hér er um mjög gott mál að ræða. Ég hvet hv. þingmenn til þess að reyna að ræða efnisatriði þessa frumvarps og stuðla að því að þetta frumvarp (Gripið fram í.) verði gert að lögum.

Þetta mál er að nokkru leyti, eins og Katrín Júlíusdóttir fór yfir, öðruvísi en það frumvarp sem Samfylkingin lagði til á sínum tíma og því er ekki (Forseti hringir.) rétt hjá hv. þingmanni að segja að hér sé um endurunnið mál að ræða. Hér er um mál okkar framsóknarmanna að ræða (Forseti hringir.) og mál sem allir þingmenn ættu að geta staðið saman að.